Scott Eastwood, sonur Clints Eastwood, fæddist kannski með silfurskeið í munninum en hefur þó sannarlega þurft að vinna fyrir salti í grautinn. „Pabbi gaf mér aldrei krónu. Hann lét mig vinna fyrir mínu,“ segir hann. Scott er einn af sjö börnum Clints og vinnur fyrir sér sem leikari. Hann segir að í Hollywood hafi hann til að byrja með ekki verið tekinn alvarlega. „Ég er afgreiddur með orðunum: Þú ert sonur Clints Eastwood, þú ert enginn andskotans leikari. Sumir líta enn þannig á. Ég hélt aldrei að ég myndi endast í þessum bransa en nú er mér farið að ganga allt í haginn.“
Nýjasta mynd Scott er Fast and Furious 8, en þar fetar hann í fótspor vinar síns, Paul Walker heitins sem varð stjarna fyrir leik sinn í Fast and Furious-myndunum og lést árið 2013 í bílslysi, fertugur að aldri. Þeir Paul voru vinir í 15 ár og þegar Scott var boðið hlutverkið í Fast and Furious 8 hikaði hann við að taka boðinu. „Því meir sem ég hugsaði um það því sterkari var hugsunin um að Paul fylgdist með mér og segði: Ekki vera idjót, sláðu til.“ Scott segir að við tökur á myndinni hafi honum stundum fundist eins og Paul væri nálægur og þá átt bágt með að halda aftur að tárunum.