Breski rokksöngvarinn Alvin Stardust, sem lést árið 2014, átti farsælan feril. Sonur hans, Shaun Fenton, fékk frá sjö ára aldri að vaka frameftir til að sjá föður sinn skemmta á tónleikum. Faðirinn var þá leðurklæddur og með litað svart hár. Hávaðinn á tónleikunum var vitanlega mikill eins og hæfir á rokktónleikum. Shaun fékk einnig að vaka frameftir þegar gleðskapur var á heimilinu en frægðarmenni voru þar meðal gesta. Eftir þessar vökur var hann skiljanlega afar syfjaður og slappur morguninn eftir. Önnur kvöld var þess vandlega gætt að hinn ungi Shaun færi í háttinn á sómasamlegum tíma og fengi nægan svefn.
Í dag er Shaun skólastjóri í unglingaskóla og hefur miklar áhyggjur af því hversu vansvefta nútímabörn eru. Hann ráðleggur nemendum sínum að slökkva á öllum rafmagnstækjum klukkutíma áður en þeir leggjast til svefns. Hann segir: „Í framtíðinni munum við spyrja okkur: Af hverju áttuðum við okkur ekki á skaðanum sem við vorum að valda börnum okkar með því að halda að þeim lífsstíl sem rænir þau góðum nætursvefni.“ Hann segir að skortur á svefni sé þess valdandi að fjöldi barna glími við þunglyndi og kvíða. Hann er ekki einn um þessar áhyggjur en í nokkrum breskum skólum eru haldin sérstök námskeið fyrir nemendur um mikilvægi svefns.