Þurftu að brjóta rúðu til að bjarga honum – Drengurinn brosti út af eyrum allan tímann
Átján mánaða strákurinn Brandon Green læsti sig inni í bíl móður sinnar og hafði mjög gaman af. Móðirin var þó heldur áhyggjufull.
Kirsty, 27 ára, hafði farið með syni sínum í verslunarferð í heimabæ þeirra, Bude, syðst á Englandi. Að henni lokinni kom hún syni sínum fyrir í bílnum og skaust aftur út til að setja pokana í farangursrýmið. En í þann mund sem hún lokaði því, náði litli grallarinn að læsa sjálfan sig inni í bílnum – og lyklana með.
„Ég var dálítið áhyggjufull fyrst,“ útskýrir Kirsty í samtali við Mirror og bætir því við að hún hafi „brotið heilann um það hvernig hún ætti að opna bílinn.“
Fljótt varð þó ljóst að aðeins einn valmöguleiki væri í stöðunni: Kalla á hjálp. Nokkrir hjálpsamir vegfarendur lögðu Kirsty lið og síðan hringdi starfsmaður verslunarinnar í neyðarlínuna. Því næst kom slökkviliðsbíll á svæðið með tilheyrandi búnaði, stráknum til mikillar skemmtunar.
Allt gekk vel í fyrstu. Slökkviliðsmennirnir reyndu í rólegheitum að brjóta upp lásinn með handverkfærum. Sjálf var Kirsty róleg yfir öllu saman; strákurinn virtist ekkert ætla að fara sér að voða.
En síðan gjörbreytist staðan þegar Brandon stingur smámynt upp í sig og byrjar á japla á henni. Eins og kunnugt er geta slíkir hlutið vel staðið í ungum börnum.
„Á þeim tímapunkti byrjaði ég að örvænta,“ segir Kirsty. Hvað ef það stæði nú í honum?“ Slökkviliðsmennirnir hættu í framhaldinu að eiga við lásinn og brutu afturrúðu bílsins. Síðan náðu þeir að koma þeim litla út heilum að höldnu.
Líkt og mörg önnur börn, hefur Brandon dálæti á slökkviliðsmönnum – það er bara eitthvað við þá sem heillar. Brandon hafði hið mesta yndi af björgunaraðgerðum og brosti út af eyrum allan tímann – þó að móðir hans hafi ekki brosað alveg eins breitt.
Ekki var annað séð en að slökkviliðsmönnunum væri sjálfum skemmt að sjá litla kútinn svona uppveðraðan yfir aðgerðunum. Enda fara þeir ekki á hverjum degi í útköll sem þessi.