Óskarsverðlaunaleikkonan Brie Larson segir hóp vinkvenna, þar á meðal Emmu Stone og Jennifer Lawrence, hafa bjargað lífi sínu. Larson vakti gríðarlega athygli fyrir leik sinn í The Room sem færði henni Óskarinn. Leikkonan var í stöðugum viðtölum en kunni ekki vel við alla athyglina.
„Ég var einmana og stundum leið mér illa. Mér fannst óþægilegt að tala stöðugt um sjálfa mig,“ sagði hún í nýlegu viðtali við Vanity Fair. Einn daginn fékk hún tölvupóst frá Emmu Stone og skömmu síðar sendi Jennifer Lawrence henni sms-skilaboð eftir að hafa séð The Room. Í kjölfarið varð til vinahópur þeirra þriggja og fleiri leikkvenna, þar á meðal Lenu Dunham og Amy Schumer. Larson segir þennan hóp hafa bjargað lífi hennar.
„Ég gat talað við þennan hóp um allt sem var að gerast í lífi mínu, og þetta var fólk sem hafði gengið í gegnum það sama og ég.“ Hún segir konurnar í þessum hópi vera stórskemmtilegar og viðurkenning þeirra og stuðningur hafi verið henni allt í þessum tíma. Larson sagði í viðtalinu við Vanity Fair að hún hefði í æsku fengið heimakennslu og því ekki eignast vini sem höfðu sömu áhugamál og hún, það hefði því verið opinberun að eignast þessar nýju vinkonur.