Samantha var að afla heimilda fyrir skólaverkefni um glæpatíðni – móðir hennar flúði úr ofbeldissambandi með hana í móðurkviði
Samantha Bryan brá aldeilis í brún þegar hún uppgötvaði að blóðfaðir sinn væri dæmdur morðingi sem sæti bak við lás og slá. Hún var að afla heimilda á netinu fyrir skólaverkefni þegar hún rambaði á mynd af honum með móður sinni.
Samantha Bryan hefur heitið því að hún ætli aldrei að hitta alvöru föður sinn, segir í frétt á Mirror. „Hann á það aldrei skilið að ég kalli hann pabba,“ segir stúlkan, sem nú er 18 ára.
Ian Huntley var dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi 2013 fyrir að hafa ráðið tveimur tíu ára stelpum bana árið áður. Morðin áttu sér stað í þorpinu Soham í sýslunni Cambridgeshire, Austur-Englandi.
Stelpurnar tvær, Holly og Jessica höfðu skroppið úr garðveislu hjá fjölskyldu sinni til að kaupa sér sælgæti. Þær voru einar ferða sinna. Stúlkurnar sneru aldrei aftur heim. Þær hurfu sporlaust eftir að hafa keypt sér sætindin og fjölskyldan vissi ekkert hvað orðið hefði af þeim. Síðan fundust lík þeirra tveimur vikum síðar.
Huntley, sem starfaði sem umsjónarmaður í skólanum þeirra, þóttist sjálfur afar miður sín yfir hvarfi stúlknanna. Hann „hjálpaði“ meira að segja til við að upplýsa málið með því að koma fram í fréttum og hvetja morðingjann til að stíga fram. Þá hvatti hann fólk, sem kynni að búa yfir einhverjum upplýsingum, til að setja sig í samband við lögreglu.
„Ég komst að þessu í gengum skólann. Við vorum að gera úttekt á glæpatíðni á svæðinu og þegar ég byrjaði að leita á Google birtust myndir af mömmu, sem vísuðu mér beint á frétt um morðin,“ segir Samantha og bætir við að hún hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð.
Móðir Samantha, Katie Bryan, hafði einsett sér að halda faðerni dóttur sinnar leyndu meðan hún væri enn þá barn.
Það kom Samantha auðvitað í opna skjöldu að finna það út 14 ára að faðir hennar væri dæmdur morðingi, en hún er samt fegin að hafa ekki fundið það út enn yngri.
„Ég var alls ekki reið út í mömmu. Í hennar sporum hefði ég gert það nákvæmlega sama, ég hefði ekki viljað að börnin mín vissu svona lagað,“ segir Samantha og er þakklát móður sinni fyrir að hafa haldið upplýsingunum frá sér.
Katie var ung að árum þegar leiðir hennar og morðingjans lágu saman. Þau kynntust 15 ára og byrjuðu strax að búa. En skömmu eftir kynnin mátti Katie þola barsmíðar af hálfu Ian, sem beitti hana heimilisofbeldi og hreytti í hana hótyrðum.
Eitt sinn brenndi Katie óvart kvöldverðinn við litla hrifningu unnustans. „Hann sagði að ég væri einskis viðri og gerði ekkert rétt,“ segir Katie í samtali við Mirror uns hún rifjar upp erfiðu árin sín í sambúð með Ian.
„Hann taldi mig vera að neyða sig til að borða rusl og píndi mig á móti til að borða kattamat.“ Hinar svokölluðu hefndaraðgerðir Ian við því að hafa fengið brenndan mat voru vægast sagt grimmar. „Hann þröngvaði höfðinu mínu ofan í kattamatinn og reyndi að troða honum upp í mig,“ segir Catie og hryllir við tilhugsuninni.
En þetta var aðeins upphafið að ofbeldisverkum hans. Katie sagði skilið við Ian fyrir fullt og allt þegar hann kýldi hana af fullum krafti í kviðinn. En hann var ekki að kýla einn heldur tvo, því Katie var ófrísk af Samantha og var komin þrjá mánuði á leið. Hún náði þó að flýja undan fyrir rest og koma sér og barninu í öruggt skjól – barninu sem uppgötvaði síðan 14 árum síðar að hún ætti morðingja að föður.
Katie ætlaði sér að halda faðerninu leyndu frá dóttur sinni eins lengi og hún gæti eða þangað til hún yrði nógu gömul til að geta tekið við upplýsingunum, en þegar Samantha varð 11 ára fékk hún að vita að faðir sinn væri vondur maður og hún þyrfti aldrei að sjá hann.
Samantha telur móður sína hafa farið hárrétt að öllu saman, en hún útskýrði forsögu mannsins ekki almennilega fyrir henni fyrr en hún varð 18 ára – fjórum árum eftir að Samantha komst að raun um föður sinn. Þá sýndi hún henni bunka af útklipptum blaðagreinum sem allar fjölluðu um glæpsamlega fortíð Ian.
„Þetta gerði mér ljóst hve hugrökk og sterk þú ert í raun og hve vænt mér þykir um þig!“ segir Samantha og bætir við að hún sé að minnsta kosti stolt af að vera dóttir einhvers; hennar móður sinnar.