Synir Díönu prinsessu, Vilhjálmur og Harry, munu ræða um hana í tveimur heimildaþáttum sem sýndir verða á BBC og ITV í ágúst en þá verða 20 ár liðin frá dauða hennar. Díana var 37 ára gömul þegar hún lést í bílslysi í París og synir hennar voru þá 15 og 12 ára gamlir. Vilhjálmur sagði fyrr á þessu ári að hann hefði verið mjög reiður í mörg ár eftir dauða hennar. Harry var fyrir örfáum dögum í opinskáu viðtali við Daily Telegrah þar sem hann sagðist í mörg ár ekki hafa getap tekist á við áfallið, hefði falið tilfinningar sínar því hann hafi ekki viljað hugsa um það sem gerðist. Hann hefði síðan fyrir hvatningu bróður síns leitað sér sálfræðiaðstoðar.
Heimildamyndirnar eru unnar í samvinnu við prinsana sem sáu um að velja nána vini og fjölskyldumeðlimi sem segja frá kynnum sínum af Díönu og sumir ræða þar í fyrsta sinn opinberlega um hana. Bróðir Díönu, Spencer jarl, sem flutti fræga ræðu við útför hennar er meðal þeirra sem rætt verður við.