Andrew Lloyd Webber segist afskaplega ánægður með að hafa ekki erft auð. Hann er forríkur og á fimm börn en segist ekki ætla að láta börn sín erfa megnið af auðæfunum. Hann segir það geta haft afar slæm áhrif á börn að fá auðæfi í arf, það sé ekki sniðugt að mata börn á peningum. Sjálfur fæddist hann inn í miðstéttarfjölskyldu sem hafði yndi af tónlist og byrjaði að semja tónverk rúmlega níu ára gamall.
Tónskáldið hefur notið gríðarlegrar velgengni í áratugi. Söngleikur hans Óperudraugurinn (Phantom of the Opera) heftur verið samfellt í sýningum á Broadway í 29 ár og í London í 31 ár. Enginn söngleikur kemst nálægt því að slá það met. Í byrjun þessa árs voru fjórir söngleikir hans á fjölum Broadway: Cats, Óperudraugurinn, School of Rock og Sunset Boulevard.
Lloyd Webber er 69 ára gamall. Fyrir nokkrum árum fékk hann krabbamein og þurfti síðan að gangast undir aðgerð í baki en þar fór sitthvað úrskeiðis og hann var mjög þjáður. Þegar hann náði heilsu á ný sneri hann sér að því að semja og til varð söngleikurinn School of Rock sem hefur slegið í gegn.
Lloyd Webber eyðir drjúgum tíma í Bandaríkjunum. Donald Trump er meðal aðdáenda og í kosningabaráttunni bauð hann Lloyd Webber í kaffi og ræddi fjálglega um fallega söngrödd fyrrverandi eiginkonu Lloyd Webber, Söru Brightman. Lloyd Webber segir að hann hafi fengið á tilfinninguna að Trump væri ákaflega undrandi yfir því mikla fylgi sem hann hefði sankað að sér. „Hann leit ekki út fyrir að vera maður sem hefði ástríðufullan áhuga á að verða forseti Bandaríkjanna,“ sagði Lloyd Webber nýlega í viðtali.