Ekki allir sáttir við myndina It sem gerð er eftir samnefndri bók Stephens King
Talsverð eftirvænting ríkir meðal hrollvekjuunnenda vegna myndarinnar It sem frumsýnd verður í haust. Um er að ræða mynd sem byggð er á samnefndri skáldsögu Stephens King frá árinu 1986.
Á dögunum var frumsýnd stikla vegna myndarinnar en hún þykir sýna trúða í heldur neikvæðu ljósi. Myndin segir jú frá yfirnáttúrulegri veru, Pennywise að nafni, sem gerir börnum í bænum Derry í Maine lífið leitt. Pennywise er trúður sem heldur til í holræsakerfi bæjarins.
Eftir að stiklan var frumsýnd brugðust atvinnutrúðar ókvæða við. Einn þeirra er Matthew Faint sem hefur lifibrauð sitt af því að koma fram í gervi trúðsins Mattie. „Við þurfum að berjast fyrir tilvist okkar. Þetta er hræðileg mynd og við viljum ekki láta tengja okkur við hana. Við þurfum ekki á þessu að halda,“ hafði Sky News eftir Matthew.
Celine Harland er annar atvinnutrúður og segir hún að myndin komi út á slæmum tíma. Ekki er langt síðan greint var frá holskeflu óhugnanlegra atvika þegar einstaklingar í trúðagervi gerðu börnum og fullorðnum lífið leitt, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.
„Þetta mun hafa áhrif á atvinnu okkar. Ég hef verið að fá afbókanir frá fólki og kennurum sem óttast að börnin verði hrædd,“ segir hún.