Oprah Winfrey er ein þekktasta kona heims. Í nýlegu viðtali sagðist þessi fræga sjónvarpsstjarna ekki iðrast þess að hafa ekki eignast barn með sambýlismanni sínum til 30 ára, Stedman Graham. Á tímabili voru þau í hjónabandshugleiðingum en féllu síðan frá því. Steadman er fyrirlesari og höfundur sjálfshjálparbóka. Hann á eina dóttur.
Oprah segist oft hafa fundið fyrir utanaðkomandi þrýstingi frá fólki sem ráðlagði henni að giftast og eignast börn, en hún hefur aldrei haft áhuga á því. „Ég hefði ekki orðið góð móðir, ég hef ekki þolinmæðina í það,“ segir hún. Reyndar fæddi Oprah son fyrir tímann þegar hún var einungis 14 ára gömul en hann dó skömmu eftir fæðingu.
Það er samt ekki svo að hin frelsiselskandi Oprah sinni ekki börnum því árið 2007 stofnaði hún heimavistarskóla fyrir um 200 stúlkur í Afríku. Hún segir það hafa verið gríðarlega gefandi. „Ég gerði þetta til að hjálpa þeim og þannig kom ljós inn í líf mitt.“ Oprah veit sitthvað um fátækt en hún ólst upp við afar kröpp kjör. Í dag er Oprah í hópi valdamestu kvenna heims, er forrík og þykir einstaklega gjafmild og hjartahlý kona.