fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

„Ræturnar eru í Póllandi en hjartað er á Íslandi“

Ætlaði heim eftir viku en ílentist og lærði íslensku – Hjalti og Aneta: Ást við fyrstu sýn – Halda uppi öflugu íslenskunámi fyrir innflytjendur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 24. mars 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég kom hingað til að verða barnfóstra hjá íslenskri fjölskyldu – au pair. Þetta var í janúar, það var ofboðslega kalt, allt of mikill vindur, og það var svo dimmt. Mér leist ömurlega á þetta og ætlaði heim eftir viku. En svo ákvað ég að þrauka og klára starfssamninginn við fjölskylduna sem var níu mánuðir,“ segir Aneta Matuszewska, sem kom til Íslands frá Póllandi fyrst árið 2001. Hana óraði ekki fyrir því að 16 árum síðar byggi hún enn á landinu. Eitt leiddi af öðru: Anetu bauðst vinna á leikskóla þar sem hún segir að afar vel hafi verið tekið á móti henni. Hún áttaði sig fljótt á því að hún myndi njóta sín mun betur í leik og starfi ef hún lærði tungu heimamanna og eftir innan við þriggja ára dvöl á Íslandi var hún orðin vel talandi á málinu. Á fimmta ári sínu á Íslandi kynntist Aneta síðan ástinni með óvæntum og vægast sagt afar hröðum hætti en hún og eiginmaður hennar, Hjalti Ómarsson, voru nánast óaðskiljanleg allt frá því þau litu hvort annað fyrst augum.

Aneta er núna skólastjóri hjá Retor fræðslu, fyrirtæki sem hún og Hjalti reka saman. Starfsemin felst í íslenskukennslu fyrir innflytjendur og hefur Retor undanfarið gert samstarfssamninga við mörg fyrirtæki um íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk og innleiðingu íslensku sem leiðandi tungumáls á vinnustöðum þar sem eru margir erlendir starfsmenn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aneta er 39 ára gömul en Hjalti 32 ára. Blaðamaður DV átti gott spjall við þau hjón í rúmgóðum og smekklegum húsakynnum Retor fræðslu að Hlíðarsmára 8. Fljótlega eftir að spjallið hófst spurði blaðamaður Anetu út í uppruna hennar og hvort hún hafi snemma orðið góð í tungumálum en hún hefur talað reiprennandi íslensku árum saman:
„Ég er frá bænum Leszno sem liggur á milli tveggja borga, Poznan og Wroclaw, og er jafnframt ekki langt frá höfuðborg Þýskalands, Berlín. Ég held ég hafi almennt átt gott með að læra tungumál en mér gekk samt ekki sérlega vel í rússnesku og þýsku í grunnskóla vegna þess að þetta voru skyldufög og þess vegna upplifði ég þau sem kvöð. Þegar ég var komin í framhaldsskóla voru breyttir tímar og mér stóð til boða að læra ensku sem ég greip. Enskan var alltaf í æðum mínum, ég heyrði hana í útvarpinu og sjónvarpinu og mér veittist auðveldara að læra hana en hin málin.“

Rétt eins og það tók Anetu nokkurn tíma að sætta sig við íslenska veðráttu og dimma vetrardaga þá leist henni ekkert á tungumálið í byrjun námsins: „Ég lærði hjá Námsflokkum Reykjavíkur sem þá voru staðsettir við Tjörnina. Þetta voru mjög skemmtileg námskeið og ég lærði mikið. En mér fannst þetta tungumál hræðilegt í byrjun. Það hafði kannski eitthvað með það að gera að kennarinn spurði okkur spurninga í fyrsta tímanum sem voru mjög krefjandi fyrir byrjendur í málinu og þetta vakti mér kvíða. En ég ákvað að halda áfram og smám saman varð þetta auðveldara.“
Eftir fjögurra ára dvöl á landinu fór Aneta sjálf að kenna innflytjendum íslensku og fékk starf við það hjá Mími – símenntun þar sem henni líkaði mjög vel. Síðar átti hún sjálf eftir að byggja upp eigin skóla í íslenskukennslu.

Ást við fyrstu sýn

Áhugavert er að fylgjast með viðbrögðum Anetu og Hjalta þegar blaðamaður beinir talinu að fyrstu kynnum þeirra. Ljóst er að sú stund var eftirminnileg og kemur þeim enn í geðshræringu. Þegar þetta var starfaði Aneta á leikskóla í Árbæ og Hjalti kom þangað nýr til starfa. Þetta var í nóvember árið 2006. Við gefum Hjalta orðið:

„Það var þannig að mig langaði til að prófa eitthvað nýtt og réð mig í vinnu á leikskóla. Það var mjög skemmtileg tilbreyting frá fyrri störfum. Fyrsta vinnudaginn minn gekk ég inn á kaffistofu og þar voru samankomnar allar konurnar sem voru að vinna þarna til að taka á móti karlmanninum sem ætlaði að fara að vinna á leikskólanum. Þarna sá ég Anetu í fyrsta sinn – augu okkar mættust og það varð ekki aftur snúið.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þannig að þetta var ást við fyrstu sýn?

„Já, hjartað í mér slær örar í hvert skipti sem ég rifja upp þetta augnablik. Þetta var ótrúlegt augnablik.“
„Ég fann þetta líka strax,“ segir Aneta og bætir síðan við hikandi: „Ég var í öðru sambandi á þessum tíma.“

„Þannig að á því augnabliki þegar Aneta leit mig fyrst augum gerði hún sér grein fyrir því að hún var komin í vandræði,“ segir Hjalti.

Upp frá þessu voru Aneta og Hjalti nánast óaðskiljanleg og létu það ekki þvælast fyrir sér að þau unnu ekki á sömu deildinni á leikskólanum. Þau fundu sífellt tilefni til að hittast og ræða saman í vinnunni.

„Aðeins þremur mánuðum síðar var hún flutt inn til mín og um vorið 2007 trúlofuðum við okkur,“ segir Hjalti.

Hjalti og Aneta koma fyrir sjónir sem yfirvegað, skynsamt og rólegt fólk. Ljóst er að þau eru enn snortin yfir því hvað ástin greip þau heljartökum á sínum tíma svo ekki varð aftur snúið frá fyrsta augnatilliti.

Aneta var orðin altalandi á íslensku og þurfti í sjálfu sér ekki á Hjalta að halda til að ná tökum á málinu – en hins vegar:
„Ég kunni alltaf vel að meta það hjá Hjalta að hann var alltaf tilbúinn að leiðrétta mig. Ég tek öllum leiðréttingum fagnandi því það gerir mig betri í málinu og betri kennara.“

Hjalti: „Því má bæta við að það var sérstök upplifun fyrir mig að vera beðinn um að leiðrétta málfar manneskju, að hún sæktist eftir því. Að henni liði vel með það. Mér átti að líða vel með að leiðrétta hana en manni finnst slíkt alltaf vera afskiptasemi. Það tók dálítinn tíma til að venjast því.“

Gera íslensku að leiðandi tungumáli

Hugmyndin að stofnun eigin skóla fæddist árið 2006 þegar Aneta var enn að kenna hjá Mími – símenntun. Framkvæmdin hófst hins vegar ekki fyrr en um mitt ár 2008. Aneta segir að Hjalti hafi þar ráðið úrslitum um að þau hrintu hugmyndinni í framkvæmd:

„Hann ýtti mér út í djúpu laugina. Sagði: „Annaðhvort gerum við þetta núna eða það verður ekkert úr því.““

Retor bauð í upphafi íslenskukennslu fyrir öll þjóðerni en smám saman tók starfið að einskorðast við íslenskukennslu fyrir Pólverja þar sem þörfin var afar mikil. Undanfarin misseri hefur Retor gert samstarfssamninga við mörg fyrirtæki þar sem erlendu starfsfólki er veitt íslenskukennsla.

Jafnframt veitir Retor ráðgjöf til íslenskra starfsmanna fyrirtækjanna um samskipti á íslensku við erlent starfsfólk með litla íslenskukunnáttu. Unnið er eftir þeirri stefnu að íslenska sé leiðandi tungumál á vinnustöðum þar sem eru margir erlendir starfsmenn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aneta segir mikilvægt að Íslendingar leggi enskuna á hilluna í samskiptum sínum við innflytjendur sem eru að reyna að læra íslensku. Mikilvægt sé að sýna þolinmæði og ekki svara fólki á ensku ef það talar ekki fullkomna íslensku.

Hún segir enn fremur að hún vilji gjarnan að settar séu skýrar reglur um að innflytjendum sé skylt að læra íslensku. Jafnframt því þurfi að vera nægilegt framboð af fjölbreyttu íslenskunámi við allra hæfi. Þar megi ríkið gjarnan styðja við starf þeirra sem bjóða upp á íslenskukennslu fyrir útlendinga en vissulega kosti það peninga. Hins vegar sé íslenskukunnátta innflytjenda góð fjárfesting bæði fyrir þá og þjóðfélagið. Það geri þeim kleift að nýta menntun sína og hugmyndir betur hér á landi, bæði þeim sjálfum og þjóðfélaginu til hagsbóta. „Hér eru margir Pólverjar með frábæra menntun og frábærar hugmyndir, en tungumálið stendur í veginum,“ segir Aneta.

Meira lífsgæðakapphlaup í Póllandi

En hvernig er það, hefur Aneta átt í einhverjum erfiðleikum með að venjast Íslendingum? Eru Íslendingar og Pólverjar líkir?
„Mín skoðun er sú að þegar maður ákveður að búa í öðru landi þá sé það ókurteisi að vilja breyta siðum og venjum í sínu umhverfi. Maður á að aðlagast. Ég er gestur og verð alltaf gestur á Íslandi. Það er ekki mitt að hneykslast á því að fólk hér borði hákarl og harðfisk. Mér þykir þetta skrýtinn matur en það er ekki mitt að dæma hvort hann er góður eða vondur. Ég ber virðingu fyrir Íslandi og Íslendingum en í daglegu lífi rekst maður samt auðvitað á eitt og annað sem manni þykir skrýtið.“

„Þegar maður finnur jafnvægi milli þess að vera innflytjandi með sínar hefðir, sitt tungumál, fjölskyldu og allt sem maður tengir við ættjörð sína – milli þessara þátta og þess að búa í öðru landi, að umgangast Íslendinga á Íslandi, tala íslensku – þegar maður finnur jafnvægi milli þessara heima finnur maður frið og líður vel. Það gengur ekki að reyna að berjast gegn hefðum sem ríkja í gestalandinu og segja að þær séu heimskulegar. Hins vegar mætti ríkja meiri skilningur í garð innflytjenda á Íslandi. Það mætti draga úr dómhörku en hún er því miður nokkuð útbreidd.“

Aneta segir að bæði Íslendingar og Pólverjar leggi mikið upp úr góðu fjölskyldulífi og að fjölskyldan eigi gæðastundir saman. Enn fremur séu báðar þjóðir miklir náttúruunnendur. „Náttúran í Póllandi er öðruvísi að því leyti að þar eru miklu meiri skógar. Í Póllandi höfum við þetta allt, sjó, fjöll og skóga.“

„Ég myndi hins vegar segja að það sé meiri streita í Póllandi en á Íslandi og lífsgæðakapphlaupið enn harðara. Fólk leggur mikið upp úr að eignast hluti til að ganga í augun á nágrannanum. Á sama tíma getur þetta land ekki veitt mér vinnu við hæfi og ég get ekki fengið lán þar til að kaupa húsnæði. Það finnst mér sorglegt. Í heildina eru lífskjör betri á Íslandi.“

Aneta segir hins vegar að líklega séu Pólverjar heldur agaðri og skipulagðari en Íslendingar. Hjalti skýtur inn í að „þetta reddast“-hugsunarhátturinn sem margir telja útbreiddan hér á landi sé Pólverjum framandi.

Kúpla sig út á ferðalögum – stefna að ættleiðingu

Hjalti sér um mannauðsmál, rekstur og kynningarmál hjá Retor á meðan Aneta er skólastjóri og kennari. Undir starfssvið Hjalta fellur meðal annars það að þróa samstarf við fyrirtæki um íslenskukennslu erlendra starfsmanna en Retor hefur meðal annars gert samstarfssamninga við Strætó, Kynnisferðir, Hagkaup, Subway og fleiri fyrirtæki.
Aneta kennir mikið í skólanum, stýrir kennurum og hugar að gæði kennslunnar, sem og að nýjum hugmyndum í náminu. Allir kennarar við skólann eru innflytjendur en það er stefna Retor að allir kennarar hafi verið í þeim sporum að hafa þurft að læra íslensku. Jafningjahugsun er ríkjandi þar sem kennarinn er að miðla þekkingu sinni og reynslu til nemendanna en er ekki yfir þá hafinn.

Aneta segir að starfsfólkið í skólanum sé frábært og það hefði aldrei verið hægt að láta draum hennar rætast ef ekki væri fyrir þetta ósérhlífna starfsfólk sem allt hefur stefnt að sama markmiðinu.

Aneta og Hjalti ferðast mikið, þau fara skiljanlega mjög oft til Póllands en fleiri lönd eru í uppáhaldi, til dæmis Grikkland. Þau hafa enn fremur farið saman til Parísar, Túnis, Spánar og fleiri landa.

„Á ferðalögum erlendis náum við virkilega að kúpla okkur frá vinnunni. Við reynum að gera það heima líka eftir vinnudaginn en það tekst ekki alltaf. Við höfum samstarf okkar á mjög faglegum nótum og því er ekki mikið svigrúm fyrir rómantík í vinnunni. Erlendis náum við virkilega að vera bara hvort með öðru og leggjum vinnuna til hliðar,“ segir Hjalti.

Aneta og Hjalti geta ekki átt börn saman. Fyrir skömmu síðan ákváðu þau að stefna á ættleiðingu.
„Þegar við tókum þessa ákvörðun breyttist staða okkar frá því að geta ekki átt börn yfir í það að geta ákveðið hvenær við viljum stofna fjölskyldu. Það er mikil breyting,“ segir Hjalti.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Aneta kom fyrst til Íslands til að gæta barna fyrir íslenska fjölskyldu og ætlaði að dveljast hér í skamman tíma. Sextán ár hafa liðið, hún er gift og rekur hér fyrirtæki, nokkuð sem hana óraði aldrei fyrir á fyrstu mánuðum hennar hér á landi. Aneta lítur á sig sem Pólverja og sem gest á Íslandi þrátt fyrir allt. En Ísland er henni samt afar kært og mikilvægt – eða eins og hún orðar það:
„Ræturnar eru í Póllandi en hjartað er á Íslandi.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=sywhCFlVWu4&w=560&h=315]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“