Knattspyrnukappinn fyrrverandi, David Beckham, varð fyrir barðinu á óprúttnum tölvuhökkurum á dögunum. Brotist var inn í netþjóna almannatengslafyrirtækis sem sér um mál Beckhams og komust tölvuþrjótarnir yfir þúsundir tölvupósta fyrirtækisins.
Breska blaðið Mirror greinir frá því í dag að þrjótarnir hafi farið fram á eina milljón evra, rúmar 120 milljónir króna, fyrir það eitt að gera tölvupóstana ekki opinbera. Sumir þeirra innihéldu viðkvæmar upplýsingar sem vörðuðu David Beckham, meðal annars óánægju hans með að hafa ekki verið sleginn til riddara árið 2013. Ekki var orðið við beiðni þrjótanna og því voru tölvupóstarnir gerðir opinberir.
Talið er að þrjótarnir hafi notað rússneska netþjóna til að komast yfir gögnin en ekki liggur fyrir hver stóð að baki innbrotinu.
Samkvæmt frétt Mirror sendu tölvuþrjótanir kröfubréf á Doyen Sports þar sem útlistuðu hvað myndi gerast ef fyrirtækið greiddi ekki umrædda upphæð. Þetta var undir lok nýliðins árs en forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu umsvifalaust samband við lögreglu.
Heimildarmaður blaðsins segir að David Beckham sjálfur hafi ekki verið skotspónn tölvuþrjótanna heldur hafi hann í raun lent á milli. „Þeir fóru á veiðar og David flæktist í netinu,“ segir heimildarmaðurinn.