Logi Bergmann Eiðsson mun hefja störf hjá Símanum og Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, snemma á nýju ári. Samkomulag milli Loga og 365 miðla um starfslok hans er í höfn.
Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins og vísað í fréttatilkynningu sem DV barst ekki.
Þar segir að Logi muni hefja hefðbundin útvarpsstörf þann 1. mars næstkomandi og sjónvarpsstörf þann 1. maí. Árvakur og Fjarskipti munu hafa samþykkt þetta fyrirkomulag.
Eins og greint var frá í október var lögbann lagt á starf Loga hjá Símanum og Árvakri. 365 gerði kröfu um að lögbann yrði sett á vinnu hans þar sem fyrirtækið taldi að Logi væri að brjóta gegn ráðningarsamningi sínum við fyrirtækið. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu varð við því en nú er samkomulag í höfn og Logi senn laus allra mála hjá 365.