Siggi Hall er móðurbróðir Katrínar Halldóru
Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur heldur betur slegið í gegn á árinu með túlkun sinni á goðsögninni Elly Vilhjálms. Hvorki þjóðin né gagnrýnendur halda vatni yfir frammistöðu leikkonunnar og ekki síst söngrödd hennar sem þykir fögur og tær.
Færri vita að Katrín Halldóra og einn þekktasti matreiðslumaður landsins, Siggi Hall, eru náskyld. Siggi er bróðir Ragnheiðar Kristínar Hall, móður Katrínar Halldóru.
Siggi Hall hefur um árabil verið einn ástsælasti kokkur landsins og það er ekki síst því að þakka að hann hefur komið reglulega fram í sjónvarpi landsmanna í gegnum árin. Hann gerir það nú gott í sjónvarpsþáttunum Ísskápastríð á Stöð 2 þar sem hann er í hlutverki dómara ásamt Hrefnu Sætran.