Eignaðist barn 18 ára – Slóst við Stein Ármann – Erótískar myndatökur óvissuferð – Átti ekki fyrir páskaeggjum
Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, hefur komið víða við í lífi sínu á sviði lista og fræða. Kristinn Haukur heimsótti hann í kirkjuna og spurði meðal annars út í grínferilinn, ritstjórnina á Bleiku og bláu, prestsstörfin og baráttuna við áfengið. Þetta er brot úr löngu viðtali í helgarblaði DV.
Dagskráin er þétt hjá séra Davíð enda komin aðventa og sá tími þegar börn í leik- og grunnskólum landsins heimsækja kirkjur. Slíkar heimsóknir hafa þó verið umdeildar á undanförnum árum. Þegar blaðamaður hitti Davíð fyrir í safnaðarheimilinu í Laugarneskirkju var hann nýbúinn að taka á móti hóp af fimmtu bekkingum. „Hér pössum við upp á að þessar heimsóknir séu alltaf að frumkvæði skólans og á forsendum hans. Við eru ekki með trúboð nema upp að því marki að hægt sé að kalla fræðslu um kristna trú trúboð. Börnin eru ekki látin taka þátt í neinni trúariðkun eins og bænum eða biblíulestri.“ Hann segir börnin læra um kirkjuna sjálfa og starfið sem þar fer fram.
Agnúast fólk út í þessar heimsóknir við ykkur?
„Já, já, það kemur alltaf fyrir. Ég get ekkert fullyrt um hvernig þessar skólaheimsóknir hafa verið í gegnum tíðina og ábyggilega er ástæða til þess að fetta fingur út í eitt og annað sem þar hefur verið gert. Það er alltaf slæmt þegar börn eru tekin út úr hópnum. Þess vegna leggjum við áherslu á að komið sé með allan hópinn, börn trúlausra foreldra og íslömsk börn. Þeim er alveg óhætt hér og verða ekki fyrir neinni innrætingu.“
Davíð telur að trúfrelsi eigi að vera opið og jákvætt þannig að fólk fái fræðslu um starf allra trúfélaga. Ef dyrnar eru lokaðar viti enginn hvað gerist á bak við þær og fordómar þrífast. „Við hlökkum mjög til þegar moskan verður loksins komin upp og farið verður í skólaheimsóknir á ramadan til að fá fræðslu. Ég held til dæmis að íslamskir krakkar yrðu fyrir mun minni fordómum og tortryggni ef bekkurinn færi allur saman í moskuna og sæi að þetta er ekkert nema öðruvísi kirkja.“ Hann segir að foreldrar eigi rétt á því að börnum þeirra séu ekki innrætt trúarbrögð í skólum en ekki rétt á að neita þeim um fræðslu.