fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024

Smári ældi á kærustuna í kirkjunni: Byrjaði að drekka 12 ára – „Hvert einasta kvöld drakk ég þar til ég dó áfengisdauða“

Byrjaði að drekka 12 ára – Fékk heiftarlega áfengiseitrun 2014 – Mikil vanlíðan fylgdi drykkjunni

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 6. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Smári Guðmundsson er 38 ára tónlistar- og fjöllistamaður. Hann er í hljómsveitinni Klassart og var að skrifa sinn fyrsta söngleik, „Mystery Boy“. Smári er einnig alkóhólisti. Hann var einungis tólf ára gamall þegar hann byrjaði að drekka. Nítján ára varð hann háður verkjatöflum.

Í einlægu viðtali við Guðrúnu Ósk Guðjónsdóttur ræðir Smári um alkóhólismann sem náði snemma tökum á lífi hans, baráttuna við þunglyndi og kvíða, vanlíðan sem fylgdi drykkjunni og ferlið sem leiddi til þess að hann varð edrú.

„Ég byrjaði að drekka tólf ára gamall. Ég og skólafélagarnir vorum að fikta við áfengi. Ég fann það strax að áfengi væri eitthvað sem hentaði mér því mér leið svo vel þegar ég drakk. Ég man hvað mér fannst það gaman,“

segir Smári. Smári stundaði íþróttir af kappi.

„Íþróttirnar unnu á móti drykkjunni. Þegar ég var unglingur drakk ég stanslaust um helgar en ég var í góðu líkamlegu formi. Þegar keppnistímabilið í fótboltanum stóð yfir þá dró ég úr drykkjunni.“

Þrettán ára drakk Smári um hverja einustu helgi.

„Ég mætti þunnur í fermingarfræðsluna. Á kirkjubekknum fyrir framan mig sátu kærasta mín og vinkonur hennar. Ég ældi yfir þær og það varð gríðarlegt uppnám. Ég ældi einnig á stéttina fyrir utan kirkjuna. Þegar presturinn var að kveðja okkur unglingana þá stóð hann í ælunni. Helgina eftir, í næstu fermingarfræðslu, var ekki búið að þrífa upp æluna og lyktin var viðbjóðsleg. Mamma grátbað mig um að hætta að drekka en mér fannst það ekki koma til greina. Drykkjan var komin til að vera.“

Varð háður verkjatöflum nítján ára

Smári lenti í bílslysi þegar hann var nítján ára. Í kjölfarið fékk hann sterk verkjalyf sem hann varð fljótlega háður.

„Ég reyndi að vera í fótboltanum en það var erfitt vegna bakverkja. Ég tók verkjatöflu fyrir allar æfingar og leiki. Síðan byrjaði ég að taka verkjatöflur þegar ég var að drekka.“

Smári kynntist einnig örvandi efnum á þessum tíma. „Í gegnum fótboltann kynntist ég Ripped Fuel. Það kom mér af stað fyrir leiki. Það er efedrín í Ripped Fuel og það er ólöglegt í dag. En það var mjög algengt að knattspyrnumenn fengju sér Ripped Fuel fyrir leiki. Ripped Fuel fór mjög í skapið á mér og það var erfitt fyrir mig að spila fótbolta. Ég byrjaði að kaupa hreint efedrín og varð háður því. Ég gat varla farið á fætur á morgnana án þess að fá mér efedrín. Ef ég fór í skólann án þess að fá mér efedrín var dagurinn ónýtur. Þarna var strax farið að verða ljóst hversu mikill fíkill ég er. Ég misnotaði bæði áfengi og töflur. Ég áttaði mig ekki á því að ég ætti við vandamál að stríða fyrr en ég var 37 ára.“

Þróaði sjúkdóminn með sér

Höfundur söngleiksins „Mystery Boy“ sem fjallar um ungan strák og baráttu hans við alkóhólisma.

Smári Guðmundsson Höfundur söngleiksins „Mystery Boy“ sem fjallar um ungan strák og baráttu hans við alkóhólisma.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Næstu átján árin drakk Smári. „Ég þróaði sjúkdóminn með mér. Þegar ég var yngri var ég alltaf með eitthvert vesen. Ég drakk of mikið og gerði eitthvað af mér. Með árunum sá ég að það gengi ekki að lenda sífellt í veseni þegar ég var að drekka. Ég lærði að drekka minna á skemmtistöðum og á meðal fólks. Ég hafði hemil á mér þar til ég var kominn heim og þá hellti ég í mig. Mesta drykkjan fór fram heima. Þar drakk ég þangað til ég sofnaði.“

Vildi frekar deyja

Árið 2014 fékk Smári heiftarlega áfengiseitrun heima hjá sér. „Ég hafði fengið nokkrar slæmar áfengiseitranir áður en þessi var sú versta. Ég varð allur gulur á litinn. Mér fannst eins og innyfli mín væru að brenna. Ég lá á gólfinu sárþjáður en þorði ekki að hringja á sjúkrabíl. Ég skammaðist mín svo mikið að ég vildi frekar deyja. Það kom ekki til greina að hringja á hjálp. Eftir áfengiseitrunina hugsaði ég með mér að ég ætti kannski við vandamál að stríða. Ég ætlaði að hætta að drekka í kjölfarið en gat það ekki.“

Smári reyndi oft að hætta að drekka eftir þessa áfengiseitrun en byrjaði alltaf aftur. „Ég hafði enga trú á mér og gafst upp að lokum. Vonbrigðin urðu mikil þegar ég byrjaði að drekka aftur eftir að hafa hætt. Ég hætti við að hætta. Löngunin til að hætta var einfaldlega ekki til staðar. Mér fannst of gott að drekka.“

Smári hætti að drekka í tíu mánuði árið 2015. Hann segir að hann hafi ekki hætt fyrir sjálfan sig heldur systur sína.

„Fríða systir bað mig um að hætta að drekka. Ég hætti á hnefanum og var edrú í tíu mánuði. En ég hætti ekki fyrir mig sjálfan.“

Mikil vanlíðan

Mikil vanlíðan fylgdi drykkjunni og Smári hefur glímt við þunglyndi og kvíða í mörg ár. Hann fór til geðlæknis, sótti alls konar námskeið og fór í kvíðameðferð. Hann leitaði sífellt að að lyklinum að vellíðan.

„Heilinn skemmist mjög af drykkju. Það vantar efni í líkamann og heilann sem gerir það að verkum að manni líður illa. Niðurtúrarnir voru langverstir. Ég var búinn að prófa margt til að láta mér líða betur. Árið 2006 fór ég á geðdeild Landspítalans og var þar í tvær vikur. Ég fékk einnig þunglyndislyf. Síðan þá hef ég verið í kvíðameðferðastöðinni, farið á Dale Carnagie-námskeið og námskeið hjá Lótushúsinu. Ég reyndi allt til að mér liði betur en mér datt aldrei í hug að hætta að drekka.“

Daglegur áfengisdauði

„Ég drakk daglega í marga mánuði áður en ég fór í meðferð. Hvert einasta kvöld drakk ég þar til ég dó áfengisdauða. Ég gat ekki sofnað öðruvísi. Kvíðinn var orðinn svo mikill. Ef ég var ekki með áfengi í blóðinu þá var ég hræddur. Ég var óttasleginn við tilhugsunina um að þurfa að gera eitthvað.“

Þunglyndi og kvíði skullu yfir Smára í bylgjum. Hann upplifði bæði góða og slæma tíma. Í lokin voru tímarnir aðeins slæmir.

„Ég náði botninum sumarið 2016. Ég var í draumanámi, upptökunámi hjá Stúdíó Sýrlandi. Ég var hættur að geta stundað námið. Oft komst ég ekki í skólann því ég var fullur. Ég leyndi ástandinu gríðarlega vel. Ég laug að ég hefði ekki fengið áframhaldandi námslán og hætti í námi. Á þessum tíma leið mér óskaplega illa. Ég vaknaði á morgnana og það fyrsta sem ég gerði var að hella í mig einum eða tveimur áfengum sykurdrykkjum. Síðan fékk ég mér bjór og því næst viskí. Stundum var ég í góðum gír og fór niður á pöbb. Þar fékk ég mér nokkra bjóra og fór svo aftur heim og drakk þar til ég sofnaði. Á þessum tíma fann ég að líkami minn var á síðustu metrunum.“

Smári lokaði á fjölskyldu sína og átti erfitt með að vera í ástarsambandi. „Allt sem ógnaði drykkjunni var látið flakka. Ég hætti að tala við marga fjölskyldumeðlimi, fólk sem þykir vænt um mig og vildi hjálpa mér, en mér fannst ógna drykkjunni. Ég lokaði til dæmis alveg á Pálmar, bróður minn, því ég vissi að hann taldi mig eiga við vandamál að stríða. Sambönd fóru einnig í vaskinn vegna drykkjunnar. Kærustur mínar sáu flestar fljótlega að ég átti við vandamál að stríða. Áfengi var mín eina ást.“

Síðan Smári hætti að drekka hefur kvíðahnúturinn sem hann fann iðulega fyrir horfið.

Ætlaði að fara í meðferð

Sumarið 2016 hringdi Smári á Von SÁÁ í Efstaleiti. „Ég var í marga daga að manna mig upp í að hringja og fannst símtalið mjög erfitt. Allir svona litlir hlutir voru mikið mál. Ég hringdi og mér var sagt að göngudeildin væri lokuð. Það var nóg fyrir mig. Ég skellti á. Ég vissi ekki hvað göngudeild var eða hvað það þýddi að hún væri lokuð. Mér fannst mér vera hafnað. Ég hringdi ekki aftur og ákvað að fara ekki í meðferð. Ég hafði reynt og það var nóg.“

Smári segir að hann hafi haldið áfram að drekka stíft. Venjulega var líðan hans sveiflukennd en í þetta sinn náði hann sér ekki upp.

„Mér leið illa í marga mánuði. Mér fannst ég sökkva dýpra með hverjum deginum þannig að ég ákvað að fara á Vog í byrjun október 2016. Ég gekk inn og bað um viðtal. Á fundinum var ákveðið að ég kæmi þar inn eftir nokkra daga, ástandið á mér var hrikalegt.“

Man ekki eftir fyrstu dögunum inni á Vogi

Smári var í tíu daga á Vogi. Fyrst var hann á gjörgæsludeild þar sem hann var trappaður niður með lyfjum.

„Ég man lítið sem ekkert eftir fyrstu dögunum. Þeir voru mjög erfiðir. Þegar ég byrjaði að ná áttum naut ég mín virkilega inni á Vogi. Þarna var öll landsflóran. Það var svo mikið líf þar og mikið að gerast. Ég naut þess að vera þarna inni. Ég eignaðist strax góða vini og var mjög heppinn.“

Eftir tíu daga dvöl fór Smári heim í helgarfrí áður en hann fór í áframhaldandi meðferð á Staðarfelli. „Það var erfitt að fara aftur heim því þar fór mesta drykkjan fram. Ég sótti nokkra hluti heim til mín og fór svo til foreldra minna.“

Læra að vera edrú

Smári var í mánuð á Staðarfelli. „Inni á Vogi fer maður í afvötnun og verður edrú. Á Staðarfelli lærir maður að vera edrú. Á þessum tíma lærði ég að drykkjan er mér æðri. Ég ræð ekki við hana. Drykkjan tekur öll völd frá mér. Á hverjum morgni þarf ég að minna mig á að ég er alkóhólisti og á hverju kvöldi þakka ég fyrir að vera edrú. Þetta þarf ég að gera á hverjum degi til að halda mér edrú.“

Smári óttaðist stimplun samfélagsins. „Ein ástæðan fyrir því að ég fór ekki fyrr í meðferð var sú að ég vildi ekki vera stimplaður sem fyllibytta og aumingi sem gæti ekki ráðið við drykkju sína. Það er auðvitað ekki rétt.“

Ekki AA-maður en edrú

 „Mér finnst frábært að geta hjálpað fólki.“

Orðinn edrú „Mér finnst frábært að geta hjálpað fólki.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Starfsemin inni á Vogi er oft og tíðum misskilin. Það sem kom mér á óvart eru fyrirlestrarnir. Alls konar fyrirlestrar um alkóhólisma og hvaða áhrif sjúkdómurinn hefur á heilann. Það er almennur misskilningur að verið sé að ota trú eða AA-samtökunum að manni á Vogi. Ég er til dæmis ekki AA-maður þótt ég sé edrú. Eftir að ég opnaði mig um alkóhólisma hef ég fengið símtöl frá fólki sem vill spyrja mig ráða. Mér finnst frábært að geta hjálpað fólki. Einn sem hringdi í mig var hræddur við að fara inn á Vog. Hann vildi vita hvað væri að gerast þar, hvort verið væri að biðja þar bænir allan daginn. Ég gat miðlað reynslu minni og hann endaði með að fara í meðferð.“

Smári sækir ekki AA-fundi en les í AA-bókum. „Ég sæki hugmyndafræði um edrúmennsku alls staðar frá. Mér finnst AA-samtökin frábær þótt ég stundi ekki fundina.“

Daglegt líf eftir meðferð

Eftir dvölina á Staðarfelli tók við áframhaldandi meðferð hjá SÁÁ í Efstaleiti í Reykjavík. Smári fór þangað einu sinni í viku á fundi. Hann byrjaði einnig að vinna hjá SÁÁ.

„Mér líður vel í fyrsta skipti í langan tíma. Ég er búinn að semja heilan söngleik. Það er gríðarlega stórt verkefni að setja upp söngleik. Ég hefði aldrei getað það ef ég væri ekki edrú. Allt sem ég er að gera nú hefði ég ekki getað gert þegar ég var að drekka.“

Á Staðarfelli lærði Smári mikilvægi þess að vera í góðu líkamlegu formi. „Það hjálpar edrúmennskunni að koma sér í líkamlegt form. Ég byrjaði að hreyfa mig og fór í fjallgöngur. Ég byrjaði að stunda líkamsrækt á hverjum degi í nokkrar klukkustundir í senn. Ég mátti alls ekki missa af einum degi í ræktinni. Ég tók mataræðið alveg í gegn og fór að fasta. Ég er alkóhólisti og alkóhólistar eiga það til að vera öfgafólk. Það fylgir því að vera fíkill að fara öfgaleiðina að öllu. Mér leið samt mjög vel á þessum tíma en það var erfitt að halda þessu við.“

Smári hreyfir sig í hálftíma á hverjum degi og hafði nýlokið við sundsprett þegar blaðamaður hitti hann.

Dreymir að hann sé drukkinn

„Það er enn þá mikil úrvinnsla í gangi í heila mínum. Ég er stundum fullur í draumum. Fyrst þegar ég varð edrú þá dreymdi mig að ég væri fullur hverja einustu nótt. Þegar ég vaknaði var ég afar svekktur því ég hélt að ég væri fallinn. Mig dreymir enn þá að ég sé fullur, en ekki eins oft, kannski einu sinni eða tvisvar í viku.“

Klassart

Listamannsnafn Smára er Gudmundson. „Gudmundson er fjöllistamaður. Meginmarkmið Gudmundson er einfalt. Það er að skapa aðstæður fyrir heimsfrið. Fyrsta skrefið er innri friður og samkennd.“

Gudmundson gerir ýmislegt, er meðal annars í hljómsveitinni Klassart. Smári og Fríða, systir hans, skipa kjarna hljómsveitarinnar. Pálmar, bróðir þeirra, hefur einnig spilað með þeim ásamt fleira tónlistarfólki. Klassart hefur gefið út þrjár plötur. Fyrsta platan þeirra, „Bottle of Blues“, á tíu ára afmæli og í tilefni þess verða afmælistónleikar í Hljómahöllinni þann 30. nóvember.

„Gamla gengið sem var með okkur á fyrstu plötunni verður á tónleikunum ásamt fleira góðu fólki. Á tónleikunum ætlum við að tala um aðdragandann að lögunum og hvernig upptökurnar fóru fram. Við ætlum að segja sögur í kringum lögin og flytja plötuna í heild sinni.“

Klassart hefur átt nokkra slagara í gegnum tíðina og kannast líklega flestir við „Gamla grafreitinn“. Lagið hefur notið mikilla vinsælda og er eitt af mest spiluðu lögum á Rás 2 frá upphafi.

Bjó til karakter til að flýja

Smári bjó til karakterinn „Mystery Boy“ í kringum síðustu aldamót til að flýja vanlíðan. „Ég bjó Mystery Boy til þegar mér leið mjög illa. Kvíðinn við að fara á svið var mjög mikill þannig að ég bjó til þennan karakter til að geta verið einhver annar en ég sjálfur á sviði.“

Smári lýsir Mystery Boy sem hrokafullum elskanda. „Lög Mystery Boy eru fjörug og mikið sprell er í gangi. Mystery Boy reynir að boða það góða þótt það sé gert af sjálfselsku. Þegar ég varð edrú fann ég að Mystery Boy væri karakter sem ég gæti notað til að miðla reynslu minni sem drykkjumaður og sömuleiðis reynslu minni af ferlinu við að verða edrú. Fólk hefur ekki mikla þolinmæði gagnvart þeim sem kvarta og kveina þannig að Mystery Boy er ágætis leið til að segja sögu mína,“

segir Smári og hlær. Smári hefur samið söngleikinn „Mystery Boy“ sem fjallar um ungan strák og baráttu hans við alkóhólisma. Smári og leikfélag Keflavíkur setja söngleikinn upp. Á næstu vikum hefst leitin að leikurum.

„Þetta er gamansöngleikur fyrir alla. Skilaboðin eru frekar leynd en í grunninn er undirliggjandi boðskapur um mikilvægi þess að tengjast fólki og orku.“

Þakklátur

„Ég er mjög þakklátur fyrir hjálpina sem ég fékk hjá SÁÁ,“ segir Smári. „Ég hefði líklega ekki náð að verða edrú án þeirra hjálpar. Lífið er svo miklu auðveldara edrú. Ef áfengi eða önnur vímuefni eru að eyðileggja lífsgæði fólks þá er hægt að fara upp í Efstaleiti til SÁÁ og fá viðtal hjá ráðgjafa. Þar er ákveðið hvort næsta skref sé innlögn á Vogi eða eitthvað annað.

Ég er einstaklega þakklátur fjölskyldu minni. Stuðningurinn sem ég hef fengið frá henni er algjörlega ómetanlegur. Mér hefur aldrei liðið jafn vel og gengið eins vel og núna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Húsnæðisvandinn er óleysanlegur – ef við lærum ekki lexíu Hrunsins

Húsnæðisvandinn er óleysanlegur – ef við lærum ekki lexíu Hrunsins
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Forráðamenn Liverpool og Real munu ræða um framtíð Trent í dag

Forráðamenn Liverpool og Real munu ræða um framtíð Trent í dag
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Flækir ekki hlutina núna þegar ljótur skilnaður er í gangi – Byrjar með lögfræðingnum sem sér um málið

Flækir ekki hlutina núna þegar ljótur skilnaður er í gangi – Byrjar með lögfræðingnum sem sér um málið
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Draumalið með leikmönnum Liverpool og Real Madrid – Margt áhugavert

Draumalið með leikmönnum Liverpool og Real Madrid – Margt áhugavert
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Geymdi dóttur sína í skúffu fyrstu þrjú árin – Leit út eins og sjö mánaða barn þegar hún fannst

Geymdi dóttur sína í skúffu fyrstu þrjú árin – Leit út eins og sjö mánaða barn þegar hún fannst
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Wayne Rooney urðar yfir Guðlaug Victor og félaga – Segir að næstu sólarhringar verði helvíti

Wayne Rooney urðar yfir Guðlaug Victor og félaga – Segir að næstu sólarhringar verði helvíti