fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Ótrúlegt lífshlaup Eriks: Átti milljarða en tapaði öllu – „Íslendingar eru með svipað hugarfar og Danir“

Milljarðamæringur tapaði öllu í hruninu – Eiginkonan dæmd í fangelsi

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 24. nóvember 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Saga Danans Eriks Damgaard er að sumu leyti hliðstæð sögu Íslands síðustu tuttugu árin eða svo. Hann auðgaðist gríðarlega í viðskiptum, umkringdi sig frægu fólki og varð daglegur gestur á síðum slúðurblaðanna. Í hruninu tapaði hann öllu og varð að lokum gjaldþrota en hefur síðan risið upp úr öskustónni. Hann stofnaði bókhaldsfyrirtækið Uniconta og fyrirtækið er með söluaðila hér á landi. Í einni heimsókn sinni til landsins settist Erik niður með blaðamanni DV og ræddi ótrúlegt lífshlaup sitt.

Græddi vel á bókhaldskerfum

Erik stofnaði fyrirtækið Damgaard Data árið 1983 með bróður sínum Preben. Til að byrja með seldu þeir tölvubúnað eins og prentara, diskettur og fleira en árið 1984 fóru þeir að einblína á hugbúnað. Á þessum tíma var skortur á bókhaldsforritum og ákváðu þeir því að sérhæfa sig í því. „Þetta var góður tími til að stofna nýtt fyrirtæki því við fengum borgað strax fyrir vörurnar. Í dag tekur tíu ár að innheimta.“

Damgaard Data stækkaði stöðugt næstu árin. Upphaflega voru þeir bræður einu starfsmennirnir en um aldamótin störfuðu tæplega 600 manns hjá fyrirtækinu. Árið 1999 var fyrirtækið sett í dönsku kauphöllina. „Við fengum mikla peninga út úr þessu en vorum samt áfram meirihlutaeigendur. Við borðuðum kökuna og áttum hana áfram,“ segir Erik og hlær.

Árið 2000 var ákveðið að sameina Damgaard Data og Navision og varð þá til stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Danmerkur með um 1.300 starfsmenn. Hið nýja fyrirtækið hafði þá starfsemi á öllum Norðurlöndunum og í mörgum öðrum löndum. Velgengnin var að miklu leyti tilkomin vegna fjöltungumála bókhaldsforrits sem Erik hannaði og nefndist Dynamics AX.

Árið 2002 var hið nýsameinaða fyrirtæki selt til bandaríska tölvurisans Microsoft sem hafði þá einnig keypt annan bókhaldsrisa, Great Plains. Erik varð milljarðamæringur og flutti í kjölfarið til Seattle til að vinna fyrir Microsoft. „Þetta var alger grautur. Við vorum aðallega að setja upp Power Point-sýningar og reyna að ákveða í hvaða átt við ætluðum að fara. Þegar ég fór frá Microsoft var ekki enn þá búið að taka ákvörðun um hvaða bókhaldskerfi yrði keyrt á. Eftir að ég fór ákváðu þeir að nota mína vöru, Dynamics AX.“

Paparazzi og veruleikasjónvarp

Aðspurður hvernig það hafi verið að verða allt í einu milljarðamæringur segir Erik: „Ég breyttist ekki mikið við að verða ríkur. Ég hafði það nokkuð gott, ferðaðist um heiminn, átti fína bíla og hús í Frakklandi. Eina sem breyttist voru núllin fyrir aftan tölurnar á bankareikningnum mínum.“

„Við gerðum margt klikkað“
Erik & Anni Goes to Hollywood „Við gerðum margt klikkað“

Eftir tvö ár hætti hann að starfa hjá Microsoft og þá tók við tímabil kæruleysis. Hann vann ekki en sá milljarður danskra króna sem hann átti tvöfaldaðist á fjórum árum í kauphöllinni. Þá skildi hann við eiginkonu sína til tuttugu ára og hóf sambúð með Playboy-fyrirsætunni Anni Fønsby. Þau urðu eitt af þekktustu pörum Danmerkur og voru hundelt af paparazzi-ljósmyndurum. Einnig komu þau fram í veruleikasjónvarpsþáttaröð, Erik & Anni Goes to Hollywood, þar sem þau markaðssettu vörur í samvinnu við Hollywood-stjörnur á borð við Sharon Stone og Britney Spears. „Við gerðum margt klikkað. Þetta var mjög skemmtilegur tími og þessar Hollywood-stjörnur eru bráðfyndnar.“

Grunuð um vændisstarfsemi

Niðurtúrinn hófst eina nóttina þegar Erik og Anni voru handtekin í Danmörku í tengslum við vændisstarfsemi. „Anni var kærð en mér var sleppt áður en ákærufresturinn rann út vegna ónægra sönnunargagna.“ Anni rak hótel þar sem hægt var að leigja herbergi nokkra klukkutíma í senn, svokallað ástarhótel þar sem vændi átti sér stað. „Vændi er ekki ólöglegt í Danmörku en lögreglan hélt að hún væri melludólgur sem er ólöglegt.“ Á endanum fékk hún dóm fyrir skattalagabrot, dvaldi í einn mánuð í fangelsi og þurfti að greiða um fimm milljónir danskra króna í sekt. „Þessi starfsemi var öll greidd í svörtu. Hún talaði aldrei mikið um þetta og ég hafði nóg annað að gera og spáði því ekki mikið í þetta.“ Skömmu seinna skildu Erik og Anni.

Þetta sama ár tapaði Erik nánast öllu sínu fé. „Ég var með fjárfestingarfélag þar sem um 95 prósent eigna minna voru bundin. Ég offjárfesti í fasteignum, vindmyllugörðum og ýmsu fleira. Í upphafi gekk þetta mjög vel en eftir hrunið varð félagið gjaldþrota.“ Eina eignin sem hann átti eftir var vindmyllugarður í Þýskalandi og Erik þurfti að selja sex hús til þess að halda honum á floti. „Ég gat ekki selt garðinn og flutti úr kastala í 110 fermetra leiguíbúð. Ég var í algjöru losti á þessum tíma.“

Íslendingar nýmóðins eins og Danir

Eftir fimm ár af erfiðleikum komst Erik aftur á fæturna árið 2015. Hann seldi vindmyllugarðinn og kom á fót nýju hugbúnaðarfyrirtæki, Uniconta, sem sérhæfir sig í bókhaldskerfum með áherslu á gagnaflutning í skýjum. „Ég hringdi í fólkið sem ég vann með áður og þurfti að sannfæra alla um að ég væri hinn gamli Erik en ekki veruleikasjónvarpsflónið.“

„Íslendingar eru með svipað hugarfar og Danir, þeir hafa gaman að því nýjasta“

Nú starfa 20 starfsmenn hjá Uniconta og fyrirtækið er með söluaðila hér á Íslandi. „Ingvaldur Einarsson bankaði upp á hjá mér einn daginn og þá hófst samstarfið. Ég hafði komið hingað á tíunda áratugnum og þekki markaðinn hér ágætlega.“

En er Ísland góður staður fyrir sprotafyrirtæki í tölvugeiranum? „Já, Íslendingar eru víðsýnir og opnir fyrir því að kynna sér nýjan hugbúnað. Öfugt við til dæmis Þjóðverja sem eru mjög íhaldssamir. Íslendingar eru með svipað hugarfar og Danir, þeir hafa gaman að því nýjasta.“ Erik segir mikilvægt að sprotafyrirtæki hafi tíma til að þróa góða vöru. Markaðsstarf sé þó mesta áskorunin. „Að stofna sprotafyrirtæki er mjög dýrt vegna þess að þau þurfa að koma sér á kortið. Þar að auki tekur mun lengri tíma að innheimta í dag en áður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd