Gunnar Birgisson var um tíma á Suðurströnd Grænlands og dvaldi í þorpinu Qaqortoq. Þetta var árið 1987 og var hann að taka þátt í að reisa sútunarverksmiðju. Á Grænlandi réðst á hann hópur manna. Forsprakkarnir voru síðar drepnir. Þetta kemur fram í nýrri ævisögu Gunnars sem Orri Páll Ormarsson tók saman. Gunnar er sem kunnugt er fyrrum bæjarstjóri Kópavogs og þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Í bókinni kemur fram að Gunnar hafi verið blár og marinn eftir árásina og þá brotnuðu í honum tennur. Gunnar var staddur í Qaqortoq ásamt Einar Þorsteinssyni sem nú er látinn. Þeir höfðu nýlega afhent verksmiðjuna og höfðu komið við á eina barnum í þorpinu.
„ … þar sem þetta var um hávetur og kalt í veðri ætluðum við að taka leigubíl heim á hótel. Við vorum komnir inn í bílinn þegar hóp Grænlendinga dreif að og reif okkur út úr bílnum.“
Gunnar segir að mennirnir hafi verið fimm til sex.
„„Þú ert dauður!“ gall í einum þeirra þegar þeir óku á braut. Ekki var annað í stöðunni fyrir okkur Einar en að ganga heim, upp brekku nokkra í bænum. Þegar upp hana var komið sáum við hvar þrjótarnir biðu eftir okkur. Það þýddi bara eitt; þeir ætluðu að sýna okkur í tvo heimana.“
Gunnar segir að Einar hafi ekki verið mikið fyrir slagsmál og hann því að mestu slegist við mennina.
„ … og ég fann strax að ég var að berjast fyrir lífi mínu enda árásarmennirnir fullir af dópi og drasli. Höggin gengu á víxl, með höndum og fótum, en eftir nokkra rimmu kom styggð að mönnunum sem létu sig hverfa. Á því augnabliki var adrenalínframleiðslan mikil.“
Gunnar lét lögreglu vita af árásinni en var tjáð að lítið hefðist upp úr því að kæra.
„Grænlendingar eru miklir vinir okkar Íslendinga, horfa alltaf í augun á okkur þegar þeir heilsa en líta niður þegar þeir heilsa Dönum, og frammámenn í Qaqortoq báðu mig seinna velvirðingar á árásinni,“ segir Gunnar og bætir við:
„Forsprökkunum tveimur var nuddað út úr samfélaginu og voru síðar báðir skotnir til bana. Annar á austurströndinni en hinn á Suður-Grænlandi.“