Erna Kristín, eigandi Ernulands, ákvað að gera vel við sig á dögunum. Hún pantaði sér kjól á netinu og beið spennt eftir að fá hann í hendurnar. Kjólinn sem hún fékk var hins vegar ekki sami kjóll og hún pantaði. „Útkoman er það fyndnasta sem ég hef upplifað,“ segir Erna um kjólinn.
Erna sagði frá þessum sprenghlægilegu kjólamistökum fyrst á Króm.
„Ég er ekki vön að versla mér kjól á netinu, ég almennt treysti því ekki. En ég var í svaka stuði og nýbúin að fá útborgað. Þá líður manni oft eins og maður geti sigrað heiminn,“ segir Erna.
„Ég sá þennan gullfallega kjól. Ég er ekki vön að velja þennan lit en ég er að fara að gifta mig á Ítalíu næsta sumar og fannst kjólinn fullkominn fyrir ferðina. Ég pantaði kjólinn í XL til að vera alveg örugg. Það var tekið fram á síðunni að fötin eru „frekar lítil í stærðum“ og það er mælt með því að taka númeri stærra en maður er vanur að taka. Ég er vön að vera í M og tók því tveimur stærðum stærra.“
Erna Kristín pantaði kjólinn á Diva Noche, en netverslunin er með yfir 310 þúsund „like,“ og taldi því Erna síðuna trúverðuga. Hún fékk kjólinn loks í hendurnar og mátaði hann.
„Útkoman er það fyndnasta sem ég hef upplifað. Ég auðvitað gerði í því að standa með bumbuna út í loftið, en það breytir því ekki að þessi kjóll er augljóslega á barn. Þetta er náttúrlega ekki eðlilega fyndið,“ segir Erna og hlær.
„Ég ligg enn þá í kasti þegar ég skoða kjólinn. Það er alltaf gott að hlægja svo ekkert svekk hér. Bara pissublautar nærbuxur yfir hláturkrampa dagsins.“
Hægt er að fylgjast með Ernu á Snapchat: @Ernuland