„Það sáu allir að ég var með bók númer 1 enda var það vel merkt.“
Erna Kristín opnaði sig á dögunum um lesblindu, erfiðleika í skóla og einelti sem hún varð fyrir í kjölfarið. Eftir að Erna tók samræmdu prófin í fjórða bekk var hún send í sérkennslu með tveimur strákum sem voru eftir á í þroska sem leiddi til þess að horft var á hana með niðrandi augnaráði.
„Ég hef alltaf átt erfitt með að læra, bæði út allan grunnskólann og fjölbrautaskólann,“ segir Erna Kristín í einlægum pistli á Króm.is
„Ég var seinust í lestri og það vissu það allir en þegar við áttum að lesa saman þá settumst við í krók með púðum öll með sitthvora bókina.“
Erna rifjar upp hversu erfið henni þótti þessi stund og kvíðinn magnaðist upp sem gerði það að verkum að henni þótti mun erfiðara að lesa.
„Bækurnar voru merktar 1,2,3,4 og svo framvegis. Ég var föst í bók númer 1 á meðan hinir krakkarnir voru á bókum númer 4 og 5. Það sáu allir að ég var með bók númer 1 enda var það vel merkt.“
Enn þann dag í dag skilur Erna ekki af hverju þetta var svona merkt, af hverju allir krakkarnir þurftu að sjá að hún væri enn á bók 1.
„Þetta var niðurlægjandi fyrir lítið hjarta og engin hvatning.“
Erna minnist þess að hafa brotnað niður og grátið í stærðfræðitímum út alla skólagöngu sína.
„Ég man hvað það stressaði mig að sitja í tíma kófsveitt og látin fara með margföldunartöfluna þegar ég einfaldlega gat það ekki, ég grét bara.“
Þegar Erna var komin í fjórða bekk var komið að því að taka samræmdu prófin, Erna hafði ekki hugmynd um hvað það var en vissi að það væri komin ný stefna þar sem börn áttu ekki að undirbúa sig fyrir prófin.
„Ég man ég sat þarna og gerði það sem ég nennti að gera, krossaði í það sem ég taldi vera rétt og vildi svo bara helst fara að koma mér, ég skoðaði ekki einu sinni síðustu blaðsíðuna í þessari könnun. Ég vissi ekki að ég væri í prófi.“
Eftir að niðurstöðurnar úr samræmdu prófunum komu í ljós var Erna send í sérkennslu með tveimur drengjum sem voru eftir á í þroska.
„Yndislegir strákar sem litu sko ekki á mig niðrandi augum. En það sem var erfitt var að vinkonur mínar í bekknum fóru að líta þannig á mig og vildu í kjölfarið ekki leika við mig lengur, ég var lögð í einelti.“
Erna færði sig yfir í nýjan skóla þar sem kennarinn tók upp á því að skrifa allar einkunnir úr prófum upp á töflu.
„Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu hræðilegt það var. Besta vinkona mín fékk nánast alltaf 10 á meðan ég fékk 3.“
Það sem hjálpaði Ernu þó mikið var að vinkona hennar leit aldrei öðrum augum á hana þrátt fyrir lágar einkunnir.
„Enda einkennir það mig ekki sem persónu.“
Þegar Erna fór í framhaldsskóla fékk hún að taka sauma í staðinn fyrir náttúrufræði vegna þess hversu oft hún féll í áfanganum.
„Ég náði þó með einhverjum hætti að útskrifast á fjórum árum en þarna var ég loksins farin að þróa með mér mína eigin lærdómstækni.“
Erna er nú í háskólanámi að læra guðfræði en hennar fyrsta einkunn í skólanum var 10.
„Eftir þessa 10 hef ég flogið í gegnum námið án þess að falla, með mjög góðar einkunnir þó ég segi sjálf frá og er núna að klára prestnámið.“
Erna hefur verið pistlahöfundur hjá Króm.is í rúmt ár en pistlar hennar rata ósjaldan á síðuna „Stafsetningaperrarnir“ á Facebook þar sem hæðst er að henni fyrir málfarsvillur og annað.
„En ég læt þessa lesblindu ekki stoppa mig í einu né neinu.“
Erna telur sig nokkuð sterka manneskju í dag þar sem hún hefur sett upp ákveðna brynju gegn gagnrýni .
„En það eru ekki allir með þessa brynju og svona leiðindi brýtur fólk niður og fær það jafnvel til þess að hafa ekki trú á sér. Ég veit um aðila sem hafa ekki trú á sér námslega séð vegna námsörðugleika og lesblindu.“
Erna vill stöðva þessa gagnrýni þar sem hún veit til þess að aðilar þori ekki að fara í nám vegna hræðslu við að verða að athlægi í háskólanum.
„Það er allt í besta lagi og í raun frábært að vera góður í stafsetningu. En þótt þú sért góður í stafsetningu og íslenskri málfræði þá þýðir það samt ekki að þú sért læknir, lögfræðingur, hjúkrunarfræðingur, prestur kennari eða annað. Fólk í öllum stéttum gerir villur. Fólk gerir villur en er samt á sama tíma starfi sínu hæft.“
segir Erna og bætir við:
„En sumir fá aldrei að komast þangað vegna óöryggi og stöðugra niðurbrota frá fólki sem felur sig á bak við takka borðið. Fólk með námsörðugleika og lesblindu er mjög meðvitað um það og oft stressað þegar snýr að námi. Það hefur minni trú á sér fyrir vikið og akkúrat þess vegna þarf að ýta undir þau, hvetja þau áfram, því viðkomandi gæti verið næsti forseti Íslands! Hver veit.“
Hægt er að fylgjast með Ernu Kristínu á snapchat: ernuland