John Green er einn vinsælasti rithöfundur heims en bækur hans, sem ætlaðar eru ungmennum, hafa selst í 50 milljónum eintaka. Green hefur verið kallaður Justin Bieber bókmenntaheimsins. Nýjasta bók hans, sjötta skáldsaga hans, Turtles All the Way Down, fjallar um baráttu unglingsstúlku við alvarlegan kvíða. Höfundurinn byggir þar á eigin reynslu en hann hefur glímt við kvíða. Hann segir að með því að skrifa bókina sé hann að finna leið til að ræða um kvíðann. Green gengur til sálfræðings og tekur kvíðastillandi lyf. Í æsku varð hann fyrir einelti. Móðir hans segir hann hafa verið bráðgáfað barn en tilfinningalega óþroskaðan. „Önnur börn skildu hann ekki og gerðu grín að honum,“ segir hún.
Í dag er hinn fertugi Green heimsfrægur. Árið 2014 komst hann á lista Times yfir hundrað áhrifamestu einstaklinga heims. Hann er kvæntur og á tvö börn, sjö og fjögurra ára. Hann er forfallinn knattspyrnuáhugamaður. Í viðtali við Sunday Times segir hann að í bæði skiptin eftir fæðingu þeirra hafi hann sett hið nýfædda barn í barnastól fyrir framan sjónvarpið og spilað myndband frá úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu árið 2005 þegar Liverpool vann AC Milan eftir að hafa um tíma verið 3-0 undir. Hann segist hafa grátið í bæði skiptin sem hann horfði á leikinn með nýfætt barn sitt sér við hlið. Hann hafi viljað að börnin sæju leikinn eða heyrðu að minnsta kosti lýsinguna því leikurinn sé táknrænn fyrir það að hægt sé að sigra í aðstæðum sem virðast vonlausar.