Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að ein ákveðin lífsreynsla þegar hann var ungur drengur hafi líklega gert það að verkum að hann ákvað að verða jafnaðarmaður.
Logi segir frá þessu í myndbandi sem birtist á Facebook-síðu Samfylkingarinnar, en þar er formaðurinn spurður út í áhrifamestu lífsreynsluna.
„Áhrifamesta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir var þegar ég fór með vini mínum, sem ég æfði með fótbolta heim til hans eftir æfingu,“ segir Logi og bætir við að þeir vinirnir hafi líklega verið 8 eða 9 ára.
„Við ætluðum að fá okkur brauðsneið og mjólk og áttuðum okkur á því að það væri ekki til matur í íbúðinni. Hann fór að segja mér frá því að það væri oft svoleiðis, það væri ekki til peningur og þau væru fátæk,“ segir Logi sem nefnir að sjálfur hafi hann lifað í öryggi, ekki hjá hátekjufólki en hjá fólki sem átti alltaf nóg.
„Þarna áttaði ég mig á því að það var líka til fátækt fólk á Íslandi. Ég man að mér fannst það ömurlegt og ætli það hafi ekki gert mig að jafnaðarmanni.“