Lygakærur skaða trúverðugleika kynferðisbrota – Einn innhringjandi í banni
Það er heimilislegt um að líta inni á útvarpsstöðinni Sögu í Nóatúninu. Blaðamanni er boðið upp á Lu-kex og kaffi en útvarpsstjórinn sjálfur er rétt ókominn í hús. Að vörmu spori mætir Arnþrúður Karlsdóttir en þarf að skjótast beint í útsendingu til að fara yfir dagskrána með félaga sínum, Pétri, sem stendur vaktina við hljóðnemann. Þau ræða einnig stuttlega um skýrslu Ríkislögreglustjóra um aukningu vændis og skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi.
Útvarpsstjórinn hefur gefið okkur tíma úr stífri dagskrá sinni. Það er augljóslega nóg að gera enda að koma kosningar og síminn hringir látlaust. „Ég verð að taka þetta, það eru að koma spákonur til okkar til að spá fyrir um kosningaúrslitin.“ Þetta er útvarpsstöð sem fer ekki hefðbundnar leiðir í stjórnmálaumfjöllun enda er hún einstök á Íslandi. Stjórinn sjálfur er heldur ekki nein venjuleg kona. Hún er mikill frumkvöðull og fer ótroðnar slóðir. Arnþrúður er ekki aðeins landsþekkt fjölmiðlakona, útvarpsstjóri og eigandi Útvarps Sögu heldur stundar hún meistaranám við viðskiptalögfræði um þessar mundir. Hún er ein af fjórum fyrstu lögreglukonum landsins, lék með íslenska handknattleiksliðinu um áraraðir og er háskólamenntaður blaða- og fréttamaður frá Blaðamannaskólanum í Osló ásamt ex.phil í heimspeki og fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Osló en þá var hún jafnframt einstæð móðir. Hún hefur bæði setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og á Alþingi. Allt er þetta reynsla sem hefur mótað hana í gegnum tíðina.
„Það er mikið líf og fjör á Útvarpi Sögu þessa dagana og frambjóðendur mæta hver á fætur öðrum til að kynna mál sín og ágæti. Við erum að gera það sem RÚV ætti að vera að gera, opna fyrir alla frambjóðendur og leyfa þeim að tala,“ segir Arnþrúður sem er nú í óðaönn að undirbúa dagskrá vegna kosninganna. „Við erum fjögur í kosningaútvarpinu og fengum til liðs við okkur kjarnakonuna Ólínu Þorvarðardóttur þjóðfræðing til að tryggja ólíkar skoðanir stjórnenda. En auk hennar sjá ég, Pétur Gunnlaugsson lögmaður og Markús Þórhallsson sagnfræðingur um þættina.“
Arnþrúður er vígreif og segir stöðina hafa brotið glerþakið eftir 14 ára þrotlausa baráttu við að halda henni gangandi. „Við látum stöðugt mæla hlustun og hún mælist 20–25% á höfuðborgarsvæðinu. Það er skrýtið ferli sem fer af stað þegar svona fjölmiðill byggist upp. Fyrstu árin sagði fólk okkur ekki vera til. Síðan kom tímabil þar sem sagt var að enginn hlustaði á stöðina. Því næst tímabil þar sem fólk segir að ekkert sé að marka sem fram fer á stöðinni, það sé bara bull og vitleysa. Nú megum við sitja undir árásum sem birtast helst á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum en einnig beinum árásum frá stjórnvöldum.“
En hvað finnst ykkur um þá gagnrýni sem þið hafið fengið, sér í lagi að þið séu kölluð rasistar? „Það er auðvitað mjög erfitt og tekur á að fá ekki að njóta sannmælis. Það er ekki síst ósanngjarnt gagnvart börnum okkar, fjölskyldum og vinum, sem vita betur en geta lítið gert annað en að sitja undir ónotum sem þau vita að eiga ekki rétt á sér. Það er stöðugt verið að reyna að tengja okkur við einhverja útlendingaandúð en það er eðlilegt og nauðsynlegt að ræða kostnað vegna hælisleitenda sem hingað koma.“ Hún segir kostnaðinn falinn í fjáraukalögum vegna þess að áætlanir í fjárlögum gefi ekki raunhæfa mynd. „Svona á ekki að reka ríkissjóð og alþingismenn geta ekki skorast undan því að taka afstöðu. Það er hlutverk fjölmiðla að greina frá hlutunum eins og þeir birtast. Við fylgjumst mjög vel með erlendum fréttum og sum okkar hafa verið búsett erlendis. Við þekkjum þetta því af eigin raun.“
Arnþrúður er fædd í Flatey á Skjálfanda og er yngst átta systkina. „Þetta voru svakaleg skilyrði sem fólk bjó við þar. Ég hef aldrei skilið hvernig foreldrar mínir gátu þetta. Hvernig hægt var að finna fæði og klæði á alla án rafmagns og vatns úr krana. Þar lifði fólk við sjálfsþurftarbúskap, af fuglum og selkjöti og öllu sem hægt var að nýta.“ Um tíma bjuggu yfir 100 manns í eynni en á sjöunda áratugnum lagðist byggðin af. „Við fluttum til Húsavíkur um það bil sem eyjan var að fara í eyði. Þá sá ég fyrst húsaþyrpingar, götur, bíla og sælgæti. Ég bjó þar þangað til ég varð unglingur en þá var ég valin í unglingalandsliðið í handbolta og þar með var ég flutt til stórborgarinnar.“
Hún gekk í Kvennaskólann og keppti í handbolta fyrir Fram á gullaldarárum félagsins og með íslenska landsliðinu. Einnig keppti hún í frjálsum íþróttum og sundi. Seinna meir starfaði hún hjá HSÍ og landsliðsnefnd kvenna í handknattleik. „Ég og Helga Magnúsdóttir í Fram og Björg Guðmundsdóttir byggðum upp kvennalandsliðið á skemmtilegan hátt og síðan tóku aðrir við þeim kyndli. Þetta var skemmtilegur tími og gott fólk sem stjórnaði handboltahreyfingunni. Þarna var Jón Hjaltalín formaður og hann var stórhuga og réð Bogdan Kovalcik sem landsliðsþjálfara og þá fóru hlutirnir að gerast hjá íslenska landsliðinu sem hefur náð undraverðum árangri síðan.“
Arnþrúður starfaði sem lögreglumaður á árunum 1974 til 1981 og var ein af fyrstu útskrifuðu lögreglukonum landsins. „Það var mjög mikilvægt að hafa réttindin því að þú getur ekki farið fram á jafnrétti nema þú standist jafnréttiskröfur. Sigurjóni Sigurðssyni lögreglustjóra fannst mikilvægt að hafa konur í lögregluliðinu og tók þetta upp hjá sér. Hann gerði þetta áður en jafnréttislögin tóku gildi sem er mjög merkilegt. Hann treysti okkur fyllilega og gerði mig og eina aðra að varðstjórum.“
„Honum fannst það augljóslega mjög óþægilegt að ræða við mig um þetta og kannski hef ég fengið fleiri játningar fyrir vikið“
Hún segir jafnframt að aðrir lögreglumenn hafi tekið þeim mjög vel og hún varð ekki vör við þau vandamál sem oft verða þegar konur ganga í hefðbundin karlastörf. „Ég varð aldrei fyrir neinni áreitni og samt voru þarna nú hundruð karlmanna. Það var enginn svoleiðis hugsunarháttur og það var ekkert svona í gangi. Menn voru frekar hræddir við það að við sem konur yrðum fyrir slysum eða réðum ekki við starfið af líkamlegum ástæðum. Þeir voru fyrst og fremst að hugsa um að vernda okkur. En auðvitað var skrítið fyrir þá að fá allt í einu konur inn í liðið.“
Þegar Arnþrúður starfaði hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins sá hún hliðar þjóðfélagsins sem hún var ekki vön. „Ég var ung og var nokkuð brugðið við að sjá þessa hluti mannlífsins. Þarna sá ég hvað stutt er í sorgina hjá fólki hvern einasta dag. En þetta var mjög lærdómsríkt.“ Arnþrúður segir sakborningana einnig hafa verið hissa á því að mæta konu. „Í eitt skipti sat ég með harðsvíraðan nauðgara fyrir framan mig og þá var ég gengin tæpa níu mánuði á leið með dóttur mína. Honum fannst það augljóslega mjög óþægilegt að ræða við mig um þetta og kannski hef ég fengið fleiri játningar fyrir vikið.“
Þetta eru ár sem Arnþrúður hugsar oft til, sér í lagi í tengslum við kynferðisbrotamál sem eru mjög í deiglunni nú. „Ég sá hvað kærur sem eiga ekki rétt á sér geta auðveldlega orðið til út af hefnd og annarlegum hvötum. Einnig hvað lygakærur geta skaðað trúverðugleika málaflokksins þegar alvarlegar nauðganir gerast. En við sem störfuðum við þetta gátum vel séð í gegnum þetta og ég tel að konur eigi alls ekki að reka sín mál á byrjunarstigi í fjölmiðlum. Það getur verið mjög skaðlegt fyrir þær og þær sjá oft eftir því seinna á lífsleiðinni. Einnig skiptir mjög miklu máli hvort stúlkurnar sjálfar séu að kæra af eigin vilja eða vegna þrýstings frá umhverfinu. Þetta er vandamál dagsins í dag, meðal annars vegna tilkomu samfélagsmiðla.“
Eftir sjö ára starf stóð Arnþrúði til boða að hefja lögreglunám við Interpol-skólann í París. „Ég var svolítill útrásarvíkingur í mér og fannst það spennandi. Mér fannst ekki lengur neitt nýtt að sjá í starfinu hér. Að eyða öllum jólum og páskum í Síðumúlafangelsi að leysa út fanga. Þetta var ekki framtíðarstarfið. Fyrir tilviljun hitti ég vin minn, Sigmar B. Hauksson, dagskrárgerðarmann hjá Ríkisútvarpinu. Hann var að leita að manneskju í fréttatengdan kvöldþátt og bauð mér að prófa.“ Arnþrúður ákvað að þiggja boðið og fékk þriggja mánaða leyfi frá lögreglunni. Henni líkaði það svo vel að hún sneri aldrei aftur, heldur starfaði á Rás 1 og síðar Rás 2 þegar hún var nýstofnuð. Á tíunda áratugnum kom hún víða við, meðal annars á Bylgjunni, á Alþingi og í tískuversluninni Sissu sem hún rak í sjö ár.
Arnþrúður hóf störf á Útvarpi Sögu árið 2002 þegar stöðin var tilraunaverkefni í eigu Norðurljósa. „Eftir eitt ár treystu eigendurnir sér ekki til þess að reka áfram talmálsútvarp. En þá ákváðu við dagskrárgerðarmennirnir, ég, Hallgrímur Thorsteinsson, Sigurður G. Tómasson og Ingvi Hrafn Jónsson, eða hin fjögur fræknu, að kaupa stöðina því við höfðum mikla trú á þessu.“ En reksturinn gekk svo illa að litlu munaði að stöðin rynni inn í fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem var þá að rísa. „En þegar ég fékk sölusamninginn í hendurnar sá ég að það voru svo miklar kvaðir á starfsfólkið að ég gat ekki skrifað undir og meðeigendur mínir urðu mjög óánægðir með það.“ Þá fór Arnþrúður og aflaði fjármagns til að kaupa þá þrjá út.
Arnþrúður hefur nú verið eini eigandi Útvarps Sögu í fjórtán ár og hún segir rekstrarumhverfið fjandsamlegt. „Þetta er búið að vera rosalega erfitt og ekki á nokkurn mann leggjandi. Við erum ekki með sterka fjárhagslega bakhjarla eins og lífeyrissjóðina og svo er Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Stærri auglýsendur fara aðeins eftir markaðsrannsóknum frá Gallup og við erum þar ekki með. Rannsóknirnar eru framkvæmdar á þann hátt að það væri eins og fara með báðar hendur í gin ljónsins fyrir okkur að taka þátt.“ Þetta sé mál sem Samkeppniseftirlitið ætti fyrir löngu að vera búið að taka á. Stöðin fær hins vegar frjáls framlög frá dyggum hlustendahóp og Arnþrúður segir það vera ástæðuna fyrir því að stöðin sé enn í gangi.
Arnþrúður er mjög hugsi yfir komandi kosningum og uggandi um sína stöðu. „Ef það verður vinstri stjórn hérna eftir kosningarnar þá getum við lokað Útvarpi Sögu strax. Þær beinu afleiðingar sem við höfum mátt þola frá tíð Jóhönnu og Steingríms eru mjög alvarlegar og ekki til sú ríkisstofnun, fyrir utan kannski Veðurstofu Íslands, sem hefur ekki reynt að koma okkur fyrir kattarnef.“ Sem dæmi nefnir hún embætti Ríkisskattstjóra, Póst og fjarskiptastofnun og lögregluna. „Hatursglæpadeild lögreglunnar kom hingað og gerði húsleit á fölskum forsendum. Þeir sögðust vilja hafa afskipti af einum starfsmanni en tóku móðurtölvu stöðvarinnar sem hafði að geyma mjög mikilvægar trúnaðarupplýsingar um bankasölu Steingríms. Þegar við fengum tölvuna aftur voru gögnin horfin og þetta mál er enn þá í rannsókn hjá Ríkissaksóknara.“
„Ísland er á svipuðum slóðum og Noregur var fyrir þrjátíu árum“
Arnþrúður segir að það sé með ólíkindum að Útvarp saga hafi lent á lista ECRI (Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi) yfir fjölmiðla sem breiða út hatursáróður. „Við höfum aldrei fengið kæru og aldrei dóm vegna slíkra mála. Þetta var í boði íslenskra stjórnvalda og svona er reynt að koma höggi á fólk og það er gert alveg andlitslaust. Þessi skýrsla var unnin í velferðarráðuneytinu og við fengum aldrei möguleika á að andmæla neinu því við vissum einfaldlega ekki að eitthvað svona væri í gangi. Það var safnað saman níðskrifum sem höfðu birst á athugasemdakerfum og síðan álit frá haturslögreglunni og Mannréttindaskrifstofunni ásamt trúnaðarsamtölum við félag múslima og þetta var síðan notað sem rök fyrir því að afhenda þettaa fulltrúum frá Evrópuráðinu. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og Eygló Harðardóttir, þáverandi velferðarráðherra, til ævarandi skammar. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, til dæmis ef við ferðumst milli landa, því að nöfnin okkar eru skráð þarna. Það gæti verið litið svo á að við séum aðilar sem eru líklegir til einhverra ódæðisverka.“
Hún segir að Útvarp Saga reyni að endurspegla samfélagið eins og það raunverulega er en varpi ekki upp einhverri glansmynd. Einnig að þau veigri sér ekki við því að segja sínar skoðanir á hlutum, til dæmis varðandi ICESAVE-málið, REI-málið og Evrópusambandið. „Ég var við nám í Noregi á þeim tíma þegar innflytjendur voru að byrja að flæða þar inn og bjó sjálf á stúdentagörðum með innflytjendum. Þetta eru mismunandi menningarheimar og þarna takast á stálin stinn. Ísland er á svipuðum slóðum og Noregur var fyrir þrjátíu árum. Við þurfum sérstaklega að gæta okkar vegna fámennisins og ég tel að við höfum ekki sýnt nógu mikla aðgæslu þegar um er að ræða hælisumsóknir á fölskum forsendum. Þetta er eitt af stærstu málunum núna.“
Útvarp Saga er orðin þekkt fyrir líflega símatíma sem Arnþrúður og Pétur stýra. Hún segir allar skoðanir velkomnar en hafi þó margoft þurft að stoppa fólk af. „Þetta er spegill þjóðarsálarinnar og segir til um hvernig svo mörgum í grasrótinni líður. Ef ráðist er gegn ákveðnum persónum þá er viðkomandi stoppaður af. Ein kona hefur verið algerlega bönnuð vegna þess að hún heldur því fram að fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi framið morð og vill fá að nafngreina hann. Því miður get ég ekki hleypt henni í gegn með slíkar ásakanir.“
Að kona geti verið útvarpsstjóri er eitthvað sem tók fólk mörg ár að meðtaka, segir Arnþrúður. „Menn geta verið jafnréttissinnaðir á pappírunum en síðan er framkvæmdin allt önnur. Fólki fannst að útvarpsstjóri ætti að vera karlmaður. Því segi ég að það sé gríðarlega mikilvægt að konur hafi sterka trú á sjálfa sig. Við erum öll ein og það kemur enginn til að bjarga okkur.“ Hún segist þó ekki vera femínisti og telur mikinn mun á jafnrétti og forréttindum. „Konur eiga að fá að vera konur og ég kann vel við það að karlmenn dekri við þær. Mér finnst karlmenn ómissandi og elskulegir og ég vil ekki sjá að það sé talað illa um þá. Kynin eru jafningjar og vinnufélagar og konur eiga ekki að vera of uppteknar af hugsunum um að þær séu veikara kynið.“
„Konur eiga að fá að vera konur og ég kann vel við það að karlmenn dekri við þær“
Vegna afdráttarlausra skoðana sinna í ýmsum þjóðfélagsmálum hefur Arnþrúður sjálf lent í hatrömmum deilum við fólk sem ekki eru henni sammála. Hún hefur þó aldrei orðið fyrir áreiti vegna þess utan netheima. „Inni á Facebook og athugasemdakerfunum eru menn sem eru kannski með tíu reikninga og ég kalla þá einfaldlega netníðinga. Þeir eru tilbúnir að segja hvað sem er og það þarf að taka á þessu. Þetta er fólk sem líður illa og er með lélega sjálfsmynd. Ég finn frekar fyrir samúð fyrir því að lenda í þeim.“
Kosningarnar til Alþingis eru mál málanna í dag en um hvað snúast þær að mati Arnþrúðar? „Það skiptir mestu máli að verðandi stjórn sé reiðubúin að taka á fjármálakerfinu. Því það stendur yfir barátta um Ísland og hún er háð af fjármálaöflum bæði innan og utanlands.“ En hvernig fara þær? „Ég held að Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki saman. En ég held að úrslitin verði mjög óvænt og ég óttast að það verði mynduð vinstri stjórn.“
Flokkur fólksins hefur verið vinsæll hjá innhringjendum Útvarps Sögu en flokkurinn hefur verið að dala mikið í skoðanakönnunum undanfarið. Arnþrúður er þó ekki sannfærð um að flokkurinn sé að láta undan. „Fólk verður að passa sig að taka ekki of mikið mark á skoðanakönnunum. Þeir sem framkvæma þær geta valið úrtakið og geta til dæmis valið að undanskilja öryrkja. Þetta er ekki tekið fram og ekki heldur hver borgar könnunina.“
Hún telur hins vegar að Miðflokkur Sigmundar Davíðs verði sigurvegari kosninganna. „Þetta er uppgjör sem hefði átt að fara fram í Framsóknarflokknum árið 2007. Þar inni voru menn sem urðu moldríkir á einni nóttu vegna spillingar og Sigmundi tókst að taka á þessu um tíma. Nú er hinn almenni flokksmaður að snúast á sveif með Sigmundi. Ég held að Sigurður Ingi sé hinn vænsti maður en hann er fórnarlamb þessara peningaafla innan flokksins.“
Arnþrúður hefur setið sem bæjarfulltrúi og varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn áður. En hefur hún í hyggju að hella sér út í stjórnmálin aftur með beinum hætti? „Ég hef nú alveg nóg með þessa útvarpsstöð eins og er, auk þess að vera í námi í viðskiptalögfræði. Ég læt það duga í bili.“