Í Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ stendur yfir sýning um Björgvin Halldórsson. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti söngvarann ástsæla í Rokksafninu og ræddi við hann um ferilinn, fjölskylduna, pólitík, trúmál og verkefnin sem eru framundan.
Sýningin í Rokksafninu um Björgvin Halldórsson hefur yfirskriftina Þó líði ár og öld. Ferill Björgvins hefur verið afar farsæll og hann söng með hljómsveitum eins og Bendix, Flowers, Ævintýri, Hljómum, Brimkló, HLH-flokknum og fleirum. Á sýningunni má sjá fjölmarga muni úr eigu hans, þar á meðal glæsilegt gítarsafn, föt sem hann hefur klæðst á tónleikum, myndir, plaköt, plötur, myndbönd, textablöð og fleira. Björn G. Björnsson, samstarfsmaður Björgvins, setti upp sýninguna ásamt honum. Sýningin stendur fram á næsta ár.
„Það er mjög sérstakt að ganga um þessa sýningu. Saga mín er á þessu safni. Ég hugsa til liðins tíma og geri mér um leið grein fyrir því að það sem ég hef afrekað hef ég ekki gert einn. Mér verður hugsað til allra þeirra frábæru samstarfsmanna sem ég hef unnið með í gegnum tíðina og eiga stóran hlut í velgengni minni,“ segir Björgvin. „Ég er enn að halda tónleika þar sem alltaf er fullt hús, er enn að spila og er enn í stúdíóinu. Ég hef aldrei verið í meira stuði. Það er ekki sjálfgefið heldur óskaplega þakkarvert og ég er fullur auðmýktar.“
Þegar þú lítur til baka finnst þér þú hafa breyst mikið sem manneskja? Hvernig var ungi maðurinn og hvernig ertu núna?
„Ungi maðurinn hélt að hann myndi lifa að eilífu. Með árunum þroskast maður, verður pólitískari og skoðanir manns verða mótaðri, einfaldlega vegna þess að maður hefur öðlast lífsreynslu. Ég hef að sjálfsögðu breyst og vonandi til hins betra. Lífsgildin eru önnur og áherslurnar eru aðrar. Ég er ekki eins upptekinn af sjálfum mér og ég var í gamla daga og hugsa meira til náungans. Ég er alltaf að reyna að verða betra eintak af sjálfum mér. Ég reyni að láta gott af mér leiða og hjálpa ef ég get hjálpað.“
Hverjum hjálparðu?
„Þeim sem eiga bágt og þarfnast aðstoðar. Ég gef í safnanir og syng í góðgerðarskyni. Mér finnst það meira en sjálfsagt, það er hluti af lífsskoðunum mínum. Ég elska mannúð og trúi á það að vera sannur sjálfum mér.“
Það er ekki laust við að töffaraímynd hafi fylgt þér í gegnum tíðina og þú ert þekktur fyrir að vera snöggur að svara fyrir þig. Er töffaraskapurinn brynja eða kannski bara leikur?
„Ef maður er í hljómsveit verður maður að vera smá töffari. Í þessu fagi er ekki hægt að vera rola. Sumum finnst ég vera með nefið upp í loftið og stundum heyri ég sagt að ég sé hrokafullur. Það er ekki rétt, ég er alls ekki hrokafullur. Ég geri hins vegar miklar kröfur til fólks í kringum mig, en það eru alveg sömu kröfur og ég geri til sjálfs mín.
Fyrst þú talar um brynju þá eru allir með brynjur eða grímur. Svo er sálin þarna fyrir innan. Mín brynja held ég að hafi mótast í gamla daga þegar ég var í barnaskóla. Þá var ég lítill vexti og þurfti að standa uppi á kassa á bekkjarmyndinni til að sjást. Þetta truflaði mig ekki mikið því ég átti afskaplega góða vini og góða æsku.
Svo lenti ég í því að stórir strákar lögðu mig í einelti eins og það heitir í dag. Í gamla daga hétu svona guttar hrekkjusvín. Þá var ekki talað um einelti, það var ekki gert fyrr en einhver sálfræðingur í Svíþjóð eða Bandaríkjunum fann upp orðið. Ég varð dálítið fyrir barðinu á hrekkjusvínunum og varð einhvern veginn að bregðast við og þá notaði ég bara kjaftinn. Ég sagði ýmislegt við stóru strákana, stakk upp í þá þannig að þeir göptu og spurðu: Hvað er þessi litli naggur eiginlega að segja? Þetta voru einlínungar, „oneliners“, úr kanasjónvarpinu, þáttum eins og Combat, Bonanza, Gunsmoke og Hollywood Palace. Ég dembdi þeim yfir þá og svo notaði ég bara fæturna, hljóp burt eins og fætur toguðu.“
Björgvin hóf ungur að syngja í hljómsveitum og árið 1969, átján ára gamall, var hann kosinn poppstjarna ársins á mikilli popphátíð sem haldin var í Laugardalshöllinni. Hljómsveit hans Ævintýri var kosin hljómsveit ársins. Segja má að Björgvin hafi orðið þjóðþekktur á einni nóttu. Það getur varla verið hollt fyrir ungan mann að fá svo mikla athygli spyr blaðamaður.
„Þetta var snúið,“ segir Björgvin. „Eftir þessa kosningu opnuðust allar dyr, við félagarnir í Ævintýri ferðuðumst um allt land og það voru hrópandi stelpur á eftir okkur. Það greip um sig eins konar æði. Ég varð frægur á einni nóttu. Ég tók eftir því að fólk horfði mikið á mig og það fór aðeins í taugarnar í mér fyrst um sinn, ég vildi eiga mitt eigið sjálf. Svo gerði ég mér grein fyrir að ég væri fyrirmynd hjá krökkum og að því fylgdi ábyrgð og fór að hegða mér samkvæmt því. Svo liðu árin, ég var enn að syngja og skemmta og með tímanum varð ég eins og leikari í hlutverki. Þegar ég kom heim var söngvarinn settur inn í skáp og hékk þar á herðatré í öllum skrúðanum. Svo var söngvarinn sendur út til að skemmta og gerði sitt besta.
Á seinni árum eru þessir tveir menn farnir að renna saman, það eru ekki sömu skil og áður milli mannsins og söngvarans. Ég er kominn á þann stað í lífinu að ekki verður aftur snúið og er sáttur við það.“
Var mikið um partí og óreglu á þessum árum?
„Jú, jú, það voru partí og stuð og verið að prófa alls konar hluti. Ég prófaði þetta allt, en lét mér nægja að prófa. Margir af vinum mínum fóru upp og komu aldrei niður aftur. Þessi efni áttu ekki við mig. Aftur á móti finnst mér afskaplega gott að fá mér rauðvín með mat, en ég sit ekki við fram á nótt og hringi á bíl, það er ekkert gaman af því.“
Björgvin hefur ekki einungis starfað sem tónlistarmaður og söngvari, heldur unnið við fjölmörg störf, þar á meðal sem markaðsfulltrúi, útvarpsstjóri og sjónvarpsstjóri og sinnt ýmsum stjórnunarstörfum. Hann er spurður hvort hann telji sig vera jarðbundinn mann. „Ég hef alltaf verið mjög jarðbundinn og er alltaf að læra. Ég er eins og svampur og soga í mig umhverfið. Ég er næturkarl, fer seint að sofa en vakna samt klukkan sjö á morgnana og fer strax að hlusta fréttir til að vita hvað er að gerast í heiminum,“ segir hann. „Ég er algjör fréttafíkill og er stöðugt að leita mér upplýsinga á netinu. Ég er með allan fjölmiðlapakkann og nokkur hundruð stöðvar en horfi bara á fimm eða sex. Þegar allt þetta úrval kom hélt ég að ég myndi bara ruglast en nú hef ég bara meira úrval og kann að velja.“
Þú hefur farið í ótal viðtöl á ferlinum. Er eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
„Það vita kannski ekki allir hversu mikill grúskari og safnari ég er. Ég safna hljóðfærum, blöðum, plakötum og alls kyns dóti. Ég hendi ekki hlutum. Ég hef ekki bara haldið upp á það sem tengist mér heldur einnig það sem tengist samstarfsmönnum mínum og samtíma. Gamlir félagar hringja enn og spyrja: Áttu plakatið frá tónleikunum 1972? Þá svara ég stundum: Hvaða lit viltu? Því ég á þetta allt. Þessi söfnunarárátta minnir stundum á bandarísku þættina sem maður sér í sjónvarpinu af fólkinu sem á svo mikið dót að það kemst ekki inn í húsið sitt fyrir drasli. En þessi söfnunarárátta hefur skilað miklu varðandi þessa sýningu hér á Rokksafninu, hér eru alls konar hlutir sem ég og Baldvin bróðir minn höfum sankað að okkur gegnum árin.“
Þú sagðist fyrr í viðtalinu verða æ pólitískari. Hefurðu alltaf haft mikinn áhuga á pólitík?
Ég er kominn af Sjálfstæðisfólki, pabbi var sjómaður og mamma húsmóðir. Áður en ég kveikti á því hvað pólitík væri fór ég, árið 1961 eða 1962, með pabba og móðurbróður mínum á framboðsfund í Hafnarfjarðarbíói. Þetta var framboðsfundur hjá Sjálfstæðisflokknum og Ólafur Thors var að tala, gríðarlega flottur og hreif alla með sér. Þá var kjörorðið stétt með stétt og jöfnuður. Flott kjörorð sem hefur týnst einhvers staðar á leiðinni.
Þegar ég fékk kosningarétt var fyrsti flokkurinn sem ég kaus O-flokkurinn, sem var Besti flokkur síns tíma. Ég styð frelsi einstaklingsins, vil jöfnuð og elska mannúð. Ég myndi segja að ég væri hægri krati. Ég held reyndar að við séum öll með tölu hægri kratar.
Nú stendur leðjuslagur milli stjórnmálamanna sem hæst og hnútuköst sem eru alveg á barmi velsæmis. Það væri frábært ef við gætum öll unnið saman, en stjórnmálamönnunum hefur mistekist að sameina þjóðina. Hvað gerist svo? Litla ríkið Ísland kemst á HM og öll þjóðin sameinast. Ef strákarnir í fótboltalandsliðinu væru í framboði myndu þeir fljúga á þing. Ekki má svo gleyma stelpunum í boltanum. Íþróttafólkið okkar er að sameina þjóðina þvert á flokka.
Í kosningabaráttunni heyrum við sömu klisjurnar, það er talað um eldra fólkið, heilbrigðiskerfið, vegamál og umhverfismál og allir vilja gera allt. Eftir kosningar kemur stóra spurningin um forgangsröðun og hvar eigi að taka peningana og kosningaloforðin gufa upp.“
Talið berst að fjölskyldunni. Eiginkona Björgvins er Ragnheiður Björk Reynisdóttir og þau eiga tvö börn, Svölu og Odd Hrafn, sem bæði hafa skapað sér nafn í tónlistargeiranum. „Ég er óskaplega heppinn að eiga góða konu sem er búinn að þola mig í gegnum tíðina. Við rífumst ennþá smávegis, sem er bara gott. Hún er kaþólsk svo hún getur ekki skilið við mig,“ segir Björgvin og hlær. „Við eigum sameiginleg áhugamál, eins og ferðalög og kvikmyndir. Við elskum og virðum hvort annað.
Krakkarnir eru farnir að heiman. Svala er búin að búa í Los Angeles í níu ár og Krummi býr í Reykjavík með kærustunni sinni og er að stofna vegan-matreiðslustað. Þau Linnea, kærastan hans, eru bæði vegan og hún er matreiðslumeistari. Síðustu tvö jól hafa verið vegan-jól hjá okkur fjölskyldunni og maturinn sem þar er boðið upp á er frábær. Það hefur svo margt breyst í matarmenningu okkar. Hér áður fyrr þegar einhver sem var grænmetisæta kom inn á veitingastað þá fékk viðkomandi salatblað, tómat og agúrku og varð að gera sér það að góðu. Nú er það allt breytt. Bestu hamborgararnir sem maður fær eru til dæmis vegan frá Lindu McCartney.“
Áður en Björgvin kynntist konu sinni eignaðist hann soninn Sigurð Þór. „Kona Sigurðar heitir Rakel og þau eiga þrjú börn, þannig að ég er afi. Þetta er óskaplega falleg fjölskylda og við erum í góðu sambandi en þetta samband má samt alltaf vera meira. Ég er svo upptekinn í vinnu en þarf að fara meira inn í afahlutverkið,“ segir Bjöggi.
Börn Björgvins og Ragnheiðar, Svala og Krummi, eru kaþólsk eins og móðir þeirra. „Þau eru kaþólikkar en eru kannski ekki á skeljunum alla daga. Svala heitir Svala Karítas og Krummi heitir Oddur Hrafn Stefán, þau bera dýrlinganöfn,“ segir Björgvin. Spurður um trúmál segir hann: „Ég er nokkur efasemdarmaður og trúi á vísindin. Í gamla daga þegar ég sigldi með pabba mínum á togara hafði hann það fyrir sið að signa sig um leið og hann hann fór í nærbolinn. Hvað geri ég þegar ég fer í nærbolinn. Ég signi mig. Af hverju geri ég það? Jú, af því pabbi gerði það.
Sjálfur Megas sagði: Ef þú hefur ekki guð þá er alveg eins gott að vera uppi í rúmi og breiða upp yfir höfuð. Segjum sem svo að við værum ein úti á hafi í áralausum bát í vitlausu veðri. Hvað gerum við þá? Við förum með Faðirvorið. Það er gott að eiga traust handfang til að halda í. Guð er ekki karl upp í skýjunum með sítt skegg og hatt, hann er ekki Gandálfur. Guð er í sjálfum okkur.“
Björgvin undirbýr nú hina gríðarlega vinsælu jólatónleika sína, Jólagesti Björgvins, sem haldnir verða í ellefta sinn og nú í Hörpu. „Þetta er stór fjölskylduskemmtun sem á að höfða til allra. Við erum með frábæra hljómsveit og hörkusöngvara,“ segir hann en meðal flytjenda verða Páll Óskar Hjálmtýsson, Svala, dóttir hans, Ragga Gísla, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Gissur Páll Gissurarson, Júníus Meyvant og Stefán Karl Stefánsson verður sérstakur gestur. Stöð 2 gerir síðan sérstakan þátt sem nefnist Jólastjarnan þar sem börn fjórtán ára og yngri senda inn myndbönd með söng sínum og síðan verður kosinn sigurvegari sem verður Jólastjarnan og kemur fram á tónleikunum, en það gera einnig allir þeir sem komast í úrslit. „Fjórða árið í röð er ég svo með Litlu jól Björgvins sem verða á Þorláksmessu klukkan 22 í Bæjarbíói, þegar allir eru búnir að versla og þar er alvöru jólamatur innifalinn.“
Fleira er á döfinni. Í rúmt ár hafa Jón Þór Hannesson og Ágúst Guðmundsson leikstjóri verið gera heimildamynd um Björgvin, þar er rætt við hann sjálfan, talað við samstarfsmenn og farið yfir ferilinn. Myndin verður sýnd á RÚV einhvern tímann á næstu mánuðum.
Ekki er allt upp talið því Björgvin syngur nokkur lög á væntanlegri plötu Gunnars Þórðarsonar. „Gunni er að koma með sína fyrstu sólóplötu í mörg herrans ár. Ég syng þrjú ný lög eftir hann, gullfalleg við texta Guðmundar Andra Thorssonar og Jakobs Frímanns Magnússonar. Gunni er kominn í sitt gamla stuð. Í vetur fer ég svo í stúdíó og hljóðrita nýja músík eftir mig. Þetta hefur staðið til lengi en nú verð ég að láta verða af því.“
Þegar svo mikið er að gera liggur beint við að spyrja söngvarann hvort hann eigi einhvern tímann frí. „Ég er eins og stormsveipur úti um allt. Ég verð alltaf að vera að gera eitthvað,“ segir hann. „Ég er lítið heima hjá mér. Ég er alltaf í vinnunni, enda á hún hug minn allan. Ég hef ekki farið í frí í langan tíma. Konan mín er að fara að heimsækja Svölu í Los Angeles, ég verð heima. Það verður einhver að passa persakettina og fara út á galeiðuna og syngja og spila.
Tónlist er svo stór þáttur í lífi mínu. Ef ég væri ekki að koma fram sjálfur þá myndi nægja mér að hlusta á alls konar músík. Ef ég hefði ekki tónlist þá veit ég ekki hvað ég myndi gera.“