fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fókus

Steinar var settur á vistheimili á öðru ári: „Kölluð börn djöfulsins og látin vita að enginn vildi neitt með okkur hafa“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 22. október 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þó að Steinar Immanuel Sörensson hafi í heildina átt góða barnæsku voru fyrstu tvö til þrjú æviár hans skelfileg. Hann man ekkert frá þessum tíma en þó má leiða líkum að því að áföll og vanræksla á þessum viðkvæma tíma hafi fylgt honum alla tíð síðan, en Steinar hefur átt erfiða ævi og er í dag öryrki vegna þunglyndis.

Steinar var aðeins á öðru ári er hann lá hágrátandi einn í rúmi á vistheimili á Hjalteyri. Eldri systkinum hans sem voru einnig vistuð á heimilinu var bannað að hugga hann og hlúa að honum og voru læst niður í kjallara í refsingarskyni ef þau óhlýðnuðust þeim skipunum.

„Mér er sagt að ég hafi verið látinn liggja þarna afskiptalaus þar til ég var búinn að grenja mig í svefn,“ segir Steinar en forsaga þessa harmleiks er sú að hann ásamt fimm systkinum sínum var tekinn af foreldrum þeirra fyrir tilstuðlan barnaverndarnefndar. Fjögur eldri systkini Steinars eru hálfsystkini hans, þrjú eru ekki samfeðra, en síðan á hann eina yngri alsystur og einn hálfbróður sem er samfeðra.

„Ég fæddist á Akureyri. Móðir mín var geðklofasjúklingur og faðir minn var mjög drykkfelldur. Mér er sagt að það hafi verið mikil vanræksla á okkur en því miður þá man ég nánast ekkert af ævi minni fram að sjö ára aldri. En rétt áður en við vorum tekin af heimilinu var komið að mömmu um miðja nótt þar sem hún sat með okkur á kirkjukröppum á Akureyri, í skítakulda, með teppi yfir okkur. Þetta mun hafa verið tímapunkturinn þegar við börnin voru fjarlægð af heimilinu,“ segir Steinar en nýlega fékk hann afhent gögn sem geyma upplýsingar um dvalir hans á vistheimilum og fóstrun hans.

En rétt áður en við vorum tekin af heimilinu var komið að mömmu um miðja nótt þar sem hún sat með okkur á kirkjukröppum á Akureyri, í skítakulda, með teppi yfir okkur.

Tímasetningar passa sérkennilega vel við geðlægðina sem liggur ávallt yfir Steinari frá því októbermánuði og fram í desember. Um það skrifaði hann fyrir stuttu færslu á Facebook:

Það er greinilegt að það er komið haust og nóvember nálgast… Þá iðulega eykst kviðinn hjá mér og þunglyndið magnast.

Hélt lengi vel að þetta tengdist jólunum, þar til ég komst að því að á þessum tíma var ég tæplega 2 ára gamall tekinn af foreldrum mínum og settur í fóstur.

Alla tíð síðan hef ég upplifað aukinn kvíða, þunglyndi á þessum tíma.

Auk þess hefur aðskilnaðarkvíði og ótti við höfnun fylgt mér alla tíð.

Ótrúlegt hvað hlutir sem maður man ekki einu sinni eftir geta fylgt manni, mótað og haft áhrif á líf manns fram eftir
öllu.

Á unglingsárunum fannst mér ég svo ljótur og var fullviss um að enginn vildi neitt með mig hafa, þessar hugsanir poppa enn upp í dag, þó það sé auðveldara að bæla þeim frá eftir að hafa áttað mig á hvaðan þær eiga upptök sín.

Eitt af barnaheimilunum sem ég var á og var rekið af hvítasunnufólki á Hjalteyri á eflaust einhvern þátt í þessu líka, því þar var ég innan við tveggja ára gamall, fárveikur, hundsaður og látinn grenja iðulega þar til ég gafst upp, og systkinum mínum sem voru eldri, bæði bannað og refsað fyrir að reyna að hugga mig.

Þarna vorum við kölluð börn djöfulsins og látin vita að enginn vildi neitt með okkur hafa.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Steinar var á vistheimilinu á Hjalteyri í um átta mánuði. Eldri systkini hans voru þar í nokkur ár og urðu fyrir margskonar ofbeldi, bæði líkamlegu og kynferðislegu. Hafa þau öll átt erfitt uppdráttar í lífinu. Heimilið var rekið af hjónum sem voru hvítasunnufólk, en konan var frá Bandaríkjunum.

„Eldri systir mín og bróðir minn sem þarna voru tjáðu mér að við hefðum iðulega verið kölluð börn djöfulsins og látin vita að enginn vildi neitt með okkur hafa,“ segir Steinar en hann hefur óskað eftir því að starfsemi þessa heimilis verði rannsökuð rétt eins og gert hefur verið varðandi ýmis önnur upptökuheimili á síðustu öld:

„Ég hef sett mig í samband við velferðaráðuneytið, sýslumanninn á Siglufirði, vistheimilanefndina og talsmann vistheimila barna, hana Guðrúnu Ögmundsdóttur, og alls staðar hef ég eingöngu fengið þau svör að þetta heimili hafi ekki tilheyrt ríkinu heldur verið einkarekið. Furðulegt að það sé hægt að kasta svona frá sér með þessum hætti og afgreiða málið án þess að skoða það nánar, það var Barnaverndarnefnd Akureyrar sem sendi okkur öll þangað, og hún á að starfa skv. lögum settum af ríkinu.“

Bræddi hjarta gestsins og var því tekinn í fóstur

Steinar var í um átta mánuði á vistheimilinu á Hjalteyri, síðan tók við stutt dvöl hjá foreldrum hans á Akureyri eftir að hann hafði verið færður nær dauða en lífi vegna veikinda á sjúkrahúsið þar. Eftir það var hann vistaður á heimili sem Thorvaldsen-félagið rak í Reykjavík. Þar var einnig yngri systir hans en hún var aðeins 8 mánaða þegar hún var tekin af foreldrunum og sett á vistheimili.

Til stóð að barnlaus hjón frá Hofsósi í Skagafirði myndu taka yngri systur Steinars í fóstur. Það varð Steinari til gæfu að þau ákváðu óvænt að taka hann að sér líka:

„Sagan er sú að einhverju sinni þegar þau voru að hitta systur mína í aðlögun á vistheimili Thorvaldsens-félagsins þá á ég að hafa hlaupið í fangið á manninn og sagt „pabbi“. Þetta bræddi hann gjörsamlega og þau ákváðu að taka mig líka þó að það hafi alls ekki verið ætlunin.“

„Eldri systir mín og bróðir minn sem þarna voru tjáðu mér að við hefðum iðulega verið kölluð börn djöfulsins og látin vita að enginn vildi neitt með okkur hafa,“

Steinar fluttist á Hofsós til fósturforeldra sinna í desember árið 1974, þá tveggja og hálfs árs gamall. Yngri systir hans fór þangað sömuleiðis en eldri systkini hans, hálfsystkinin fjögur voru áfram á vistheimilinu á Hjalteyri og áttu þar slæma vist. Góð æskuár tóku við hjá Steinari á Hofsósi en því miður var slæmt atlæti í frumbernsku búið að marka sín spor í sál hans og ekki sér fyrir endann á afleiðingunum.

„Þau voru okkur mjög góð og fósturfaðir minn ákvað að hætta á sjó og stofna fyrirtæki í landi, saltfiskverkun, til að geta verið meira hjá okkur krökkunum. Ég held að slíkur hugsunarháttur hjá karlmönnum á þessum tíma hafi ekki verið algengur,“ segir Steinar og hann ber hlýjan hug til fósturforeldranna. Segir hann sig og yngri systur sína vissulega hafa verið þau heppnu í systkinahópnum.

Þrátt fyrir þetta var ýmislegt sem angraði Steinar í æsku: „Ég var alltaf hræddur. Fósturmamma mín hefur sagt mér að alltaf þegar þau fóru út að skemmta sér eða þurftu að skreppa eitthvað hafi ég verið hræddur við að vera skilinn eftir – ég óttaðist að þau kæmu ekki aftur.“

Hann segist líka einnig hafa verið mjög viðkvæmur fyrir stríðni og oft hlaupið grátandi heim ef honum sinnaðist við önnur börn. Steinar var ávallt þéttvaxinn og tók öllum athugasemdum um vaxtarlag sitt mjög illa. Á unglingsárum angraði ofþyngdin hann mikið og hann var mjög hræddur við kvenfólk. Aðallega óttaðist hann höfnun.

Biblíutilvitnun og miskunnsami samverjinn í Fíladelfíu

Sem fyrr segir hefur Steinar lengi verið illa haldinn af þunglyndi og hann hefur gert tvær alvarlegar sjálfsmorðstilraunir. Í þeirri fyrri hætti hann við en þá ætlaði hann að hengja sig.
„Þetta var árið 1998 og líf mitt var afskaplega dapurlegt á þessum tíma. Ég var heimilislaus og svaf í Öskjuhlíðinni.“

Dálítil biblíutilvitnun bjargaði lífi Steinars: „Ég var með nýja testamentið á mér og ákvað að lesa upp eitthvað fallegt áður en ég herti snöruna.“ Steinar lenti á ritningarstað í Matteusarguðspjalli þar sem segir:
„ Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá.“

Þessi orð færðu Steinari, sem ávallt hefur verið trúaður, þá sannfæringu að guð myndi sjá um hann. „Ég ákvað þarna að lifa einn dag í viðbót. Um kvöldið fór ég síðan á samkomu í Fíladelfíu og þar kynntist ég manni sem bauð mér að sofa heima hjá sér. Ég svaf á sófanum hjá honum í hálft ár endurgjaldslaust. Þetta gerði hann af hreinni góðmennsku hjarta síns og engu öðru.“

Er ekki nokkuð merkilegt að þú hafir náð svona innilega sambandi við Fíladelfíu miðað við dvöl þína á vistheimili tengdu hvítasunnusöfnuði á Hjalteyri?

„Það er til gott fólk alls staðar og ég er ekki argur út í þennan söfnuð frekar en aðra söfnuði. Ég hef alltaf verið mjög trúaður, líka sem krakki. Ég hef alltaf leitað í trúna sem huggun þegar mér líður illa.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þunglyndi, kvíði og aðskilnaðarkvíði – og svo góðu hlutirnir í lífinu

Sem fyrr segir er Steinar svo illa haldinn af þunglyndi að hann er öryrki. Hann hefur ekki unnið í tæp tíu ár en starfaði áður meðal annars við sjómennsku og dyravörslu. Þrátt fyrir að vera í nokkurri yfirvigt og að hafa verið of feitur nánast alla ævi er Steinar að sumu leyti í góðu formi en hann er afar vöðvastæltur. Hann telur að röng efnaskipti og hormónatruflanir valdi offitu hans og telur sig ekki borða óeðlilega mikið.

„Ég byrjaði að hreyfa mig aftur fyrir um sex árum og mæti í ræktina um það bil sex sinnum í viku. Það gerir ég ekki síst til að reyna að framleiða boðefni og hafa hemil á þunglyndinu. Ég stunda meðal annars mikið lyftingar,“ segir Steinar en auðvelt er að trúa því þegar maður virðir fyrir sér afar sterklegan líkamsvöxt hans.

Steinar harmar að komast ekki aftur á vinnumarkaðinn en meðal þess sem heldur aftur af honum auk þunglyndisins er mikill kvíði: „Mér finnst verst af öllu að finna ekki leið til að komast á vinnumarkaðinn aftur. Þar spilar inn í að ég er svo ofboðslega hræddur við að mistakast. Hvað ef ég fæ starf og það klikkar síðan hjá mér? Þá er ég bæði atvinnulaus og án bóta. Mig langar mikið að komast í nám og reyndi að fara í skóla. Þar glímdi ég við þreytu og þunglyndi og lenti á eftir öðrum. Ég bað um að fá að gera þetta aðeins hægar en það var ekki til umræðu og mér var bara ýtt út úr skólanum.“

Auk þunglyndis og kvíða segist Steinar hafa uppgötvað fyrir nokkrum árum að hann væri haldinn aðskilnaðarkvíða: „Það birtist til dæmis í því að ef einhver náinn mér fer eitthvað burtu og ég veit ekki nákvæmlega hvenær hann ætlar að koma heim þá fer ég bara í panik. Líka ef strákarnir mínir koma ekki heim á réttum tíma þá fyllist ég miklum ótta.“

Steinar er í sambúð, hann á fimm syni sem eru 7, 9, 12, 15 og 24 ára. Heimilislífið gengur vel og er ákveðin kjölfesta í lífi Steinars. Þá hefur líkamsræktin verið honum haukur í horni:

„Ræktin hjálpar mér langmest og er um leið mín félagsmiðstöð. Ég hef sett mér þá reglu að ef mig langar ekki í ræktina þá verð ég að mæta! Ef mér er alveg sama þá er allt í lagi að taka frí þann daginn.“
Steinar segir að helsti munurinn á góðum og slæmum degi hjá sér felist aðallega í því hvernig honum líður. Hvernig sem líðanin er þá sinnir hann fjölskyldunni og mætir í ræktina.

„Á góðum degi er ég þó meira fyrir að lyfta mér aðeins upp, vera innan um fólk, fer til dæmis á kaffihús eða heimsæki vini. Þegar mjög illa liggur á mér sækir á mig löngun til að liggja uppi í rúmi og draga yfir mig sængina og loka mig af. Þar finn ég til öryggis og hugsa með mér að ef ég sofna þá verði allt kannski skárra þegar ég vakna aftur.“

Langar til að muna

Steinar hefur verið í meðferðum hjá geðlæknum og sálfræðingum og hefur legið á geðdeild. Hann segist hins vegar aldrei hafa unnið djúpt með frumbernskuna og hann hefur til dæmis ekki verið dáleiddur til að rifja upp þessa löngu gleymdu minningar. „Ég myndi gjarnan vilja dáleiðslu því mig langar til að muna. Hvað var að gerast þarna? Mig langar til að sjá það. Það er eins og ég hafi lokað á allt sem gerðist í lífi mínu fram að sjö ára aldri.“

Steinar Immanuel Sörensson hefur þægilega nærveru. Stórvaxinn og rólegur maður, hlýlegur og stutt í brosið og hláturinn þrátt fyrir erfitt umræðuefni og um margt harmafulla ævi. „Fólk átti á sínum tíma erfitt með að trúa því að ég væri þunglyndur af því ég virkaði alltaf svo léttur og hress. Þá ákvað ég að gera það fyrir sjálfan mig að kasta grímunni og segja bara alltaf hvernig mér líður ef ég er spurður. Mér líður betur af því að tjá tilfinningar mína og mér finnst til dæmis gott að skrifa um líðan mína á Facebook.“

Steinar segist ekki hugsa mikið um framtíðina eða eiga sér drauma, hann reynir meira að vera í augnablikinu og taka einn dag í einu. Þess má geta að næsta bók sem hann hyggst lesa heitir „Árin sem enginn man“ og eru eftir Sæunni Kjartansdóttur sálfræðing. Þar er fjallað um viðkvæmasta skeið mannsævinnar, fyrstu árin, tímann sem Steinar man ekkert eftir en var líklega langversti hluti ævi hans. Í kynningartexta um bókina segir:

Við munum ekki eftir fyrstu mánuðunum í lífi okkar, jafnvel ekki fyrstu tveimur til þremur árunum. Þó hafa rannsóknir í taugavísindum og athuganir á sálarlífi fullorðinna leitt æ betur í ljós að einmitt þessir mánuðir og ár hafa varanleg áhrif á allt líf okkar þaðan í frá. Þá er heilinn í örustum vexti og galopinn fyrir áhrifum umhverfisins, öll reynsla ungbarnsins hefur bein áhrif á sjálfsmynd þess og samband við aðra. Alúð og örvandi umönnun er endurgoldin með ótrúlegum þroska. Samskipti okkar við annað fólk og reynsla síðar á ævinni skiptir líka máli en ekkert jafnast á við fyrstu tengslin því þau veita mikilvæga undirstöðu undir allt lífið framundan.

Það verður að teljast líklegt að orsakir að óförum og andlegum veikindum Steinars í lífinu sé að einhverju leyti að finna í vanrækslu á þessum fyrstu æviárum hans. Erfitt er að gera sér í hugarlund þann skaða sem getur orðið á einni sál við að vera án ástar og umhyggju á þessu viðkvæma skeiði, gráta sig í svefn, vera skilinn eftir einn, fárveikur og hlandblautur tímunum saman. Maður óskar þess að Steinar nái endurfundum við þetta litla barn í myrkri fortíðarinnar og nái að upplifa sátt við þau áföll sem eru honum fullkomlega hulin í minni en hafa líklega hamlað honum alla ævi.

Þetta má geta að Steinar tók þátt í rannsókn Ragnheiðar Sverrisdóttur, „Upplifun ofbeldis og vanrækslu í æsku á heilsu og lífsgæði,“ sem hún birtir í meistararitgerð sinni í Félagsfræði. Ritgerðina má lesa hér en í henni gengur Steinar undir nafninu Sigþór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn