Valkyrja Sandra Ásdísardóttir Bjarkadóttir er þriggja barna móðir. Hún býr á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Hannes Pétri, og tveimur börnum. Sumir myndu kannski segja að fjölskyldumynstur Valkyrju sé flókið en hún segir það ósköp venjulegt og byggt á virðingu og trausti. Valkyrja Sandra og Hannes Pétur sjá í sameiningu um uppeldi barnanna ásamt Frey, fyrrverandi kærasta Valkyrju og barnsföður hennar, og Jóhönnu Sif, fyrrverandi kærustu Freys.
Valkyrja Sandra og fyrrverandi kærasti hennar Freyr, eiga saman Natan, sex ára. Freyr og fyrrverandi kærasta hans, Jóhanna Sif eiga saman dóttur, Írenu Röfn, tveggja ára. Natan kallar Jóhönnu „mömmu“ og er reglulega hjá henni. Írena Röfn kallar Valkyrju og Hannes „mömmu“ og „pabba“ og er reglulega hjá þeim. Natan og Írena Röfn fara einnig til Freys. Valkyrja og Hannes eignuðust son, Eron Bent, fyrr í þessum mánuði.
Valkyrja Sandra segir frá fjölskyldumynstrinu og hvernig það kom til. Hún nefnir það sem henni finnst mikilvægt í þessum málum og gefur foreldrum í sömu eða svipaðri stöðu ráð.
Valkyrja Sandra og Freyr eignuðust saman Natan í febrúar 2011. Þau slitu sambandinu og hafa síðan þá verið með sameiginlegt forræði. Freyr og Jóhanna Sif byrjuðu seinna saman og Jóhanna byrjaði að sinna nýju foreldrahlutverki. Aðspurð hvernig henni leið þegar Jóhanna kom fyrst í spilið viðurkennir Valkyrja að tilhugsunin fór í taugarnar á henni. „En ég ákvað frá fyrsta degi að Jóhanna yrði aldrei neitt annað en mamma hans, ég vildi aldrei aftra þeirra tengslum. Natan er ríkari fyrir vikið að eiga aðra mömmu sem elskar hann alveg eins og ég.“
Valkyrja segist ekki þola orðið „stjúpmóðir“ og hún titlaði Jóhönnu aldrei sem slíka. Þær eru mjög góðar vinkonur í dag og bera mikla virðingu fyrir hvor annarri. „Við ákváðum að leggja allt stolt til hliðar og virða hvor aðra. Það kom aldrei neitt annað til greina. Við urðum fljótt mjög góðar vinkonur og erum duglegar að leita ráða hjá hvor annarri.“
Valkyrja Sandra og Jóhanna Sif tala ekki um hvor aðra sem „hina barnsmóðurina.“
„Jóhanna Sif er ein af mínum bestu vinkonum og það líður ekki sá dagur sem við heyrum ekki í hvor annarri. Við tölum aldrei um hvor aðra sem „hina barnsmóðurina“ heldur erum við ósköp venjulegar vinkonur. Við reynum að hafa allt á yfirborðinu og það er ekkert sem við getum ekki rætt eða fundið út úr. Við erum stundum ósammála en það er hluti af lífinu og hefur aldrei verið vandamál.“
Valkyrja er mjög þakklát fyrir Jóhönnu. „Hún hefur kennt mér ansi margt á þessum tíma. Ég væri ekki sú sem ég er í dag ef ekki væri fyrir hana. Hún hefur víkkað sjóndeildarhringinn minn og ég er þakklát á hverjum degi fyrir hana. Vinskapurinn skiptir öllu máli þegar kemur að börnum okkar.“
Freyr og Jóhanna Sif eignuðust Írenu Röfn í júní 2015. Írena Röfn kallar Valkyrju Söndru og Hannes Pétur mömmu og pabba.
Hvernig kom það í myndina að þið Hannes Pétur urðuð foreldrar Írenu Rafnar?
„Þegar ég sá þessa litlu stelpu í fyrsta skiptið small eitthvað innra með mér. Hjartað mitt stækkaði um helming og mig langaði að taka þátt í lífi hennar. Við fórum að skiptast á að vera með krakkana. Írena Röfn var ekki nema um ársgömul þegar þetta byrjaði. Hún heyrði stóra bróður sinn kalla okkur mömmu og pabba og apaði á eftir honum. Í dag finnst henni eðlilegt að við séum mamma og pabbi hennar. Við höfum boðið henni að nota nöfnin okkar en hún er ákveðin lítil skotta sem segir bara: „Nei mamma og pabbi.“ Það finnst okkur dásamlegt.“
Jóhanna Sif og Freyr slitu sambandinu en það breytti engu þegar það kom að foreldrahlutverkum eða samveru með börnunum. Natan fer enn reglulega til Jóhönnu og Írena Röfn til Valkyrju Söndru og Hannesar Péturs.
„Í hvert skipti sem við förum suður skiptum við tímanum þannig að börnin fá að vera saman á einhverjum staðnum.“ Valkyrja og Hannes búa á Akureyri en Jóhanna býr í Hafnarfirði og Freyr í Reykjavík.
Fyrr í október á þessu ári eignuðust Valkyrja Sandra og Hannes Pétur son, Eron Bent.
Mun Freyr einnig vera faðir hans og Jóhanna móðir hans? Hvernig verður þessu háttað eða á eftir að ræða það?
„Í sjálfu sér hefur aldrei neitt af þessu verið rætt. Þetta bara er svona einfalt hjá börnunum okkar og við erum í raun að leyfa þessu að gerast. Litli kallinn er titlaður sem litli bróðir þeirra beggja. Við erum öll jafn ánægð með þetta og þetta mun fá að þróast eins og allt annað.“
Valkyrja Sandra segir að viðbrögð fólks við fjölskyldumynstri þeirra séu alls konar. „Ég myndi helst segja að viðbrögðin einkennist af forvitni því í dag er þetta ekki „normið.“ Við höfum fundið fyrir fordómum og skilningsleysi en það vegur svo lítið á móti því hversu rík við erum. Ég finn meira fyrir því að fólk heldur að fjölskyldumynstrið fjarar út. En svo er ekki, þetta er skuldbinding. Maður yfirgefur ekki börnin sín.“
Valkyrja og Hannes fá reglulega spurningar varðandi fjölskyldumynstur þeirra. Meðal þeirra algengustu eru: „Hvernig er þetta hægt?“ „Af hverju eruð þið að standa í þessu?“ „Er pabbanum alveg sama?“ „Hvað segir maðurinn þinn við þessu“ og „Af hverju hittast krakkarnir ekki bara hjá pabba sínum.“
Hvað viltu segja við fólk sem skilur þetta ekki eða hafa eitthvað neikvætt að segja?
„Ég hvet alla að taka lífinu með opnum hug. Það gerir allt svo miklu skemmtilegra. Setjum tilfinningar barna okkar í forgrunn og leyfum þeim að njóta.“
Hverjir eru helstu kostirnir varðandi þetta skipulag?
„Það að réttur þeirra sem börn sé virtur. Þau fá að vera systkini í alls konar aðstæðum. Þau geta leitað til margra og það gerir lífið svo miklu auðveldara.“
En gallarnir?
„Við værum öll til í að geta verið meira saman. Það er sennilega eini gallinn sem ég sé.“
Hvað telur þú vera mikilvægast í þessum málum?
„Að sjá heiminn með augum barna okkar. Mér finnst virkilega mikilvægt að börn sjá snemma að allir geti verið vinir og þeim sé treyst til þess að finna öryggi hjá öðrum en einungis foreldrum sínum.“
Aðspurð hvort hún sé með einhver ráð til foreldra í sömu eða svipaðri stöðu segir Valkyrja að fólk þurfi að vera opið. „Leggið stoltið til hliðar, verið opin og leyfið barninu að upplifa að fleiri en bara mamma og pabbi geti elskað þau heitt. Það er nákvæmlega það sem þetta er, hrein ást.“
Valkyrja Sandra er bloggari á Meyjur.com og er einnig með opið snapchat @adalprinsessan þar sem áhugasamir geta fylgst með henni og fjölskyldu hennar.