Getur gengið einn úti á kvöldin en átti erfitt með það áður
„Það er ótrúlegt hversu mikill munur það er að vera kvenmaður og karlmaður. Ég er svo „heppinn“ einstaklingur, að hafa fengið sjónarhorn á bæði hvernig það er að vera upplifaður sem kvenmaður og karlmaður,“ segir Davíð Illugi Hjörleifsson. Davíð Illugi verður tvítugur á árinu og er transmaður. Líkamlega kynleiðréttingaferlið hófst fyrir um ári síðan en það andlega fyrir mörgum árum segir Davíð.
Í ljósi umræðunnar um kynferðislega áreitni í garð kvenna og myllumerkið #MeToo opnar Davíð sig og segir frá sinni reynslu bæði sem kvenmaður og karlmaður. Helsti munurinn sem hann finnur fyrir eftir að hann fór í kynleiðréttingu er að honum finnst nú hlustað á hann. Virðingin er meiri frá karlmönnum. Sem kvenmaður varð Davíð oft fyrir kynferðislegri áreitni. Á vinnustöðum, á skemmtistöðum og öllum kimum samfélagsins. Davíð Illugi tjáði sig fyrst um málið á Femínistaspjallinu á Facebook. Færslan hans vakti mikla athygli og líkuðu yfir 250 manns hana.
Davíð Illugi segir að einn mesti munurinn sem hann finnur fyrir sem karlmaður er að nú er hlustað mun meira á hann. Það er borin meiri virðing fyrir honum sem manneskju og hann er öruggari með sig. Eins og þegar hann er að ganga einn úti á kvöldin. „Það átti ég afar erfitt með áður.“ Davíð bætir við að eftir að hann hóf hormónameðferð taki karlmenn meira mark á honum.
„Nema stundum þar til þeir heyra að ég sé trans en ég held því leyndu.“
Hvenær varðst þú fyrst var við það að komið væri fram við þig öðruvísi því þú varst karlkyns?
„Ég fann mestan mun þegar ég var búinn að vera 2-3 mánuði á hormónum. Ég fann að fólk byrjaði að hlusta á mig, ég fékk að hafa meiri hávaða, ég mátti segja meira og fólk virti mig. Þegar ég vann á bar gat ég farið á karlaklósett á miðri vakt að þrífa. Áður var það mjög erfitt og nánast ómögulegt vegna áreitis.“
Davíð rifjar upp eitt skiptið sem hann var að þrífa karlaklósettin áður en hann byrjaði á hormónum.
„Menn inni á klósettinu spurðu mig hvort ég væri karlmaður eða kvenmaður og fóru svo að káfa á mér. Þeir biðu ekki einu sinni eftir svari. Ég ýtti þeim í burtu og sagðist vera karlmaður.“
Davíð hefur unnið á mismunandi skemmtistöðum og segir mikill munur hvernig komið er fram við kynin. „Ég hef heyrt leiðinlega hluti frá viðskiptavinum um kvenkyns samstarfsmenn, hvað þær eru frekar og leiðinlegar. En þegar ég er frekur og leiðinlegur er það samþykkt og ekkert sagt.“
„Áður en ég kom út úr skápnum spilaði ég mikið af tölvuleikjum, sérstaklega byssuleiki þar sem ég var „eina stelpan“. Ég fékk endalaus ummæli varðandi að ég væri kvenmaður. Ef mér gekk vel í leiknum var sagt: „Vá en þetta er stelpa.“ Ef mér gekk illa þá var sagt: „Allt í lagi, þú ert bara stelpa.“ Núna ef mér gengur illa í tölvuleik þá er mér hreinlega bara skipt út í annað lið.“
Davíð segir að menningin innan tölvuleikjasamfélagsins getur verið grimm gagnvart konum. Áreitið var svakalegt þegar hann var að spila sem kvenmaður og hann fékk ógrynni af skilaboðum með kynferðislegum athugasemdum þar sem var bent á að hann væri heitur því hann væri stelpa sem spilaði tölvuleiki. „Ef þú ert strákur að spila tölvuleiki ertu „gamer“ ef þú ert stelpa ertu „gamer girl.“
Davíð Illugi var að vinna í fiskvinnslu þegar hann var sautján ára. Hann var á ekki kominn út úr skápnum á þeim tíma. Hann var að vinna hjá fjölskyldufyrirtæki þar sem tveir bræður og faðir þeirra voru að vinna.
„Þessi faðir þeirra var hreinlega viðbjóður. Hann káfaði á öllum stelpunum, meðal annars mér. Hann spurði hvort að hann gæti hjálpað mér í vinnufötin. Hann hlustaði ekki á mótbárur og gerði það samt. Og ég fraus. Ég og vinkona mín ákváðum að segja öðrum syni hans frá þessu en hann var einnig yfirmaður í vinnslunni,“ segir Davíð og tekurfram að hann hefði aldrei þorað að stíga þetta skref einn.
Davíð segir að syninum hafi brugðið við að heyra um áreitið og ætlaði að tala við föður sinn. Sonurinn fór svo í sumarfrí og versnuðu hlutirnir töluvert eftir það og áreitið hélt áfram. Þá brást gamli maðurinn við á þann hátt að sögn Davíðs að hann lét unglinginn vinna sleitulaust frá sjö á morgnanna til fjögur á daginn. Fékk hann enga hvíld eða matarhlé. Þegar aðrir starfsmenn reyndu að koma Davíð til aðstoðar varð gamli maðurinn sótillur. Er Davíð ósáttur við að sonur mannsins hafi ekki gripið almennilega í taumana og komið í veg fyrir þá framkomu sem lýst er hér að ofan.
„Það getur auðvitað margt neikvætt fylgt því að vera karlmaður en ekkert í líkindum við að vera kvenmaður. Mér finnst skelfilegt hvað samfélagið hefur samþykkt hversu illa það er komið fram við konur.“
Blaðamaður og Davíð ræða stuttlega um umræðuna sem hefur myndast í kjölfar notkun myllumerkisins #MeToo, að sumir karlmenn segja að myllumerkið eigi ekki einungis við konur, að karlar verða einnig fyrir kynferðislegri áreitni og það sé ósanngjarnt að #MeToo er ætlað fyrir konur að nota.
„Það er einmitt það sem mér finnst vera mikið vandamál. Fullt af karlmönnum eru að segja: „Af hverju er ekki talað um karlmenn líka?“ Þetta snýst ekki um að karlar hafi ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni heldur er verið að sýna hversu algengt og „venjulegt“ það er fyrir kvenmenn að verða fyrir kynferðislegri áreitni á hverjum degi.“
Eitthvað sem þú vilt segja við þá sem gagnrýna myllumerkið #MeToo og það sem það stendur fyrr?
„Hlusta. Ekki aðeins vera endalaust að skrifa ummæli á netinu á móti þessu. Heldur hlusta og taka þetta til sín. Ekki fara í vörn, sama þó þeim líður eins og þessu sé beint að þeim. Bara hlusta á það sem er verið að segja og hugsa um hvernig þeir haga sér gagnvart kvenmönnum. Hvort sem maður er ungur strákur að kíkja í kvennaklefann eða fullorðinn karlmaður að flauta á eftir stelpu. Þessir litlu hlutir geta haft mikil áhrif og flokkast undir áreiti.“
Davíð Illugi segir að það er kominn tími til að endurskoðað orðið karlmennska.
„Hvað er karlmennska. Af hverju er það karlmennska að haga sér svona eða vera svona. Hvaðan kemur þetta. Það þarf að kenna ungum strákum hvernig á að koma fram við kvenmenn og fólk yfir höfuð.“