„Nú er ég á leiðinni í búð, eins og þið vitið fer ég einu sinni í viku í búðina og ég dálítið á hraðferð núna en ég ætla að sína ykkur matseðilinn og innkaupalistann og allt það þegar ég fer ….. Sjitt.“
Á þessum tímapunkti missti snappchat-stjarnan Sólrún Diego stjórn á bílnum sem hún ók og endaði á eftirmynd af barni sem gert var úr pappa. Í myndbandinu sem er á vegum Landsbjargar sjáum við Sólrúnu Diego keyra undir áhrifum snjalltækis.
„Ég heiti Sólrún Diego. Við ætlum að taka smá tilraun á meðan ég snappa og keyri,“ segir Sólrún í myndskeiðinu sem hefur vakið talsverða athygli enda málefnið brýnt.
Í kynningartexta frá Landsbjörgu segir:
„9 af hverjum 10 telja það að senda skilaboð undir stýri vera mjög hættulegt! En skoðanakannanir sýna að 4 af hverjum 10 stunda þessa hegðun. Ert þú einn af þeim?“
Eftir ökuferðina sem endaði illa, sagði Sólrún:
„Ég er í mjög miklu sjokki. Ég titra inni í mér. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað ég horfði mikið á sjálfan mig í símanum á meðan ég var að keyra. Mér fannst ég ekki vera keyra hratt en athyglin fór öll í símann. Ég keyrði á barn í þessum aðstæðum sem ég var í. Ég á barn og ég gæti sett mig í þessi spor að keyra á barn eða mitt barn. Þetta voru miklar tilfinningar. Ekki snappa og keyra.“