Öllum er ljóst að ekki ríkir mikil hrifning í Hollywood vegna úrslita forsetakosninganna og andúðin á Donald Trump er mikil. Leikkonan Nicole Kidman hefur verið gagnrýnd fyrir orð sem hún lét falla í viðtali við BBC en þar sagði hún að Bandaríkjamenn ættu að styðja forseta sinn hverju sinni, hver sem hann væri. Sjálf segist hún með orðum sínum ekki hafa verið að lýsa yfir sérstökum stuðningi við Trump heldur hafa verið að leggja áherslu á trú sína á lýðræðið og bandarísku stjórnarskrána. „Það var það sem ég sagði og er mjög einfalt,“ bætti hún við.
Kidman hefur ekki einungis komist i fréttirnar vegna þessara orða heldur velta slúðurblöð sér einnig upp úr framkomu hennar á Golden Globe-verðlaunahátíðinni en þar truflaði hún Tom Hiddleston, aðalleikara Næturvarðarins, þegar hann var í viðtali í beinni útsendingu á rauða dreglinum. Kidman kom aðvífandi og greip fram í fyrir leikaranum til að koma því að að henni þætti gaman að vera mætt. Hiddleston tók trufluninni vel, en slúðurblöðin velta því fyrir sér hvort leikkonan hafi verið drukkin. Kannski fannst henni bara svona gaman.