Kenneth Branagh leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í nýrri kvikmyndaútgáfu af sögu Agöthu Christie, Morðinu í Austurlandahraðlestinni. Branagh fer með hlutverk spæjarans Hercule Poirot og mynd hans er stjörnum prýdd. Olivia Colman, Penélope Cruz, Willem Dafoe, Judi Dench, Johnny Depp, Derek Jacobi og Michelle Pfeiffer eru meðal leikara. Áætlað er að frumsýna myndina í nóvembermánuði 2017.
Árið 1974 var gerð mynd eftir þessari sögu Christie og þar fór Albert Finney með hlutverk Poirot og meðal annarra leikara voru Sean Connery, Vanessa Redgrave, John Gielgud, Lauren Bacall og Ingrid Bergman sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni. Alls var sú mynd tilnefnd til sex Óskarsverðlauna. Mynd Branagh þarf að vera ansi góð eigi hún að verða betri en verðlaunamyndin. Branagh er hvergi banginn. Hann segir Christie hafa búið yfir sálfræðilegu innsæi og skarpskyggni og þeim þáttum ætli hann að koma vel til skila í myndinni.
Þetta er ekki eina myndin sem aðdáendur Christie eiga von á. Leikstjóri The Imitaton Game, Morten Tyldum, mun leikstýra And Then There Were None, sem gerð er eftir myrkustu sögu glæpadrottningarinnar og Ben Affleck leikstýrir og leikur í The Witness for the Prosecution.