Leikarinn og ruðningskappinn fyrrverandi OJ Simpson verður að líkindum frjáls maður á mánudag. Skilorðsnefnd úrskurðaði fyrir skemmstu að OJ, sem dæmdur var í allt að 33 ára fangelsi árið 2008 fyrir vopnað rán og mannrán, gæti fengið reynslulausn.
AP-fréttastofan greinir frá því að vinna yfirvalda í Nevada vegna skilorðsins sé nú á lokametrunum og flest bendi til þess að hann öðlist frelsi eftir helgi.
OJ Simpson hefur í meira lagi átt skrautlega ævi en hann var frábær íþróttamaður í NFL-deildinni á sínum tíma. Þá öðlaðist hann nokkra frægð sem leikari eftir að íþróttaferlinum lauk. Þá var hann ákærður fyrir morð á fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Brown Simpson og vini hennar, Ron Goldman. OJ var síðar sýknaður eins og frægt er orðið.
Hann komst síðan í kast við lögin árið 2007 þegar hann var ákærður fyrir vopnað rán og mannrán í Las Vegas. Hann, ásamt hópi manna, ruddist vopnaður inn á Palace Station-hótelið og rændi verðmætum íþróttaminjagripum.
Hann var dæmdur í allt að 33 ára fangelsi fyrir ránið en samkvæmt dómnum gat hann sótt um reynslulausn að níu árum liðnum.