„Nú eru 9 ár liðin frá hruni. Enn er verið að gera upp mál tengdum því. Skotleyfin sem fjármálafyrirtækin fengu á almenning eru ágætis dæmi í þessari frétt. Hvernig ætli þessari fjölskyldu hafi liðið í þau 9 ár sem tekið hefur að fá þessa niðurstöðu?“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson formaðu VR á Facebook-síðu sinni. Þar fjallar hann um í stuttum pistli um niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands sem felldi úr gildi ákvörðun sýslumann á Norðurlandi eystra um að selja íbúð konu vegna vanskila sem voru til kominn vegna þess að sonur hennar hafði fest kaup á bíl árið 2007. Rúv gerði málinu skil. Sonurinn fékk lán hjá Arion banka að upphæð 3.5 milljónir og móðir hans ábyrgðist lánið. Umboðsmaður skuldara ráðlagði honum síðar þegar í óefni var komið að hætta að greiða af láninu. Arion banki fór síðan fram á það árið 2015 að íbúð móður hans yrði seld nauðungarsölu. Konan fór á móti fram á það að ákvörðun yrði hnekkt þar sem að við lánveitingu hefði ekki verið farið að settum reglum. Dómarinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að ósanngjarnt væri að ganga á fasteign konunnar.
Um þetta segir Ragnar:
„Hvað hefur þetta mál kostað þessa fjölskyldu í andlegum kvölum og svefnlausum nóttum? Hvað hafa margar fjölskyldur tapað aleigunni og endað á götunni yfir sama tímabil? Hverjir bera ábyrgð á þessu og litu í hina áttina? Hverjir drógu sængina upp fyrir haus og gera enn gagnvart þessu grímulausa ofbeldi sem enn á sér stað í okkar samfélagi?“