fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Ég get aðeins elskað

Erfitt ástarsamband lagði líf Eleanor, hinnar hæfileikaríku dóttur Karl Marx, í rúst

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 10. september 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jenny er líkust mér en Tussy er ég,“ sagði Karl Marx eitt sinn um Jenny, elstu dóttur sína og Eleanor þá yngstu.“ Tussy var gælunafn Eleanor sem erfði stjórnmálaáhuga föður síns. Marx-hjónin eignuðust sjö börn en einungis þrjár dætur komust til manns. Marx er svo talinn hafa átt son, Freddy, með ráðskonu þeirra hjóna. Dæturnar þrjár, Jenny, Lára og Eleanor, áttu fremur gleðisnauða ævi. Jenny og Lára giftust frönskum róttæklingum sem eyddu litlum tíma heima hjá sér. Jenný eignaðist fjögur börn og fjárhagsáhyggjur og streð kostuðu hana heilsuna. Lára fæddi börn en horfði á þau deyja, hvert á fætur öðru.

Sextán ára gömul varð Eleanor ritari föður síns og fór erlendis með honum á ráðstefnur sósíalista. Seinna lagði hún hönd á plóginn við þýðingar á verkum föður síns. Þegar Eleanor var sautján ára hafði móðir hennar orð á því að yngsta dóttirin virtist lifa og hrærast í pólitík. Eleanor talaði af sama krafti og faðir hennar um stéttabaráttuna, kommúnistabyltinguna og hina skaðlegu trú sem væri ópíum fólksins. Hún hélt þrumandi ræður á baráttufundum, skipulagði verkföll og mótmælafundi og vann að stofnun verkalýðsfélaga. Hún bjó yfir ótvíræðum pólitískum hæfileikum sem nýttust ekki sem skyldi vegna þess að hún var kona í þjóðfélagi sem veitti konum ekki svigrúm til aðgerða á sama hátt og körlum. Hún vann sem þýðandi og þýddi meðal annars hina frægu skáldsögu Frú Bovary eftir Flaubert á ensku og vílaði ekki fyrir sér að læra norsku til að geta þýdd leikrit Ibsens, Þjóðníðing og Konuna frá hafinu. Hún hafði mikinn áhuga á leiklist og í sviðlestri á leikriti Ibsens, Brúðuheimilinu, fór hún með hlutverk Nóru, George Bernard Shaw var Krogstad og ástmaður Eleanor, Edward Aveling, var Torvald.

Eleanor hafði mikinn áhuga á bókmenntum og þýddi heimsbókmenntir yfir á ensku.
Bókelsk Eleanor hafði mikinn áhuga á bókmenntum og þýddi heimsbókmenntir yfir á ensku.

Miður geðslegur maður

Þegar Marx lést hafði Eleanor hafið ástarsamband við Aveling sem var náttúrufræðingur. Rithöfundurinn Bernard Shaw lýsti venjum hans svo: „Á einum og sama degi fékk hann lánuð sex penní frá fátækasta manninum sem hann rakst á og bar því við að hann hefði gleymt buddunni sinni. Síðan fékk hann að láni 300 pund frá þeim ríkasta undir því yfirskini að hann væri að losa sig úr skuldum en skuldirnar borgaði hann aldrei.“ Shaw sagði að Aveling minnti sig á skriðdýr. Aveling var prestssonur sem heillaðist af kenningum Darwins og lagði stund á náttúruvísindi. Sérgrein hans var lífeðlisfræði og hann þótt afburða námsmaður og framúrskarandi kennari. Líf hans einkenndist af hneykslismálum og miður geðslegri hegðun. Hann var sósíalisti og trúlaus. Hann skrifaði nokkur leikrit sem hlutu góðar viðtökur.

Aveling kvæntist tuttugu og þriggja ára gamall Bell Frank, sveitastúlku sem erft hafði væna fúlgu eftir föður sinn. Hjónabandið entist í tvö ár en ekki var gengið frá lögskilnaði þeirra hjóna. Aveling sagði að þau hefðu orðið ásátt um að slíta hjónabandinu vegna ágreinings um trúmál, en eiginkonunni var í nöp við trúleysi hans. Ýmsir héldu því hins vegar fram að hann hefði gifst Bell eingöngu vegna arfsins og hefði yfirgefið hana þegar hann sá fram á að geta ekki haft meira af henni. ##Leynilegt hjónaband sambýlismanns Það var mörgum hulin ráðgáta hvað jafn vel gerð stúlka og Eleanor sá við Aveling. Sjálf sagði Eleanor: „Faðir minn sagði að ég minnti meira á dreng en stúlku. Það var Edward sem dró fram það kvenlega í mér. Ég laðaðist að honum án þess að ráða við það.“ Þau tóku upp sambúð. Bæði trúðu staðfastlega á sósíalismann og ferðuðust um Bandaríkin og héldu fyrirlestra um málstaðinn. Eftir heimkomuna skrifuðu þau saman bók um vinstri stefnu og verkalýðsfélög í Bandaríkjunum. Aveling hélt áfram fyrri iðju, sló lán sem hann lét Eleanor um að greiða og leitaði á náðir annarra kvenna.

Vinir Eleanor kenndu honum um dauða hennar.
Edward Aveling Vinir Eleanor kenndu honum um dauða hennar.

Árið 1897 lést Bell Frank, eiginkona Avelings, og elskendunum var frjáls að giftast. Aveling hafði önnur áform. Hann yfirgaf Eleanor og kvæntist leynilega ungri leikkonu, Evu Frye. Hann sneri hins vegar aftur til Eleanor þegar hann veiktist af lungnasjúkdómi og hún hjúkraði honum af stakri samviskusemi. Þegar Aveling hélt í tveggja vikna siglingu að læknisráði varð Eleanor eftir til að sinna pólitísku hugsjónastarfi. Hún hafði enga hugmynd um tilvist Evu Aveling sem vitaskuld fór í siglinguna með eiginmanni sínum.

„Ég á ekkert“

Eleanor hafði vingast við hálfbróður sinn, Freddy. Hann varð trúnaðarvinur hennar og hún skrifaði honum örvæntingarfull bréf. Í einu þeirra sagði hún: „Mér finnst stundum, Freddy, að ekkert gangi okkur í haginn. Ég á við þig og mig. Vesalings Jenny fékk vitaskuld sinn skammt af sorgum og lánleysi og Lára missti börnin sín. En Jenny var nægilega lánsöm að deyja og þótt það hafi verið sárt fyrir börnin hennar þá finnst mér stundum að það hafi verið fyrir bestu. Ég hefði ekki viljað sjá Jenny ganga í gegnum það sem ég hef gengið í gegnum. Mér finnst við ekki hafa verið mjög vondar manneskjur – og samt, kæri Freddy, virðist eins og við fáum alla refsinguna.“ Í öðru bréfi skrifaði hún: „Edward er farinn til London. Hann ætlar að hitta lækna … Hann leyfði mér ekki að fara með. Það lýsir engu öðru en grimmd og svo er margt sem hann vill ekki segja mér. Kæri Freddy, þú átt drenginn þinn – ég á ekkert og kem ekki auga á neitt sem er þess virði að lifa fyrir.“

En þótt óhamingjan og örvæntingin gripu hana oft heljartökum þá var hún í eðli sínu hugrökk og í bréfi til Freddy sagði hún yfirveguð: „Franskt spakmæli segir að það að skilja sé það sama og að fyrirgefa. Mikil þjáning hefur kennt mér að skilja – og þess vegna þarf ég ekki einu sinni að fyrirgefa. Ég get aðeins elskað.“

Feigðarsending

Svo fékk hún bréf. Enginn veit frá hverjum eða hvað í því stóð. Aveling brenndi bréfið eftir dauða hennar en það hefur mjög trúlega verið frá eiginkonu hans sem sennilega hefur skýrt Eleanor frá hjónabandi þeirra Avelings. Eftir fjórtán ára sambúð stóð Eleanor frammi fyrir þeirra staðreynd að Aveling hafði í engu metið hana sem einstakling og félaga. Þessi skyndilega og óvænta vissa kom eins og feigðarsending. Eleanor gafst upp. Hún sendi þjónustustúlku sína eftir blásýru sem hún sagðist ætla að nota til að lóga hundinum. Hún skildi eftir bréf til Avelings og þar stóð: „Elskan. Fljótlega verður öllu lokið. Síðasta orð mitt til þín er það sama og ég hef sagt öll þessi löngu dapurlegu ár – ástarkveðja.“

Eleanor var 43 ára gömul þegar hún svipti sig lífi. Vinir Eleanor íhugðu alvarlega að sækja Aveling til saka fyrir að eiga þátt í láti sambýliskonu sinnar og leituðu ráða hjá lögfræðingi. Hann ráðlagði þeim eindregið frá því að fara dómstólaleiðina því allar sannanir skorti. Aveling sýndi engin sérstök sorgarmerki eftir lát Eleanor. Hann flutti til eiginkonu sinnar og sólundaði arfinum sem hann hafði fengið eftir Eleanor. Hann lifði hátt en ekki lengi. Hann lést fjórum mánuðum eftir dauða Eleanor. „Synd að hann skyldi ekki deyja fyrr,“ skrifaði einn vina Eleanor til annars vinar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“