Davíð Þór Jónsson sóknarprestur í Laugarneskirkju er einn þeirra sem gagnrýnir ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa feðginunum Abrahim Maleki og 11 ára dóttur hans Haniye úr landi og bendir á að það sé á skjön við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Líkt og greint var frá í vikunni hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa feðginunum frá Afganistan aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Í hugleiðingu á facebooksíðu sinni ritar Davíð Þór:
„Í 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hefur verið á Íslandi segir m.a.: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
Stjórnvöld túlka þetta svona: „Hér er trámatíserað barn sem þarf hjálp. Best að trámatísera það aðeins meira og láta einhverja aðra hjálpa því.“
ritar Davíð Þór og bætir við í lokin:
„Ég skammast mín.“
Sema Erla Serdar formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar hefur verið virk í umræðunni um málefni hælisleitenda hér á landi. Líkt og Davíð Þór gagnrýnir hún yfirvöld harðlega fyrir að vísa þeim Abrahim og Haniye úr landi líkt og fram kom í grein DV í vikunni.
„Kæru Íslendingar. Mig langar að biðja ykkur um að leggja þetta andlit á minnið. Þetta er hin 11 ára Haniye Maleki. Hún er fædd á flótta. Hefur verið á flótta allt sitt líf. 11 ár. Á ekkert heimaland. Ekkert heimili. Er ríkisfangslaus. Hún fór yfir Miðjarðarhafið á slöngubát í baráttunni fyrir lífi sínu og framtíð. Tvisvar. Hún þjáist af alvarlegum andlegum veikindum sem hún þarf nauðsynlega aðstoð með. Hún er því metin í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ af yfirvöldum,“ ritaði Sema Erla í pistli á facebook nú í vikunni.
Þá benti Sema á að Haniye hefði aldrei fengið að upplifa frið og öryggi fyrr en hún kom til Íslands.
„Íslensk yfirvöld eru að fara að senda þessi gríðarlega brotthættu feðgin aftur á flótta. Út í óvissuna. Út í óöryggið. Þeirra helstu martröð. Það er ekki pláss fyrir þau hér að mati íslenskra yfirvalda sem nota úrelta og úr sér gengna valkvæða heimild til að senda þau úr landi. Þau vilja losna við þau. Og fleiri. Í næstu vél á eftir feðginunum verður annað flóttabarn. Og þau verða fleiri. Yfirvöld telja það ekki vera ábyrgð sína að veita Haniye eða öðrum börnum í hennar stöðu möguleika á framtíð.“