Rósa Ólöf gefur út bókina „Kæra nafna“ um erfið æskuár sín
Falleg orð um Lalla Johns í kjölfar fréttar um áhrifamikið viðtal við systur hans má nú lesa í ummælakerfi DV. Ljóst er að margir hugsa hlýlega til Lalla og systur hans Rósu Ólafar Ólafíudóttur en væntanleg er bókin „Kæra nafna“ eftir Rósu Ólöfu þar sem hún rekur örlagasögu sína og sinna.
Þann 24. ágúst sýndi sjónvarpsstöðin Hringbraut viðtal Lindu Blöndal við systur Rósu Ólöfu, þar sem hún segir meðal annars frá erfiðum æskuárum, veikindum móður, fátækt og flakki milli fósturheimila. Viðtalið, sem er afar áhrifamikið, má nálgast hér, og hefst það er rúmar 20 mínútur eru liðnar af myndskeiðinu.
Rósa Ólöf segir meðal annars frá skömminni sem hafi fylgt henni lengi og hvað henni hafi fundist óþægilegt þegar sýnd var heimildarmynd um bróður hennar Lalla Johns. Einnig kom fram að Lalli er edrú í dag og dvelst á áfangaheimilinu Draumasetrið.DV birti frétt um viðtalið á Hringbraut. Undir þá frétt tjáðu margir lesendur sig með fallegum hætti um Lalla. Meðal annarra skrifar Inga G Halldórsdóttir:
„Það er auðvelt að þykja vænt um Lalla. Ég þekkti hann lítillega á árum áður og sá alltaf að á bak við allt ruglið leyndist gott hjarta. Nú gengur vel hjá honum með Guðs hjálp og í Draumasetrinu sem á einning miklar þakkir fyrir. Draumasetrið hefur unnið þrekvirki þar sem þeir hafa átt á brattann að sækja þar sem borgin hefur haft lítinn áhuga á að styrkja þetta frábæra starf. Ég sé Lalla stundum og er gaman að fylgjast með honum þar sem allt er uppá við hjá hetju norðursins. Það er gott að fá að heyra svona sögur því þær kenna manni að dæma ekki fólk vegna stöðu þeirra né erfinleika. Mætti honum áfram ganga vel og sytur hans líka. Takk fyrir að deila þessu með okkur.“
Hermina Lilliendahl skrifar: „Hef aldrei heyrt nokkurn mann tala illa um Lalla.“
Gunnar Waage skrifar: „Lallir hefur alltaf verið góður drengur.“
Þá skrifar Margeir Margeirss: „Hvenær fær Lalli vinur minn, uppreisn æru ásamt fjölda fólks sem stofnanir og fólk á vegum íslenska ríkisins skaðaði á allskonar máta í langan tíma.“
Margir fleiri láta hlý orð falla og nokkur lýsa yfir miklum áhuga á væntanlegri bók Rósu Ólafar, „Kæra nafna.“
Kápumynd bókarinnar er hér að neðan en hægt er að leggja útgáfunni lið á Karolina Fund, heita á verkefnið og tryggja sér eintak. Þar segir að hér sé um að ræða bók í bréfastíl þar sem Rósa Ólöf Ólafíudóttir ávarpar barnabarn sitt og rýfur áratuga þögn um reynslu sem hefur verið umvafin skömm.
Sjá nánar hér.