fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Gamanleikarinn sem þoldi ekki einveru

Jerry Lewis er látinn 91 árs – Leit á Chaplin sem fyrirmynd – Óttaðist dauðann

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 26. ágúst 2017 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jerry Lewis lést nýlega 91 árs gamall. Hann var á sínum tíma einn vinsælasti gamanleikari heims. Í heimalandi hans, Bandaríkjunum, var stundum efast um hæfileika hans en í Frakklandi naut hann mikillar viðurkenningar og þótti snillingur í gamanleik. Árið 1984 veittu Frakkar honum heiðursorðu. Virtur franskur gagnrýnandi sagði að það vekti mikla furðu að Bandaríkjamenn skyldu ekki skynja snilligáfu Jerry Lewis.

Lewis fæddist árið 1926, sonur foreldra sem voru í skemmtanabransanum. Foreldrar hans voru löngum fjarverandi og hann var á stöðugu rápi milli ættingja. Hann fór að trúa því að foreldrar hans elskuðu hann ekki og þoldi ekki að vera einn. Fimm ára gamall sá hann Chaplin-myndina The Circus í bíó og ákvað að hann vildi verða trúður. Sextán ára gamall hætti hann í skóla og sneri sér að skemmtanabransanum.

Frægt samstarf

Tvítugur kynntist hann söngvaranum Dean Martin og þeir hófu einkar farsælt samstarf sem gamanteymi. Þeim var boðinn kvikmyndasamningur og léku saman í sextán kvikmyndum þar sem Lewis var í hlutverki trúðsins og Martin var kvennagullið sem söng hvenær sem tækifæri gafst til. Samstarf þeirra stóð í tíu ár og færði þeim frægð og auð en lauk með látum. Lewis líkti samstarfsslitunum við skilnað. Hann sagði við Martin: „Ég held að okkur þyki enn vænt hvor um annan.“ Martin leit á hann og sagði: „Þú getur talað um væntumþykju eins lengi og þér sýnist. Í mínum augum ertu ekkert annað en andskotans dollaramerki.“ Kalt var á milli þeirra félaga í langan tíma en það var sameiginlegur vinur, Frank Sinatra, sem kom loks á endurfundum í sjónvarpssal. Eftir að Martin missti son sinn árið 1987 komust á fullar sættir þeirra á milli. Lewis skrifaði bók um samstarf þeirra, Dean and Me (A Love Story) sem kom út árið 2005, og fór hlýjum orðum um Martin.

Það var Frank Sinatra sem tók að sér að koma á sáttum milli Jerry Lewis og Dean Martin.
Endurfundir Það var Frank Sinatra sem tók að sér að koma á sáttum milli Jerry Lewis og Dean Martin.

Þoldi ekki gagnrýni

Þekktasta mynd Lewis er The Nutty Professor frá árinu 1963 sem síðar var endurgerð með Eddie Murphy. Lewis sinnti ekki einungis kvikmyndaleik heldur leikstýrði einnig nokkrum mynda sinna, skrifaði handritið og var framleiðandi. Chaplin var hans átrúnaðargoð og hann leit á hann og aðra gamanleikara þöglu myndanna sem fyrirmyndir. Hann söng inn á plötur og kom fram í sjónvarpi og á sviði. Hann skemmti iðulega í Las Vegas og kom þar síðast fram árið 2016. Hann tók gagnrýni aldrei vel og þegar hann skemmti á sviði átti hann jafnvel til að hreyta ónotum í áhorfendur ef honum þótti viðtökurnar ekki nægilega góðar. Hann stærði sig af því að hafa kallað slúðurdálkahöfundinn Louellu Parson feita gyltu.

Hann sagðist hafa á nokkurra ára tímabili unnið hvern einasta dag og farið á fætur hálf fjögur á morgnana. Oft gleymdi hann hreinlega að matast. Vinnuharka hans leiddi til þess að hann fékk taugaáfall. Hann hætti að vinna jafn mikið og áður en var þó alltaf að. Svo kom að því að ýktur leikstíll hans féll ekki lengur í kramið í Bandaríkjunum og stjarna hans hætti að skína skært. Hann lét þó ekki deigan síga og hélt áfram að skemmta og leika. Árið 1982 lék hann í mynd Martin Scorsese The King of Comedy og sýndi þar sinn besta leik. Sagt er að Lewis, sem ekki skorti sjálfstraust, hafi látið það fara mjög í taugarnar sér sér hversu mjög aðalleikara myndarinnar Robert De Niro var hampað.

Þrátt fyrir heilsuleysi hélt hann áfram að skemmta á gamals aldri.
Sótti í sviðsljósið Þrátt fyrir heilsuleysi hélt hann áfram að skemmta á gamals aldri.

Vildi sjá Trump sem forseta

Vinur Lewis, John F. Kennedy, ráðlagði honum að skipta sér ekki af stjórnmálum og í langan tíma fór hann að ráðum hans. Árið 2004 lýsti hann þó yfir stuðningi við Bush forseta og sagðist harma hversu lítið þjóðarstolt fólk sýndi. Árið 2015 varaði hann í viðtali við því að sýrlenskum flóttamönnum væri veitt hæli í Bandaríkjunum því hætta væri á því að ISIS-liðar leyndust meðal þeirra. „Hver getur tekið þá áhættu?“ sagði hann. Í sama viðtali gagnrýndi hann Barack Obama fyrir skort á viðbragðsáætlun vegna ISIS, lýsti yfir aðdáun á Ronald Reagan og sagði að Donald Trump myndi reynast góður forseti.

Lewis, sem á tímabili reykti fjóra sígarettupakka á dag, glímdi um árabil við heilsubrest. Auk annarra aðgerða fór hann í opna hjartaaðgerð árið 1983 og barðist við krabbamein. Hann viðurkenndi að hafa í þrettán ár verið háður verkjalyfjum sem hann tók vegna slæms bakverkjar sem hann glímdi við. Hann sagði að vegna þessarar fíknar hafi árin milli 1973 og 1977 verið eins og í móðu, en hann mundi þó eftir því að hafa dag einn setið með byssu í munninum og með fingur á byssugikknum.

Hann var árum saman í formennsku fyrir samtök sem beita sér fyrir rannsóknum á vöðvasjúkdómum og átti þátt í að fjármagna þau. Fyrir þetta starf sitt var hann tilnefndur til Friðarverðlauna Nóbels árið 1977. Ný kynslóð fór að meta verk hans og leit jafnvel á hann sem fyrirmynd, eins og gamanleikarinn Jim Carrey gerir. Honum hlotnaðist ýmiss konar viðurkenningar á efri árum, þar á meðal heiðursverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og Jean Hersholt mannúðarverðlaunin sem veitt voru við Óskarsverðlaunaathöfnina árið 2009.

Þoldi ekki einveru

Lewis var tvíkvæntur. Átján ára gamall hitti hann söngkonuna Patti Palmer og þau gengu í hjónband tíu dögum síðar. Hjónaband þeirra entist í nær fjörtíu ár þrátt fyrir umfangsmikla ótryggð hans og þau áttu sex börn. Yngsta barnið, Joseph, varð eiturlyfjaneytandi. Hann framdi sjálfsmorð árið 2009, fjörtíu og fimm ára gamall. Lewis gekk að eiga seinni eiginkonu sína, SamDee Pitnick, árið 1983 og þau ættleiddu dóttur. Hann þoldi aldrei vel að vera einn og árið 2016 sagði hann klökkur í viðtali að hann óttaðist að deyja þar sem kona hans og dóttir yrðu þá einar eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna