Á sunnudag sýnir BBC heimildamynd um Díönu prinsessu þar sem synir hennar ræða um hana. Þegar hafa verið sýnd brot úr þættinum, þar á meðal eitt þar sem Harry Bretaprins gagnrýnir harðlega þá ljósmyndara sem hundeltu Díönu í París og tóku síðan myndir af henni deyjandi í bíl. Hann segir afar sárt að vita af því að þetta hafi raunverulega gerst. Í þættinum er einnig talað við bandaríska konu sem varð vitni að því þegar ljósmyndarar þyrptust að til að mynda Díönu í bílflakinu.
Tuttugu ár eru síðan Díana prinsessa lést. Á þessu ári hafa verið gerðar á þriðja tug heimildamynda um hana. Áhuginn á prinsessu fólksins er gríðarlegur og ljóst er að hún er enn mjög ástsæl. Vinsældir Karls Bretaprins hafa hins vegar dalað mjög, enda hafa komið fram enn fleiri upplýsingar en áður um áberandi kaldlyndi hans í garð eiginkonu sinnar strax eftir að þau gengu í hjónaband. Meirihluti Breta vill að Vilhjálmur erfi krúnuna í stað Karls. Elísabet Englandsdrottning mun ekki hafa neinar áætlanir um að afsala sér krúnunni heldur vill sitja sem fastast en hún er níutíu og eins árs.