fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fókus

Elsa er nýútskrifuð og sýnir stuttmynd á stórri kvikmyndahátíð

Áhuginn vaknaði snemma – „Karlar frekar tilbúnir að spotta snilldina hver hjá öðrum“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. júlí 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elsa María Jakobsdóttir, sem áður starfaði í Kastljósinu hjá RÚV, útskrifaðist nýverið sem leikstjóri frá Den Danske Filmskole í Kaupmannahöfn. Útskriftarmynd hennar, stuttmyndin Atelier, hefur vakið nokkra athygli og meðal annars verið sýnd á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi sem lauk 8. júlí.

Þetta er þriðja myndin sem Elsa María leikstýrir. Hinar eru heimildarstuttmyndin Teipið gengur (2008) sem sýnd var á RIFF og stuttmyndin Megaphone (2013) sem var valin besta íslenska stuttmyndin á Northern Wave hátíðinni.

David Lynch vídjóspólur á Húsavík

Elsa segir áhugann á kvikmyndum hafa vaknað snemma. „Sem unglingur hékk ég flest kvöld á vídjóleigum Húsavíkur að spá í spólur og vanda myndaval kvöldsins. Ég var hugfangin af David Lynch og Lars von Trier og Tarantino var líka fyrirferðarmikill á þeim tíma. Ég skildi á þeirra myndum hvað leikstjóri gerir og fannst það heillandi. Þetta var fjarlægur draumur sem ég tók ekki alvarlega og hélt að þetta dreymdi alla um.”

„Þegar ég varð þrítug fannst mér alveg glatað að hafa aldrei látið á þetta reyna af nokkurri alvöru“

En að gera kvikmyndir að atvinnu er meira en að segja það. „Þegar ég varð þrítug fannst mér alveg glatað að hafa aldrei látið á þetta reyna af nokkurri alvöru. Ég hafði fengist við sjónvarp, blaðamennsku og framleiðslu í tíu ár og fannst kominn tími á að hætta að dansa í kringum fagið og sjá hvort mér þætti í raun áhugavert að standa fyrir þessu sjálf. Vinnan í kringum fyrstu leiknu stuttmyndina mína Megaphone var eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað. Það sameinaði svo mörg áhugamál svo ég ákvað að fara í leikstjórnarnám.”

Margar konur í faginu að koma upp úr kafinu

Atelier fjallar um unga konu sem sækist eftir frið og ró til að vinna í sjálfri sér í útópísku húsi á eyjunni Gotlandi. Eftir að krefjandi hljóðlistakona mætir á svæðið er friðurinn hins vegar úti. Myndin fjallar í raun um hvernig fólk finnur sér stað í heiminum og sættist við hann og sjálfan sig. „Hvernig það getur verið gjörsamlega óþolandi að vera innan um annað fólk en hvernig maður getur heldur ekki lifað án þess.“ Þá kemur grænn djús, spandex, jóga, skandinavísur míníalismi og gotneskar rollur einnig við sögu.

Sýnd í Karlovy Vary
Atalier Sýnd í Karlovy Vary

Elsa segist hrifin af leikstjórum sem nota kvikmyndir sem miðil til hins ýtrasta. Sem „geta framkallað eitthvað ástand í mér“. Nefnir hún meðal annars Stanley Kubrick, Ingmar Bergman, Paul Thomas Anderson, Robert Bresson og áðurnefnda Lynch og von Trier. „Svo var mikilvægt fyrir mig að kynnast verkum Lynne Ramsey og Andreu Arnold og lesa viðtöl við þær til að eignast fyrirmyndir í konum í faginu.“

Langflestir sem starfa sem leikstjórar eru karlmenn en Elsa er bjartsýn fyrir hönd kvenna í kvikmyndagerð. „Ég veit af mörgum konum í faginu hér á Íslandi sem eru að koma upp úr kafinu og það verður spennandi að sjá hvað gerist. Ég held að þetta sé góður tími til að útskrifast úr kvikmyndanámi og gera bíó.“

Hún segir jafnframt að körlum finnist skemmtilegast að tala við aðra karla og séu frekar „tilbúnir að spotta snilldina hver hjá öðrum.“ En eftir að hún byrjaði að gera kvikmyndir hafi henni boðist ýmis konar spennandi verkefni og samstörf.

Tvö verkefni í burðarliðnum

Elsa hefur kynnst mikið af fólki í Danmörku og hyggst láta á það reyna að starfa þar en jafnframt hafa annan fótinn hérna heima á Íslandi. Hún segir Kaupmannahöfn vera draumaborg fyrir kvikmyndgerðarfólk. Kvikmyndir séu teknar alvarlega og kröfurnar um fagmennsku miklar. Hún segir þó að hlutirnir gerist hægt þar og stíf fundarhöld geti dregið úr sköpunarkraftinum.

Næsta takmark Elsu er að gera leikna kvikmynd í fullri lengd og helst áður en langt um líður. Hún hefur þó einnig áhuga á að gera bæði leikið sjónvarpsefni og heimildarmyndir. Eftir að Atelier var frumsýnd fékk hún boð frá aðilum úr auglýsingabransanum. „Ég hafði aldrei velt þeim bransa fyrir mér en fannst gaman að sjá að efnið mitt getur líka haft vægi þar.“

Elsa er nú á kvikmyndahátíðarrúnti til að fylgja Atelier eftir. Hún mun taka þátt í keppninni Nordisk Talent í september, sem er keppni fyrir nýútskrifaða leikstjóra frá Norðurlöndum, og þar er hægt að vinna talsvert þróunarfé. Þá er hún einnig með tvö verkefni í deiglunni. „Ég er að vinna að mynd í fullri lengd. Er með eitt verkefni núna sem mig langar að gera á Íslandi og annað í Danmörku.“

En hver er æðsti draumur Elsu, er það Gullpálminn eða Óskarinn? Hún segir: „Mig langar fyrst og fremst að geta unnið við kvikmyndagerð í gefandi samstarfi við gott og kjarkað fólk. Og taka þátt í að þróa íslenska kvikmyndagerð sem er svo ung og spennandi grein og möguleikarnir margir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ívar: „Það er búið að taka þetta viðtal út af netinu og ég þakka guði fyrir það“

Ívar: „Það er búið að taka þetta viðtal út af netinu og ég þakka guði fyrir það“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona breytir gervigreindin frægu málverki

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona breytir gervigreindin frægu málverki