Í dag eru 30 ár liðin frá stærstu tónleikum allra tíma, Live Aid. Tónleikarnir voru skipulagðir af Bob Geldof og Midge Ure til styrktar Eþíópíu, en allt byrjaði þetta með jólalaginu Do They Know It´s Christmas, sem tekið var upp í nóvember 1984.
Tvennir tónleikar voru haldnir samtímis á Wembley leikvanginum í London og John F.Kennedy Stadium í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum. 200 þúsund áhorfendur sóttu tónleikana og áætlað er að um 1,9 milljarður áhorfenda hafi horft á beina útsendingu í 150 löndum.
Stærstu stjörnur þessa tíma tróðu upp og þar á meðal má nefna Ultravox, Queen, Sting, Elton John og Spandau Ballett Í London og Duran Duran, Madonnu, Eric Clapton, Simple Minds, Bryan Adams og The Four Tops í Pennsylvaníu. Phil Collins gerði sér lítið fyrir og tróð upp á báðum stöðum. Þetta er viðburður sem öll börn 80’s tímabilsins muna vel eftir, enda mátti þarna berja augum allar stjörnur þess tíma á sama viðburðinum.
Að öðrum listamönnum ólöstuðum þótti breska sveitin Queen eiga bestu frammistöðuna, en þeir spiluðu sex lög. Flutningur þeirra hefur síðan verið valinn sem besti live flutningur allra tíma í rokksögunni af meira en sextíu listamönnum, gagnrýnendum og aðilum í tónlistarbransanum.