Raddböndin gáfu sig eftir 121 tónleika
Breska söngkonan Adele birti fyrir stuttu tilkynningu á Facebook og Instagram að síðustu tveir tónleikar hennar í London myndu falla niður, að læknisráði. Adele er nú að ljúka sínu fyrsta (og væntanlega síðasta) heimstónleikaferðalagi. Síðustu fjórir tónleikarnir eru í London, tveimur er lokið, en nú er ljóst að ekkert verður af seinni tveimur.
Tveimur tónleikum á Wembley leikvanginum er lokið, 28. og 29. júní síðastliðinn og síðustu tveir tónleikar Adele áttu að vera 1. og 2. júlí. Tónleikarnir 28. júní slógu met í aðsókn á Wembley og meðal annars hefur mikill fjöldi íslendinga lagt leið sína til London til að hlýða á Adele. Var hún búin að tilkynna að eftir tónleikaferðalagið ætlaði hún í frí og líklega aldrei syngja á tónleikum aftur. Sjá umfjöllun um tónleikana 28. júní hér
Var Adele búin að syngja á 121 tónleikum og tveir voru eftir, en raddböndin gáfust einfaldlega upp.
Í tilkynningu Adele segir hún að hún hafi þurft að rembast við að syngja á fyrri tveimur tónleikunum og að í dag hafi hún farið til hálslæknis, sem tjáði henni að hún væri búin að skaða raddböndin og var henni bannað að syngja nú um helgina. Segir hún í tilkynningu hennar að hún sé gjörsamlega miður sín og hafi íhugað að „mæma“ á tónleikunum núna um helgina, en hinsvegar ekki viljað gera aðdáendum sínum það.
Það er því ljóst að margir aðdáendur Adele sem ætluðu að fara á tónleika hennar á laugardags- og sunnudagskvöld verða að bíta í það súra epli að missa af henni á tónleikum, því ekki er vitað á þessari stundu hvort fundin verður ný dagsetning fyrir tónleikana eða miðar einfaldlega endurgreiddir.