fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Styrmir Gunnarsson um hrunið: „Verst er að við höfum ekki náð að læra af því“

„Það sem tókst í sambandi við hrunið var að ákveðin dómsmál voru kláruð. Annað hefur ekki verið klárað.“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 29. júní 2017 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson var í 36 ár ritstjóri Morgunblaðsins og afar áhrifamikill í því starfi, þótt sjálfur vilji hann ekki gera mikið úr þeim áhrifum. Hann lét af starfi ritstjóra árið 2008 en lætur sig þjóðfélagsmál enn miklu varða. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Styrmi og ræddi við hann um hrunið, stjórnmálin, Morgunblaðið, þroskandi lífsreynslu og ævi forfeðranna.

Blaðamaður hitti Styrmi á heimili hans í Kópavogi. Talið barst fyrst að aldri og því að eldast. „Það er merkilegt að fylgjast með því á sjálfum sér hvernig maður eldist,“ segir Styrmir. „Þegar ég var sjötugur fannst mér það alveg eins og að vera sextugur og þegar ég varð 75 ára fann ég heldur engan mun. Ég fór raunverulega ekki að finna mun á mér fyrr en ég varð 78 ára. Núna er ég orðinn 79 ára og finn ennþá meiri mun sem sýnir sig í því að þrekið minnkar. Maður verður nokkuð hissa þegar það gerist. Á sama tíma finnur maður að maður færist smám saman út í jaðar samfélagsins og er að mestu leyti áhorfandi að því sem er að gerast.“

Varla finnst þér æskilegt að við gefum þeim sem eldri eru svo lítið vægi í okkar þjóðfélagi?

„John McCain er einn aðalgagnrýnandi Donalds Trump á Bandaríkjaþingi. Hann er einu ári eldri en ég og einn af forystumönnum Repúblikana. Fyrir vestan er annað viðhorf til aldurs en hér á landi. Í Bandaríkjunum er líka mikið um fólk á mínum aldri sem er ennþá virkt í fjölmiðlum og að hluta til einnig í Bretlandi.

Ég held að áhersla á æsku sé meiri hér en víða annars staðar, en ég skil það vel. Þegar ég var tvítugur og var að byrja starf í Heimdalli þá vildi ég losna við allt gamla liðið, sem mér fannst orðið úrelt.“

Blaðamaður hefur einhverja fyrirfram hugmynd um að Styrmir sitji við skriftir og spyr hvort hann sé kannski að skrifa ævisögu sína. „Mér hefur aldrei dottið í hug að skrifa ævisögu mína. Mér finnst ævi mín ekki vera neitt merkileg,“ svarar Styrmir. „Það má þó kannski segja að tvær bækur sem ég skrifaði séu partur af ævisögu. Önnur var um átökin í Sjálfstæðisflokknum og hin um kalda stríðið, hvort tveggja hefur verið mikill partur af starfsævi minni.

Ég hef verið að bauka við handrit sem ég veit ekkert hvort á eftir að koma út. Það er framhald af þessum tveimur bókum með áherslu á Sjálfstæðisflokkinn og hans vegferð í okkar samfélagi. Mér hefur líka dottið í hug að skrifa bók um Morgunblaðið sem mér finnst hafa verið merkilegt fyrirbæri í okkar þjóðfélagi.“

Allt varð falt fyrir peninga

Ein frægasta tilvitnun seinni ára eru orð sem Styrmir sagði við rannsóknarnefnd á vegum Alþingis vegna hrunsins: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Styrmir er spurður hvort það hafi lengi við skoðun hans að þjóðfélagið sé ógeðslegt.

„Ég var búinn að velta þessu fyrir mér sennilega í þrjátíu ár,“ segir hann. „Upp úr 1980 byrjaði ég að finna að þeir sem áttu erindi við mig upp á Morgunblaðið töluðu öðruvísi en ég hafði áður kynnst. Áður hafði ég kynnst hreinskiptnum umræðum, hvort sem um var að ræða skoðanabræður mína eða pólitíska andstæðinga. Nú fór ég að taka eftir því að menn voru að reka ákveðin erindi og töluðu eins og þeir töldu að ég vildi heyra.

Þessi þróun, sem ég var farinn að finna upp úr 1980, magnaðist óskaplega mikið á síðustu árunum fyrir aldamót og fyrstu árunum eftir aldamót þegar peningar voru farnir að spila gríðarlega stóra rullu í okkar samfélagi. Svo að segja allt var með einhverjum hætti orðið falt fyrir peninga. Þetta var mjög harkaleg hagsmunabarátta sem snerist meira og minna öll um peninga. Þetta fannst mér í æ meira mæli vera orðið mjög ógeðslegt.

Ég var að ganga út af fundi undirnefndar rannsóknarnefndar Alþingis þegar ég sneri mér við og sagði þessi orð. Ég var að segja það sem mér fannst – og finnst enn. Ég hef ekki skipt um skoðun. En þetta var ein hlið samfélagsins, þar er margt annað sem er mjög gott.

Samfélagið var mjög meðvirkt á árunum fyrir hrun. Ég held að sú meðvirkni hafi átt þátt í hruninu. Það má líka segja að fámennið hafi átt sinn þátt í þessari meðvirkni. Við erum svo fá og þekkjumst svo mikið. Návígið og fámennið hefur áhrif á okkur og það skapar meðvirkni. Þessir veikleikar í samfélagi okkar áttu þátt í hruninu. Verst er að við höfum ekki náð að læra af því. Það sem tókst í sambandi við hrunið var að ákveðin dómsmál voru kláruð. Annað hefur ekki verið klárað.

Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki gert upp sína stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn sat í ríkisstjórn frá 1991–2009 og ber mikla ábyrgð á því sem gerðist á því tímabili. Þetta uppgjör var hafið innan flokksins en því lauk aldrei. Hið sama á auðvitað við um hina hefðbundnu flokka, fyrir utan VG sem ekki átti aðild að ríkisstjórn á þessum árum.“

Verður að koma böndum á hagsmunaöflin

Hvernig finnst þér þessi ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins vera að standa sig?

„Ég held að það sé ekki hægt að fella neina dóma um þessa ríkisstjórn þegar hér er komið sögu. Hún er ekki farin að takast á við hin stóru mál, eins og gengisstyrkinguna, sjávarútvegsmálin og ESB. Þetta eru allt saman átakamál sem ekki er farið að snerta við.

Vandamál Sjálfstæðisflokksins er að hann hefur misst fjórðung af sínu gamla fylgi sem var í marga áratugi mjög stöðugt, 37–38 prósent og stundum yfir 40 prósent. Nú hefur hann lengi verið í plús eða mínus 25 prósentum og virðist ekki ætla að komast yfir 30 prósent. Þetta hefur gjörbreytt stöðu flokksins.

Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri lykilstöðu sem hann er, ekki vegna styrkleika síns heldur vegna þess hvað andstæðingar flokksins eru sundraðir og skiptir upp í marga flokka. Um leið og andstæðingarnir átta sig á þessu og stilla saman strengi sína og ná betur saman getur vel verið að upp komi sama staða á landsvísu og í Reykjavík. Við misstum meirihlutann í Reykjavík og okkur hefur ekki tekist að ná honum aftur með varanlegum hætti. Þetta er áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Hvað segirðu um þá gagnrýni, sem heyrist iðulega, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur sérhagsmunaafla?

„Ef maður horfir á sögu flokksins þá er engin spurning um að þar hafa verið alls konar hagsmunaöfl. Auðvitað eru þau innan allra flokka, bara með mismunandi hætti. Það er kannski skýrast í svona stórum flokki, en sýnir sig sannarlega í öllum flokkum.

Í gamla daga, um það bil þegar ég var að fæðast, þá voru átök innan Sjálfstæðisflokksins, annars vegar milli útgerðarhagsmuna og verslunarhagsmuna. Útgerðarmennirnir vildu gengislækkun og heildsalarnir vildu ekki gengislækkun vegna þess að þeir voru með erlend lán. Útgerðarmennirnir urðu ofan á og á tímabili voru heildsalarnir sumir hverjir á barmi gjaldþrots. Eftir stríð og á fyrstu árum kalda stríðsins voru annars konar hagsmunaátök í samfélaginu. Þá byggðist upp mjög sterkur og öflugur verkalýðsarmur í Sjálfstæðisflokknum sem hafði gríðarlega mikil áhrif í 15–20 ár, þar á meðal á viðreisnarárunum. Hann vó upp á móti þessum atvinnulífshagsmunum sem auðvitað voru áfram til staðar innan flokksins. Hér áður fyrr endurspeglaði Sjálfstæðisflokkurinn samfélag okkar betur en nokkur annar flokkur vegna þess hversu breiddin var mikil og fólk sem kom úr margvíslegum ólíkum áttum átti sér samleið í þessum flokki. Þetta hefur breyst.

Eitt af því sem mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert upp við í sinni sögu, og hefði átt að gera eftir hrun, er samspil ólíkra hagsmuna innan flokksins.

Við berjumst fyrir einstaklingsframtaki og frelsi í viðskiptum, en hver er raunveruleikinn í okkar samfélagi? Hvar er hinn frjálsi markaður á Íslandi sem við höfum talið okkur vera að berjast fyrir? Hann er ekki til nema í mjög litlum mæli.

Fyrir 25–30 árum var einokun á millilandaflugi þótt það mætti ekki kalla það því nafni. Það var fákeppni í skipaflutningum á milli landa. Það var reynt að stofna lítil skipafélög til að keppa við þessi fyrirtæki en þau voru kæfð í fæðingu af stærri keppinautum. Svona er hægt að halda áfram með olíufélögin, tryggingafélögin, bankana og svo framvegis.

Þá liggur beint við að átta sig á að innan svona stórs og breiðs flokks eru hagsmunaöfl alls staðar á ferðinni. Kannski er eitt stærsta verkefni sem við okkur blasir að koma einhverju skikki á þessi átök hagsmunaafla. Auðvitað verða þau alltaf til en þau mega ekki ráða ferðinni. Það verður að koma einhvers konar böndum á þau, þannig að það séu ekki hagsmunaaðilar sem segja þingi og ríkisstjórn fyrir verkum, eins og var að byrja að gerast á árunum fyrir hrun í krafti peninga.“

Afl fólksins

Þú hefur miklar hugmyndir um beint lýðræði og hefur skrifað mikið um það. Heldurðu að það myndi skapa betra þjóðfélag?

„Ég hef sannfærst um það með því að fylgjast með okkar samfélagi og þessum hagsmunaöflum sem við erum að tala um að það sé bara til eitt afl á Íslandi sem ræður við þau. Það er fólkið í landinu með sínu atkvæði.

Frá árinu 1997 skrifaði ég í nafni Morgunblaðsins um beint lýðræði þar til ég hætti og hef síðan haldið því áfram sjálfur undir mínu eigin nafni. Þetta byggist á þeirri sannfæringu að hið beina lýðræði sé eina aflið sem ræður við alla þessa mismunandi hagsmunahópa í samfélaginu, hvort sem það er landbúnaður, sjávarútvegur, verslun, viðskipti, bankar og svo framvegis.

Mér finnst að það eigi að breyta stjórnskipun Íslands þannig að þjóðin sjálf taki allar meginákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslu og þingið útfæri síðan þær ákvarðanir í löggjöf. Þannig finnst mér að eigi að stjórna Íslandi og ég er algjörlega sannfærður um að þetta er eina leiðin til að skapa hér sæmilega sanngjarn og réttlátt samfélag. Stjórnmálamennirnir og flokkarnir ráða ekki við þessi hagsmunaöfl.“

Áhrif Morgunblaðsins

Víkjum að starfsferlinum. Meginhluta ævinnar starfaðir þú á einum stað, Morgunblaðinu, og í áratugi sem ritstjóri. Voru einhverjir gallar við að starfa svo lengi á einum stað?

„Mér fannst svo óskaplega gaman að vinna á Morgunblaðinu að ég leiddi aldrei hugann að því. Ég ætlaði mér aldrei að fara á Morgunblaðið. Þegar ég lauk lögfræðiprófi var mér boðið þar starf við að skrifa um pólitík. Þetta bara víxlaðist svona en mér fannst gaman þar til síðasta dags.“

Var þá ekkert erfitt að hætta?

„Nei. Ég var búinn að sjá hvað það var erfitt fyrir marga af kollegum mínum og lofaði sjálfum mér því að það skyldi ekki vera svona erfitt fyrir mig. Það var ekkert erfitt því ég var búinn að búa mig undir það tilfinningalega. Það tók mig tvo mánuði að hætta að hugsa á hverjum morgni eins og maður hugsar þegar maður ritstýrir blaði.“

Morgunblaðið var gríðarlega útbreitt á ritstjóraárum þínum og Matthíasar Johannessen. Þú varst valdamikill ritstjóri, rétt eins og hann. Fannst þér þú einhvern tíma hafa of mikil völd?

„Ég upplifði þetta starf aldrei þannig að ég væri valdamikill. Ég var líka þeirrar skoðunar, og er þeirrar skoðunar, að allt tal á þeim tíma um áhrif Morgunblaðsins væri ekki rétt. Þetta var upplifun fólks úti í bæ og andstæðinga blaðsins en var ekki veruleikinn. Mér fannst ég aldrei sitja í valdamiklu starfi eða að ég væri með í höndunum, ásamt kollegum mínum, eitthvert ofboðslegt áhrifaafl í samfélaginu. Ég er algjörlega sannfærður um að allt var þetta ofsagt hjá þeim sem héldu þessu fram.

Matthías hafði eitt sinn í mín eyru eftir Bjarna heitnum Benediktssyni að Morgunblaðið ætti stóran þátt í að skapa andrúmsloftið í samfélaginu. Ég held að það hafi verið heilmikið til í því að blaðið hafi stundum getað haft mikil áhrif á andrúmsloftið í samfélaginu. Það má segja að í því séu ákveðin áhrif fólgin.

Mín reynsla var sú að Morgunblaðið gæti með því að berjast fyrir ákveðnum málum, haft áhrif á löngum tíma. Skýrasta dæmið, fyrir utan baráttuna gegn kommúnismanum á tímum kalda stríðsins, var baráttan fyrir auðlindagjaldi. Sú barátta okkar, sem ég átti ekki upphaf að heldur Matthías, tel ég að sé eitt af því merkasta sem blaðið skildi eftir sig á þeim tíma. Þessi barátta í áratug skilaði þeirri niðurstöðu að auðlindagjald í sjávarútvegi var samþykkt sem prinsippmál, bæði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og síðan í löggjöf á Alþingi. Upphæðirnar eru svo annað mál en prinsippið var samþykkt.“

Þið Matthías störfuðuð saman í áratugi sem ritstjórar Morgunblaðsins. Kastaðist aldrei í kekki á milli ykkar á þessum tíma?

„Ég held að Matthías hafi reiðst rosalega út í mig í einhver tvö eða þrjú skipti. Það gekk bara yfir. Samstarf okkar var í raun og veru alveg frábært. Þótt við værum þarna ritstjórar saman í langan tíma leit ég alltaf svo á að Matthías væri sá maður sem hefði síðasta orðið í okkar samstarfi.“

Þú gerðir það?

„Að sjálfsögðu. Hann var búinn að vera ritstjóri blaðsins miklu lengur en ég og bjó yfir meiri reynslu og meiri þroska. Ég leit svo á að ef okkur greindi á þá væri það hann sem réði. Þar að auki áttaði ég mig smám saman á því að tilfinningar skáldsins voru stundum réttari en það sem mér fannst vera rökhugsun í kollinum á mér. Um leið fór ég að bera afskaplega virðingu fyrir þessari undarlegu tilfinningu sem Matthías hafði fyrir umhverfi sínu. Ég áttaði mig á því að það var skynsamlegt að fylgja þeirri tilfinningu hans.“

Nú eru aðrir ritstjórar á Morgunblaðinu, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Hefur það hent að þú hafir sent þeim athugasemdir vegna efnis blaðsins?

„Ég einsetti mér þegar ég hætti á blaðinu að ég myndi aldrei plaga eftirmenn mína með athugasemdum. Ég þekkti sjálfur hvernig það var að sitja þarna og fá athugasemdir úr öllum áttum. Ég hef aldrei verið með neinar slíkar athugasemdir, hvorki við ritstjóra blaðsins né aðra.“

Þroskandi lífsreynsla

Þú hefur skrifað um ýmislegt, þar af mikið um málefni þeirra sem glíma við geðræn veikindi og ástæðan er að kona þín, Sigrún Finnbogadóttir, glímdi við slík veikindi. Þú skrifaðir bók um þau veikindi, Ómunatíð – saga um geðveiki. Hvarflaði aldrei að þér að leyna þessum veikindum og vera ekki að skipta þér af þessum málum opinberlega?

„Mín fyrstu viðbrögð þegar þetta kom upp í okkar lífi voru að þetta mætti enginn vita. Það var bara nokkuð sem ég hafði verið alinn upp við. Í móðurætt minni, sem er af Vestfjörðum, er geðveiki og slík vandamál útbreidd. Ég átti móðursystur sem var alvarlega geðveik og það var aldrei um það talað

Smátt og smátt áttaði ég mig á því að það var ekki hægt að þegja um þetta. Það vissu allir að Sigrún væri orðin geðveik. Þá fór ég að svara spurningum. Hins vegar fann ég enga þörf fyrir að skrifa neitt um þetta í Morgunblaðið fyrr en Tómas Helgason hafði samband við mig þegar bygging nýrrar geðdeildar Landspítalans var til umræðu. Ég lagði Tómasi svolítið lið þegar hann var að koma því í gegn. Það voru mín fyrstu afskipti á síðum Morgunblaðsins af þessum málum. Hópur ungs fólks kom líka til mín og vildi vinna í þessum málum á öðrum nótum en gert hafði verið. Það voru Elín Ebba Ásmundsdóttir, sem nú er með Hlutverkasetur, og Anna Valdimarsdóttir, sem stofnaði klúbbinn Geysi, en ég hjálpaði henni aðeins með það og beitti blaðinu í þágu þess málstaðar, Auður Axelsdóttir, sem nú er með Hugarafl, Héðinn Unnsteinsson, sem ungur fór að skrifa um þennan málaflokk, og fleiri.

Þegar ég fór að fjalla um þessi mál opinberlega þá áttaði ég mig á því að það var fólk úti um allt sem var alið upp eins og ég; að um þetta talaði maður ekki. Ég fór að átta mig á að það væri hægt að hjálpa fólki með því að tala um þessi mál og þess vegna fór ég að gera meira af því. Ég hef ekki séð eftir því, ég hef fundið að það hefur þurft að opna þessa umræðu. Þessi lokun á umræðunni um sjúkdóminn var mikið farg á fólki sem glímdi við hann og aðstandendur þess.“

Það hlýtur að taka á að búa með manneskju sem glímir við þessi veikindi.

„Auðvitað var þetta erfiðast fyrir hana. Þetta var líka erfitt fyrir mig og erfitt fyrir dætur okkar. En á ákveðnum tímapunkti áttaði ég mig á því að þessi lífsreynsla var þroskandi. Sennilega höfum við öll öðlast meiri víðsýni en ella.

Ég man alveg hvernig ég var þegar ég var að byrja starf í Heimdalli. Ég var mjög þröngur í hugsun. Það getur vel verið að þessi lífsreynsla hafi gert að verkum að mín hugsun hafi opnast og ég hafi verið betur fær um að sinna starfi mínu á Morgunblaðinu af þeim sökum heldur en ef ég hefði verið áfram hinn litli þröngi Heimdellingur í hugsun.

Svona lífsreynsla hverfur ekki. Hún fylgir manni til æviloka. Ég held reyndar að hún muni líka fylgja dætrum okkar til æviloka.“

Ævi forfeðranna

Við erum búin að tala um pólitíkina en hefurðu skoðanir í trúmálum?

„Ég hef aldrei komist í samband við Guð. Ég var að vísu sendur í KFUM þegar ég var krakki, eins og var algengt í Vesturbænum. Það hafði engin sérstök áhrif á mig. Það var ekki talað um trúmál á mínu heimili. Ég varð nokkuð hissa þegar ég uppgötvaði að móðir mín hafði talað um trúmál við dætur mínar.

Stundum hef ég verið hrifinn af kaþólsku kirkjunni sem stofnun. Mér hefur þótt einstaka páfar vera mjög merkilegir. Mér finnst núverandi páfi merkilegur. Mér fannst Jóhannes Páll páfi 2 merkilegur og sömuleiðis Jóhannes 23. En mér hafa ekki þótt boðberar kristinnar trúar á Íslandi skera sig úr nema einn maður. Það er eini maðurinn sem hefur haft einhver áhrif á mig að þessu leyti sem var Sigurbjörn Einarsson biskup.

Sumir vinir mínir hafa sagt mér að þeir vorkenni mér fyrir að vera ekki trúaður. Þá bara er það þannig.

Maður lærir afskaplega margt í lífinu. Æ meir sæki ég í að kynna mér ævi forfeðra minna. Föðuramma mín var ættuð úr Skaftafellsýslum og átti um skeið heima á bæ sem hét Eintúnaháls og er fjarri öllum öðrum bæjum í Vestur-Skaftafellssýslu. Mér er ómögulegt að skilja hvernig fólk gat lifað þar af. Þessi amma mín missti manninn sinn mjög snemma og ól upp fjögur börn þeirra og tvö börn hans af fyrra hjónabandi. Ég skil ekki enn þann dag í dag hvernig hún fór að því að byggja hús yfir börnin. Hún lifði á því að selja kost og rak saumastofu um skeið.

Móðuramma mín var sveitastúlka úr Djúpinu og afi minn reri á árabát frá Skálavík sem er fyrir vestan Bolungavík. Ég hef sótt á þessa staði báða. Einu sinni kom ég á bæ í Djúpinu sem langamma mín átti heima á. Þessi bær heitir Hagakot. Það var afskaplega undarlegt að koma þangað. Bærinn er í eyði en allt í einu fannst mér eins og ég hefði alltaf átt heima þar.

Ég velti þessu fólki fyrir mér og lífi þess og því hvers konar líf þetta hefur verið á Íslandi fyrir hundrað árum. Þá var ekki sjálfgefið að komast af. Það hefur verið mikill dugnaður í fólki hér á landi bæði á 19. öld og snemma á 20. öld.

Þetta er merkilegt land og saga þessarar þjóðar er sömuleiðis merkileg. Mér finnst fólk þurfa að hafa sterkari tilfinningu fyrir þessari litlu þjóð, þessu landi og þessari sögu. Mér finnst of mikið um að fólk geri lítið úr Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna