Harry Bretaprins var nýlega í opinskáu viðtali við bandaríska tímaritið Newsweek. Þar sagði hann meðal annars að enginn meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hefði áhuga á að verða kóngur eða drottning. „Við erum að nútímavæða konungdæmið. Við erum ekki að þessu fyrir okkur sjálf heldur í þágu fólksins.“
Hann var greinilega ekki sáttur við að hafa þurft að ganga á eftir líkkistu móður sinnar tólf ára gamall. „Það ætti ekki að biðja nokkurt barn um að gera slíkt, ekki undir neinum kringumstæðum,“ sagði hann. „Ég held að þetta myndi ekki gerast í dag.“ Ljóst er að Díana hefur verið mikill áhrifavaldur í lífi Harrys og í viðtalinu lofar hann hana fyrir að hafa sýnt honum líf venjulegs fólks.
Prinsinn, sem þykir á stundum vera mikill æringi, hefur átt sínar myrku stundir. Mörgum árum eftir dauða móður sinnar leitaði hann til sálfræðings til að takast á við hinn sára missi. Í viðtalinu ræðir hann um kvíðaköst sem hann fékk á tímabili þegar hann þurfti að vera í herbergi þar sem fjöldi fólks var saman kominn og allra augu voru á honum. „Ég var í svitabaði og hjartað sló ákaft.“ Hann líkir starfsemi líkamans á þessum stundum við þvottavél. „Ég hugsaði: Guð minn góður, ég verð að komast burt. Nei, bíddu, ég kemst ekkert, ég verð að fela þetta.“
Harry segist sjálfur sjá um innkaup sín og ætli aldrei að hætta því, jafnvel þótt hann yrði kóngur. Hann sagðist staðráðinn í því verði hann faðir að sjá til þess að börnin fái að lifa tiltölulega eðlilegu lífi.