fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Pétur fann hjartað fyrir vestan: „Á þessum tíma var ég dálítið týndur í lífinu“

Pétur Georg Markan lýsir sér sem landsbyggðarjafnaðarmanni – Stýrir Súðavík en telur ljóst að sameina verði sveitarfélagið öðru – Segir Samfylkinguna fara erindisleysu á landsbyggðinni

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. júní 2017 11:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég fór vestur nítján ára til að spila fótbolta og kláraði líka síðasta árið í menntaskóla þar. Ég var bara ungæðislegur, meðalgóður. Þarna varð ég að fótboltamanni, en svo miklu meira líka. Ég spilaði með BÍ í þriðju deildinni og varð fyrirliði. Þetta eru árin sem ég varð að manni. Á þessum tíma var ég dálítið týndur í lífinu. Mér leið eins og tinkarlinum í Oz, það vantaði í mig hjarta og ég var að leita að því. Það reyndist hins vegar fullkomin ákvörðun fyrir mig að fara vestur. Tónlistarmenn geta spilað alls konar tónlistarstefnur en svo finna þeir einhvern veginn umhverfið sitt, sinn rétta tón, hvernig hjartað slær allt í einu í takt. Þetta finn ég fyrir vestan, hjartað. Umhverfið passar mér, það virkar fyrir mig.“

Það er óhætt að segja að Pétur Georg Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, hafi fundið sig á Vestfjörðum. Borgarbarnið úr Fossvoginum fór vestur árið 2000, nýlega búið að missa föður sinn, áttavillt en fann leiðina sína undir fjöllunum, við hafið, með fólkinu fyrir vestan. Hann lýsir flutningnum vestur, þar sem hann tókst á við átök fylgjandi því að verða fullorðinn, að byggja sig upp, sem bestu ákvörðun sem hann hefur tekið í lífinu. Á þeim grunni byggði hann þegar hann sneri aftur suður í nám og lífið sem beið fyrir sunnan. Tólf árum seinna sneri hann aftur vestur þar sem hans tónlist ómar ennþá.

Knattspyrnumaður og félagsvera

Pétur Georg Markan er fæddur árið 1981 í Reykjavík, sonur Harðar M. Markan og Ísabellu Friðgeirsdóttur, og ólst upp í Fossvoginum. „Ég held að það sé tvennt sem einkennir mig og hvernig ég mótaðist. Annars vegar var pabbi gamall knattspyrnumaður og það hafði áhrif á mig, ég mótaðist af því, æfði knattspyrnu fram eftir öllu og varð síðan knattspyrnumaður. Hitt er að að ég er mikil félagsvera og fór strax að taka forystu, hvort sem það var sem bekkjarformaður, formaður í nemendaráðum, í háskólapólitík síðar meir og svo framvegis.“

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort ég gefi kost á mér að nýju“

Líklega er þessi lýsing Péturs á uppvexti sínum rétt enda var hún fyrirboði þess sem síðar varð. Pétur spilaði knattspyrnu með ýmsum liðum, Fram, Víkingi, Fjölni og Val þar á meðal, og þótti sterkur leikmaður. Aldrei bestur kannski en öflugur og leiðtogi á vellinum. Kannski hefði hann orðið enn sterkari leikmaður ef annað hefði ekki togað í hann, félagsmálin og pólitíkin. „Ég er alinn upp á pólitísku heimili, svona kvennalista- og allaballaheimili. Félagsveran í mér kemur frá mömmu, það er hennar innlegg í mig. Ég upplifði stofnun Samfylkingarinnar í gegnum mömmu og var frá upphafi hluti af Samfylkingunni,“ segir Pétur en bætir við að það hafi verið árin í Háskóla Íslands, þar sem hann lærði guðfræði, sem urðu til þess að pólitíkin varð förunautur hans fyrir alvöru í lífinu.

„Það sem breytti mér frá því að vera ungur maður sem varð fyrir pólitískum áhrifum heimilisins og í það að hafa sterkar hugmyndir um pólitík, verða þar leikandi, var háskólapólitíkin. Ég skráði mig í guðfræði og gekk strax í Röskvu, samtök félagshyggjufólks í háskólanum. Við unnum meirihlutann í stúdentaráði í bæði skiptin sem ég tók þátt, í fyrsta skipti í langan tíma. Það gerðist, að ég tel, vegna þeirra áherslubreytinga sem við lögðum út í. Þú verður að hafa hugsjón og sýn, en þú verður líka að skilja fólkið. Það þýðir ekki að mæta alltaf fólki með því að segja því hvernig hlutirnir eigi að vera. Það skilar engu. Við fórum í markvissa vinnu í að skoða hvaða angar af háskólanum kusu aldrei Röskvu. Það kom til dæmis í ljós að lögfræðideildin kaus sjaldnast Röskvu. Og þá þurfti bara að tækla það, skilja fólkið, hvað það vildi, mæta því með þjónandi forystu. Þannig virkar lýðræðið, það virkar ekki að vera einstrengingslegur.“

„Mér leið eins og tinkarlinum í Oz, það vantaði í mig hjarta og ég var að leita að því.“
Fann hjartað fyrir vestan „Mér leið eins og tinkarlinum í Oz, það vantaði í mig hjarta og ég var að leita að því.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Samfylkingin kann ekki leikinn

Pétur varð framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2008 til 2009 en á svipuðum tíma fór hann að gera sig gildandi í starfi Samfylkingarinnar. Árið 2009 varð hann formaður Hallveigar, ungliðahreyfingar flokksins í Reykjavík, og hann var einnig varaþingmaður Samfylkingarinnar kjörtímabilið 2009 til 2013. „Ég var varaþingmaður í Jóhönnustjórninni, kom inn á þing, og ég er mjög stoltur af því að hafa tekið þátt í því verkefni og að hafa látið til mín taka. Það er ótrúlega margt sem þar kláraðist sem er enn í dag að veita okkur meðbyr inn í framtíðina.“

Pétur hefur miklar skoðanir á flokknum sínum sem hann segir að sé úr tengingu við landsbyggðina og eins lengi og ekki verði tekið á því fari flokkurinn þar erindisleysu. „Upphafið að Samfylkingunni var auðvitað að ná saman þessum vinstri væng og skapa á sama tíma rótfasta tengingu við miðjuna. Að mínu viti er greiningin á vandræðum Samfylkingarinnar í dag, sem eru veruleg, röng. Það er oft talað um Jóhönnutímabilið eins og það hafi verið svo ægilegt og þar eigi hnignunin rót sína. Jóhönnutímabilið var ekkert agalegt, þetta var bara erfitt kjörtímabil og erfið verkefni sem þurfti að takast á við með alvöru hugmyndafræði og mikill árangur sem náðist, sem njótum í dag. Vandamál Samfylkingarinnar er miklu fremur að hún er rótsterkur borgarflokkur sem nær árangri, en er á sama tíma hins vegar alveg vonlaus landsbyggðarflokkur. Hún kann ekki á landsbyggðina. Hún hefur ekki erft hæfileika fyrirrennara sinna í þeim efnum, hún spilar ekki leikinn og kann það ekki. Samfylkingin hefur ekki verið raunverulegur valkostur fyrir nema bara algjört kjarnafylgi á landsbyggðinni, hún nær ekki breiðari skírskotun. En þrátt fyrir allt var það þetta sem bjargaði henni í síðustu kosningum, íhaldssami landsbyggðararmurinn ákvað að standa áfram við bakið á flokknum sínum.“

Gæti hugsað sér að taka forystu í flokknum

Þetta er Pétri augljóslega hjartans mál, sem jafnaðarmanni og landsbyggðarmanni í senn. En því er eðlilegt að spyrja hann hvort hann eigi enn samleið með flokknum sem hann hefur fylgt frá upphafi. „Ég er félagi í Samfylkingunni en ég get ekki sagt að ég sé mjög virkur í dag. Ég hef ekki snúið baki við flokknum, en er óvirkur félagi. Það er allt í lagi að skipta um skoðanir, ef þú gerir það að rökstuddu máli. Þá á fólk að gera það. Stjórnmálamenn eiga líka að gera það og skipta um flokka ef þeir eiga ekki samleið með þeim lengur. Ég hins vegar hef bundið trú mína við jafnaðarmennskuna og hef, þrátt fyrir að hún hafi farið erindisleysu á landsbyggðinni, fylgt Samfylkingunni og geri enn.“

„Ég er landsbyggðarjafnaðarmaður úr borginni, þannig forystumaður yrði ég alltaf“

Gætir þú hugsað þér að stíga upp og láta til þín taka, breyta þessu, að byggja upp Samfylkinguna hvað þetta varðar?
„Já. Ég var einu sinni með knattspyrnuþjálfara sem hefði útskýrt þetta svona: Ef þú situr á bekknum og vilt ekki láta skipta þér inn á, þá ertu á röngum stað í lífinu. Hafandi sagt þetta þá sé ég kannski ekki að þetta sé alveg á döfinni hjá mér en ég er í stjórnmálum og skilgreini mig sem pólitíkus. Ég kaus núverandi forystu, og finnst að þau eigi skilið tíma og tækifæri til að snúa genginu við. En ég er alltaf klár í takkaskónum, sinni núna stóru verkefni fyrir vestan og meðan ég er á lífi í pólitík og á kafi í verkefnum sem skila árangri, þá hlýtur þetta að koma til tals eins og hvað annað. Ég er landsbyggðarjafnaðarmaður úr borginni, þannig forystumaður yrði ég alltaf.

Kjarninn í okkur er félagshyggja. Móralska, siðaða veran í okkur er félagshyggjuvera, hún er jafnaðarmaður. Hún vill láta sér lynda við aðra og hún vill jöfn kjör, jöfn tækifæri. En það þarf að finna leiðina til að raungera þetta. Og þarna, aftur, er Samfylkingin ekki búin að finna leiðina úti á landsbyggðinni. Það er oft afskaplega erfitt að tala um landsbyggðarmál eins og samgöngur innan Samfylkingarinnar, það er ekki rennifæri í þeim efnum. En byggðastefna er hins vegar jafnaðarmennska. Það er afar stórt mál en það þykir ekki sexí innan Samfylkingarinnar. Kristján Möller er til dæmis frábært dæmi um þetta, sigrandi landsbyggðarkrati sem aldrei náði meginstraumsvinsældum innan flokksins. Samfylkingin verður á einum eða öðrum tíma að horfast í augu við þetta og taka sér tak.“

Stjórnmálin höfðu betur gegn knattspyrnunni

Pétur hélt aftur vestur árið 2011, í því skyni að klára knattspyrnuferilinn sem fyrirliði BÍ/Bolungarvíkur, þar sem hann byrjaði af alvöru. Pétur var ekki svo gamall þá, 31 árs, og hefði getað átt mörg ár eftir í boltanum. Af hverju ákvað hann þá að fara vestur með það að markmiði að klára ferilinn? „Félagsveran í mér hefur alltaf átt meira í mér en fótboltamaðurinn. Ég er líka betri stjórnmálamaður en fótboltamaður, ég var bara í meðallagi sem fótboltamaður. Ég er samt rosalega þakklátur fyrir ferilinn minn. Ég átti mjög gott tímabil í úrvalsdeildinni með Fjölni sumarið 2008, fór þaðan í Val og leit á það sem frábæra upplifun, að spila með góðum klúbbi og frábærum leikmönnum. Ég var svo sem í svona hálfgerðu ströggli þar sumarið 2009 en það skipti mig bara engu máli því ég hef kannski aldrei litið á mig sem fótboltamann í grunninn. Það sést kannski best á því að þetta var stóra tækifærið mitt, að vera fenginn yfir í Val. Ég hins vegar eyddi nánast öllu vorinu og undirbúningstímabilinu í kosningabaráttu með Samfylkingunni því það var það sem ég brann fyrir. Þannig var forgangsröðunin hjá mér, þetta er ástríðan mín. Ég gat ekki sleppt því að taka þátt í þessu, á ótrúlega spennandi tíma uppgjörs og upprisu Íslands.

Pétur segist hafa orðið að knattspyrnumanni þegar hann fór fyrst vestur, þá 19 ára. Hann spilaði í meistaraflokki í rúman áratug og lauk ferlinum þar sem hann hófst, fyrir vestan.
Fór vestur til að klára ferilinn Pétur segist hafa orðið að knattspyrnumanni þegar hann fór fyrst vestur, þá 19 ára. Hann spilaði í meistaraflokki í rúman áratug og lauk ferlinum þar sem hann hófst, fyrir vestan.

Ég flutti síðan vestur árið 2011 og fór að vinna sem framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfjarða. Ég og konan mín fluttum til Súðavíkur og ég byrjaði eiginlega strax að skipta mér af pólitíkinni því þannig er ég bara. Síðan kom að sveitarstjórnarkosningum og þá var farið af stað. Við buðum fram bæjarmálalista sem hét Hreppslistinn og þar var mér stillt upp sem sveitarstjóraefni. Við fengum góða kosningu og ég varð sveitarstjóri.“

Ekki hluti af ættbálkasamfélaginu

Það er ekki endilega auðvelt verkefni að stýra litlu sveitarfélagi, bæði sökum þess að rekstur þess getur reynst þungur, en einnig vegna þess að návígið við íbúana getur stundum reynt á, þó að það sé jafnan kostur. „Ég er ekki hluti af ættbálkasamfélaginu fyrir vestan, það skiptir máli að átta sig á því. Til að ná árangri í pólitík, sérstaklega fyrir vestan, þarf maður að átta sig á svo mörgu. Maður þarf auðvitað í fyrsta lagi að brenna fyrir hugmyndum og hugsjónum en líka að geta lesið félagslegu lagskiptinguna. Það er svo margt sem bera þarf skynbragð á til að þoka manni áfram og mér hefur gengið það býsna vel.“

Þegar Pétur tók við sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps stóð hreppurinn ekki sérstaklega vel fjárhagslega að hans sögn. „Það lá fyrir að það væru framundan svona þrjú ár af íslensku góðæri og það er mjög skynsamlegt, fyrir lítil sveitarfélög allavega, að safna forða á slíkum tíma. Fámenn sveitarfélög spila annan leik en önnur sveitarfélög, því vilji hins opinbera hefur verið, og er, að fækka sveitarfélögum. Ég sem sveitarstjóri, og sem kjörinn fulltrúi einnig, hef ekki umboð til slíkra samræðna, það var ekki kosið um sameiningar í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Mér ber því að tryggja sjálfstæði og framtíð sveitarfélagsins. Sjálfstæði sveitarfélagsins er ekki bundið tilfinningum heldur fjárhagslegum styrk og sjálfbærni, eins og sannaðist varðandi Álftanes. Ég hef því lagt áherslu á að safna í sjóði með þetta að markmiði og það hefur gengið býsna vel að mínu viti. Sveitarfélagið stendur vel í dag og hefur tekið mikinn viðsnúning á síðastliðnum þremur árum.“

Sveitarfélög fyrir vestan hljóta að sameinast

Getur sveitarfélag eins og Súðavík staðið eitt og sjálfstætt til framtíðar, í nútímanum? Væri ekki kostur að stjórnsýslueiningar stækkuðu?
„Ég hef sagt það, í ræðu og riti, að framtíðin hlýtur bera það í skauti sér að sveitarfélögum muni fækka. Á Vestfjörðum mun sveitarfélögum fækka, það er augljóst. Þetta verkefni bíður Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkurhrepps væntanlega, að sameinast í eitt sveitarfélag í einhverri óræðri framtíð. Allt lítil sveitarfélög sem hefðu gott af því að styrkjast. Þegar við göngum út frá þessari forsendu, þá er alltaf betra að vera á undan en þurfa ekki að bregðast við skipunum að ofan. Það er ábyrgt og skynsamlegt. Það eru mestar líkur á að það skili sem bestri niðurstöðu. Hins vegar er staðan sú að það var ekki kosið um þetta síðast og ég lít svo á að það þyrfti að koma til einhvers konar samþykki, umboð íbúa Súðavíkurhrepps til að fara í slíkt.“

Finnst þér að slík umræða eigi að fara fram í aðdraganda næstu kosninga, um sameiningar sveitarfélaga?
„Mér finnst það, já. Tökum bara Súðavíkurhrepp sem dæmi. Það væri ekki óeðlilegt að samhliða næstu kosningum myndu kjósendur lýsa sinni skoðun á því hvort veita ætti næstu sveitarstjórn umboð til að vinna að þessum málum. Mér þætti það eðlilegt og í raun væri það mjög gott veganesti fyrir næstu sveitarstjórn að hafa. Ef svarið er já, þá er hægt að einhenda sér í að skoða þau mál en ef svarið er nei, þá nær það ekki lengra, þá þarf ekki að láta málið trufla sig það kjörtímabil.“

Pétur segir flokkinn sinn, Samfylkinguna, fara erindisleysu úti á landsbyggðinni. Flokkurinn skilji ekki landsbyggðina og kunni ekki á hana. Það verði flokkurinn að horfast í augu við og taka á.
Gæti hugsað sér að taka forystu Pétur segir flokkinn sinn, Samfylkinguna, fara erindisleysu úti á landsbyggðinni. Flokkurinn skilji ekki landsbyggðina og kunni ekki á hana. Það verði flokkurinn að horfast í augu við og taka á.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ekki ákveðinn í að gefa kost á sér að nýju

Staða fámennra sveitarfélaga er að mörgu leyti veik sem fyrr segir, verði þau fyrir áföllum í fjárhagslegu tilliti til að mynda. Lítil sveitarfélög eiga erfiðara með að standast stór áföll. En lítið sveitarfélag sem stendur vel getur líka gert margt sem stærri sveitarfélög eiga erfitt með. „Ég er ekki viss um að það sé neitt lítið sveitarfélag sem stendur eins vel og Súðavík þegar kemur að skólamálum til dæmis. Skólinn er eingöngu mannaður réttindakennurum, leikskólinn er gjaldfrjáls og tónlistarskólinn er niðurgreiddur. Þetta er mögulegt af því að við erum lítið sveitarfélag sem ræður sér sjálft og við sjáum til þess að reksturinn standi undir þessu. Ef við værum lítil eining undir Ísafjarðarbæ þá gætum við ekki gert þetta,“ segir Pétur

Muntu gefa kost á þér til áframhaldandi setu við næstu kosningar?
„Líf sveitarstjórans er bara bundið við kjörtímabil og það eru forréttindi að þjóna fólki, reka samfélag vel og ná árangri. Ég veit það bara ekki. Okkur líður mjög vel fyrir vestan, fjölskyldunni, þannig að það eru engar breytingar á búsetu í kortunum. En nei, ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort ég gefi kost á mér að nýju. Ég held að það sé ótímabært að gera það á þessu stigi en ég væri að ljúga að þér ef ég segðist ekki vera að hugsa um það. Ég hugsa um það á hverjum degi, um hvað ég hef áhuga á að gera.“

Vill lagasetningu og veg í gegnum Teigsskóg

Málefni Vestfjarða eru Pétri hjartans mál og hann er formaður Fjórðungssambands Vestfjarða. „Við fórum af stað með tvö stór verkefni á þessu starfsári FV, sem ég er afar stoltur af að hafa náð að klára. Persónulegur sigur fyrir mig. Annars vegar Vestfjarðarstofa, sem mun halda á atvinnuþróun og byggðarþróun Vestfjarða og síðan hafa sveitarfélög á Vestfjörðum samþykkt að hefja vinnu við sameiginlegt svæðisskipulag. Bæði verkefni höfðu verið lengi í umræðu, en ekki fengið líf. Með elju, góðri pólitík og dugnaði var þeim siglt í höfn, Vestfjörðum til framfara og heilla.“

„Þetta verkefni bíður Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkurhrepps væntanlega, að sameinast í eitt sveitarfélag í einhverri óræðri framtíð“

Flestir Vestfirðingar eru sammála um að biðin eftir samgöngubótum á svæðinu hafi verið óskaplega löng, fyrst á norðanverðum fjörðunum og nú enn á sunnanverðum fjörðunum. Eru Vestfirðir afskiptir hjá stjórnvöldum?
„Já og nei. Já, við höfum ekki fengið eðlilega samgönguuppbyggingu árum saman. Hins vegar er búið að samþykkja Dýrafjarðargöng núna, það er búið að fara með þau í útboð og verkið er að hefjast. Samhliða því hljóta menn að ætla að klára Dynjandisheiði. Hins vegar stendur þá eftir stóri slagurinn um vegalagningu um Gufudalssveitina. Það er nokkurn veginn komin á, að ég tel, pólitísk sátt um vegalagningu þar en þetta er umhverfis- og skipulagsmál, á því strandar það. Það er mögulegt að það þurfi einfaldlega að setja lög á þær framkvæmdir því mikilvægi þeirra er ótvírætt og það er hreinlega lífsspursmál fyrir suðurfirðina. Ég er á því að það eigi að gera og að leggja veginn í gegnum Teigsskóg. Það eru alltaf einhver inngrip inn í náttúruna en ég held að það sjái það allir hugsandi menn að það eru ekki til ábyrgari menn, og menn sem hafa sterkari taugar til umhverfisins, en Vestfirðingar. Það þarf ekki að segja þessum heimamönnum hvernig náttúruvernd á að vera, þetta er fólkið sem ræktaði upp Vestfirðina og gerði þá að þeim stað sem þeir eru í dag. Þetta er einlæg sannfæring mín, án þess að vera steingrár iðnaðarsósíalisti.

Við erum að upplifa kraftaverk í atvinnuuppbyggingu á suðurfjörðunum, með laxeldinu og kalkvinnslu sem þar er farin af stað. Laxeldi er matvælaframleiðsla á heimsmælikvarða sem mun hafa byltingaráhrif á þróun Vestfjarða. Ég hef notið þeirra forréttinda að vakna upp á Bíldudal klukkan sjö að morgni og finna dýnamíkina, fólk að fara í vinnu, vélarnar fara í gang, hamarshögg og allt í fullum gangi. Það eru ekki nema fimm, sex ár síðan Bíldudalur var hreinlega í líknarmeðferð, það sem skildi milli lífs og dauða var að hið opinbera hefur engan prótókoll til að taka sveitarfélög úr sambandi. Þessi viðsnúningur sem er að verða þar mun líka verða á norðurfjörðunum. Við erum að sjá fram á að eftir nokkur ár verði uppbygging á Vestfjörðum á hagrænu plani við það sem gerðist á Austurlandi þegar þar var ráðist í álversuppbygginguna.“

Afl til breytinga

Þarna er að verða uppbygging sem gjörbreytir öllu en er ekki hættulegt að leggja traust sitt í svona miklum mæli á eina stoð?
„Ég ætla ekki einu sinni að fara með klisjuna um körfuna og eggin. En það er stunduð hefðbundin útgerð á Vestfjörðum, þótt hún hafi orðið fyrir skakkaföllum í gegnum tíðina, og hún er undirstöðuatvinnugrein á Vestfjörðum. Ef við síðan bætum við fiskeldinu og ferðaþjónustunni sem annarri og þriðju stoð þá erum við komin í allt aðra stöðu en var í vestfirsku atvinnulífi, og mögulega búsetubyltingu. Fyrir þessu berst ég, til þess er ég í pólitík, að vera afl til breytinga, sem landsbyggðarjafnaðarmaður úr borginni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu