fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fókus

100 ár frá fæðingu Johns F. Kennedy

„Spyrjið ekki hvað þjóðin geti gert fyrir ykkur heldur hvað þið getið gert fyrir þjóðina“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. júní 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt hundrað ár eru liðin á þessu ári frá fæðingu Johns F. „Jack“ Kennedy, eins ástsælasta forseta Bandaríkjanna. Kennedy fæddist 29. maí árið 1917 í Brookline í Massachusetts, af írskum ættum pólitíkusa. Afi hans í móðurætt, John Francis Fitzgerald, var borgarstjóri í Boston og afi hans í föðurætt, Patrick Joseph Kennedy, sat á ríkisþingi Massachusetts. Faðir Johns, Josep Patrick Kennedy, var einnig áhrifamikill í stjórnmálum vestanhafs og gegndi meðal annars stöðu sendiherra gagnvart Bretlandi undir forsetatíð Franklins D. Roosevelt.

Það má því segja að braut Kennedys hafi verið vörðuð þegar í upphafi og raunar ekki bara hans því tveir yngri bræður hans helltu sér einnig af afli út í pólitíkina, þeir Robert „Bobby“ og Edward „Ted“ Kennedy. En af þeim bræðrum klifraði Jack stigann hæst og náði mestum frama.

Kennedy var fyrst kjörinn á Bandaríkjaþing, í fulltrúadeildina, árið 1947 og sat þar til ársins 1953, þegar hann náði kjöri í öldungadeildina. Árið 1960 fór Jack fram sem fulltrúi demókrata í forsetakosningunum og hafði nauman sigur gegn Richard Nixon. Forsetatíð hans var þrungin spennu en í hans tíð margfölduðust hernaðarumsvif Bandaríkjanna í Víetnam. Kalda stríðið stóð sem hæst og árið 1961 gerðu Bandaríkjamenn misheppnaða innrás á Kúbu, í Svínaflóa. Kúbudeilan náði að segja má hámarki sínu árið eftir, í október, þegar njósnir bárust af því að Sovétmenn hefðu sett upp eldflaugaskotpalla á Kúbu, nánast í bakgarði Bandaríkjanna. Kennedy brást við með því að setja hafnbann á eyjuna og hóta árás ef sovésk skip ryfu hafnbannið. Flutningaskip sovéska hersins hurfu frá hafnbannslínunni á síðustu stundu. Kennedy náði samkomulagi við leiðtoga Sovétríkjanna, Nikita Krússjeff, um lausn á deilunni og var hampað sem þjóðhetju heima fyrir fyrir að hafa staðið í lappirnar gegn óvininum.

Jack ásamt Jackie, John og Caroline.
Ljómandi fjölskylda Jack ásamt Jackie, John og Caroline.

„Hvað verður um Jackie og börnin?“

Jack giftist árið 1953 Jacquline „Jackie“ Bovier og áttu þau fjögur börn. Fjölskyldan þótti hafa yfir sér glæsibjarma enda þau hjón geislandi og alúðleg. Dauði Jacks 22. nóvember árið 1963 varð því mörgum harmdauði, bæði innanlands sem og á alþjóðavísu. Jack var ráðinn af dögum með skoti úr launsátri þegar hann var opinberri heimsókn í Dallas. Lee Harvey Oswald var handtekinn, sakaður um að hafa skotið Jack en neitaði hins vegar sök. Oswald var aldrei dæmdur sökum þess að tveimur dögum síðar var hann myrtur af Jack Ruby, að sögn í hefndarskyni vegna morðsins á Kennedy. Árum saman hefur samsæriskenningum verið haldið á lofti um dauða Kennedys og því meðal annars verið haldið fram að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi staðið að baki morðinu á honum.

DV fékk tvo íslenska stjórnmálafræðinga til að leggja mat á forsetatíð og arfleifð Kennedys, þá Ólaf Þ. Harðarson og Hannes Hólmstein Gissurarson.

Elskaður og dáður á Íslandi

Tíminn sagði Kennedy vera Framsóknarmann
Ólafur Þ. Harðarson

Ólafur Þ. Harðarson

Jack Kennedy – næstyngsti forseti Bandaríkjanna – var kaþólikki af írskum ættum. Á 19. öld voru írskir innflytjendur hæddir, smáðir og ofsóttir, líkt og múslimar í dag. En Írar náðu vopnum sínum – sumir urðu auðkýfingar – og toppur viðurkenningar írskra kaþólikka var kjör Kennedys.

Kennedy þótti ljóma af æskuþrótti – og víða um heim varð hann tákn vonar um betri veröld. Hann var baráttumaður fyrir mannréttindum svertingja og annarra sem minna máttu sín, talsmaður umbóta í skattamálum, alríkisstuðnings við menntun, geðheilbrigðisáætlunar og heilbrigðisstuðnings við aldraða. Í efnahagsmálum fylgdi hann keynesískri hagstjórn.

Í innsetningarræðu sinni 1961 útlistaði Kennedy hugmyndina um „the New Frontier“. Hann vildi halda inn á lendur vísinda og geimferða, leysa vandamál stríðs og friðar, berjast gegn fáfræði og hleypidómum, takast á við fátækt. Honum tókst að koma á laggirnar geimferðaáætlun – sem skilaði manni til tunglsins. Í félagslegum efnum átti hann hins vegar á brattann að sækja gagnvart íhaldssömu þingi. Það beið eftirmannsins Johnson, að koma í gegn réttindamálum svertingja og vísi að velferðarkerfi, oft kennt við „Great Society“.

Kennedy stofnaði Friðarsveitirnar 1961. Þær voru sveitir ungs fólks, sem átti að sinna þróunaraðstoð, einkum í menntun og landbúnað. Eftir Kúbudeiluna 1962 – þegar heimurinn stóð á barmi kjarnorkustyrjaldar – vann Kennedy að fyrstu samningum um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar, sem bönnuðu kjarnorkutilraunir ofanjarðar 1963.

Allt framangreint er talið Kennedy til tekna í dómi sögunnar. Bandarískir sagn- og stjórnmálafræðingar raða gjarnan forsetum sínum eftir gæðum: Kennedy er venjulega í hópi þeirra tíu bestu.

Helstu mistök Kennedys eru oft talin hin misheppnaða Svínaflóainnrás á Kúbu 1961 og aukin afskipti í Víetnam – þótt stríðið færi fyrst á fullt í tíð Johnson.

Kennedy var gáfaður mannvinur – frábær ræðumaður og orðhagur með afbrigðum. „Spurðu ekki hvað land þitt getur gert fyrir þig; spurðu hvað þú getur gert fyrir land þitt“ sagði hann í innsetningrræðunni. „Ich bin ein Berliner,“ sagði hann við Berlínarmúrinn. Í ávarpi til þingsins 1963 sagði hann: „Ég tala þess vegna um frið sem nauðsynlegt og skynsamlegt markmið rökvísra manna … friður í veröldinni … krefst þess ekki að allir menn elski nágranna sinn – hann krefst þess bara að þeir lifi saman við gagnkvæmt umburðarlyndi … vandamál okkar eru mannaverk – þess vegna getur maðurinn leyst þau. Og maðurinn getur verið eins mikill og hann vill.“

Kennedys er líka minnst fyrir fyrstu sjónvarpskappræðurnar við Nixon 1960. Og fyrir hinn hörmulega dauða sinn.

Kennedy var elskaður og dáður á Íslandi. Tíminn sagði að hann væri eiginlega Framsóknarmaður.

Ofmetinn sem forseti

Furðulegt að vinstri menn dýrki Kennedy
Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Í rauninni er furðulegt, að margir vinstri menn hafi dýrkað Kennedy, en hatað Nixon. Kennedy var auðmannssonur, sem fékk allt upp í hendurnar, en Nixon bjó í æsku við kröpp kjör og varð að hafa fyrir öllu sínu. Þegar eldri bróðir Kennedys féll í stríðinu, ákvað hinn metnaðarfulli faðir hans að gera hann að forseta, en þá stöðu hafði hann áður ætlað bróðurnum. Ritfærir menn voru fengnir til að skrifa fyrir hann ræður og bækur, sem hann fékk síðan verðlaun fyrir, og auðvitað kvæntist hann glæsimey, Jacqueline Bouvier, en var henni ótrúr. Nixon skrifaði hins vegar bækur sínar sjálfur og var konu sinni trúr alla ævi.

Þess má raunar geta, að Kennedy átti, á meðan hann var ungur og ólofaður, einhver stefnumót við Margréti Thors, dóttur Thors Thors sendiherra, en hún var mjög fögur stúlka og lést um aldur fram.

Kennedy var jafnmikill kommúnistaandstæðingur og Nixon og sagði eins og frægt er í innsetningarræðu sinni, að Bandaríkin myndu greiða hvaða gjald, sem þyrfti, til að berjast gegn kommúnismanum. Það var hann, en ekki Nixon, sem herti Víetnamstríðið. Það voru hrapalleg mistök, þegar hann leyfði samsærismönnum í Víetnam að myrða Diem forseta, sem hafði þrátt fyrir allt verulegan stuðning í Víetnam.

Þegar Kennedy sagði í innsetningarræðunni, að menn ættu ekki að spyrja, hvað ríki þeirra gæti gert fyrir þá, heldur hvað þeir gætu gert fyrir ríkið, var hann óbeint að boða þá skoðun, að menn ættu ekki sjálfa sig. Þeim væri skylt að fórna sér fyrir fjöldann. Í stað þess að spyrja, hvað ríkið geti gert fyrir okkur, ættum við að spyrja, hvað ríkið sé að gera okkur. Annars má Kennedy eiga það, að hann beitti sér fyrir skattalækkunum til að örva atvinnulífið, og heppnuðust þær ágætlega. Ég tel hins vegar, að hann sé ofmetinn sem forseti, og eru til þess tvær augljósar ástæður. Hann var vörpulegur á velli og kom vel fyrir, og hann hlaut sviplegan dauðdaga, áður en reynt hafði að fullu á hann og hendur hans flekkast um of. Sagan elskar þá, sem deyja ungir.

Minn gamli lærimeistari, Friedrich von Hayek, hitti bæði Kennedy og Reagan í Hvíta húsinu, og hann hafði orð á því við mig, að sér hefði fundist Kennedy miklu meiri leikari en Reagan í þeim skilningi, að hann hefði gert sér upp áhuga á hugmyndum, en Reagan hefði haft raunverulegan áhuga á þeim.

Kennedy var veginn úr launsátri þegar hann var í opinberri heimsókn í Texas.
Ráðinn af dögum Kennedy var veginn úr launsátri þegar hann var í opinberri heimsókn í Texas.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna