Breski tónlistarmaðurinn Phil Collins var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa dottið illa í hótelherbergi sínu í nótt.
Collins, sem er 66 ára, kom fram á tónleikum í Royal Albert Hall í gærkvöldi og stóð til að hann kæmi einnig fram á tónleikum í kvöld og annað kvöld. Þeim hefur hins vegar verið frestað um óákveðinn tíma.
Að sögn breskra fjölmiðla var Collins á leið á salernið þegar hann datt og hlaut höfuðáverka. Í yfirlýsingu sem birtist á opinberri Facebook-síðu hans kom fram að Collins væri viðkvæmur í fótum vegna aðgerðar á baki sem hann gekkst undir fyrir nokkru. Hann ætti það til að missa mátt í fótum og það hafi gerst í nótt með fyrrgreindum afleiðingum.
Collins var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem nokkur spor voru saumuð í höfuð hans. Collins mun vera á batavegi eftir slysið.