Grímur fór að fara í líkamsrækt árið 2012 og hjólar nú tugi kílómetra.
„Það getur komið upp eitthvað mjög hratt, þar sem menn verða að bregðast hratt við og stökkva út úr bílnum. Bæði til að sinna slysum eða alvarlegum útköllum. Það er gríðarlegt álag fyrir skrokkinn að þurfa að fara úr rólegheitum upp í mikil átök á stuttum tíma,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,í viðtali við Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2 í gær.
Grímur fór um víðan völl í viðtalinu en upplýsti meðal annars að hann hafi þyngst mikið um tíma. Hann komst þó yfir það með heilsurækt. „Ég stunda svolítið hjólreiðar og ég skokka stundum, fer í ræktina. Ég hjóla einhverja tugi kílómetra,“ sagði Grímur. Hann neitaði því að hann hafi alltaf hugsað svo mikið um heilsuna. „Stundum hefur maður tapað þessum orrustum en vonandi ekki stríðinu. Nei, nei stundum er það svoleiðis og það hefur gerst hjá mörgum lögreglumönnum að það er ákveðin óregla í vinnutíma og sú óregla getur orðið til þess að maður tapi svolítið stríðinu, eða tapi orrustum um heilsuna. Maður sefur kannski ekki vel og borðar vitlaust. Ég hef lent í því að ég þyngdist mikið,“ sagði Grímur.
Hann sagðist hafa fitnað talsvert fyrir um fimm árum. „Þetta er frá því árið 2012. Ég byrjaði bara á því að fara í líkamsrækt og fékk mér þjálfara og tók á mataræðinu. Það gekk bara ágætlega. Ég hef þá skoðun að þegar maður þarf að fara inn í álag þá er mikilvægt að vera tilbúinn til þess. Því það koma langir tímar þar sem maður er í törnum þar sem maður kemst ekkert til að sinna heilsunni og þarf þá bara að hugsa um inntökuna, hvað maður borðar,“ sagði Grímur.