Hin 85 ára sveitasöngkona Loretta Lynn er goðsögn í lifanda lífi. Fyrir skömmu fékk hún hjartaáfall og var lögð inn á spítala en er nú komin í endurhæfingu. Búist er við að hún nái sér að fullu.
Lynn hefur ekki haft nokkurn áhuga á að setjast í helgan stein. Árið 2005, þegar hún var 73 ára, fékk hún tvenn Grammy-verðlaun fyrir hljómdisk sinn Van Lear Rose. Hún heldur reglulega tónleika en í fyrra varð hún þó að aflýsa nokkrum þeirra eftir slæmt fall og fór í læknisaðgerð. Nýr geisladiskur frá henni, Wouldn’t It Be Great, mun koma út í ágúst.
Lynn eignaðist sex börn með manni sínum, Oliver Vanetta Lynn, betur þekktum sem Doo. Tvö barnanna eru látin. Þau Doo gengu í hjónaband eftir eins mánaðar kynni en Lynn var þá einungis 15 ára. Doo lést árið 1996 eftir 48 ára stormasamt hjónaband. Í ævisögu sinni sagði Lynn um eiginmann sinn: „Ég giftist Doo þegar ég var bara barn og hann var líf mitt upp frá því. Honum fannst ég vera eitthvað alveg einstakt, merkilegri en allir aðrir í heiminum og lét mig aldrei gleyma því. Doo var öryggisnet mitt. Hann var góður maður og vinnusamur. En hann var alkóhólisti og það markaði hjónaband okkar alla tíð.“
Leikkonan Sissy Spacek lék Lorettu Lynn í myndinni Coal Miner’s Daughter og hlaut Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína.