Evrópusamtök íhaldsflokka fordæma yfirlýsingarnar – Sjálfstæðisflokkurinn aðili að samtökunum
Franski forsetaframbjóðandinn Emmanuel Macron segir að verði hann kjörinn forseti muni Frakkland þrýsta á um að Evrópusambandið beiti Pólland refsiaðgerðum. Macron sagði í viðtölum fyrir helgi að hann teldi hann myndi leggja harðar línur gegn Póllandi og einnig öðrum ríkjum sem hann teldi að brytu gegn grundvallar gildum sambandsins. Með því myndi Macron taka forystu í að verja lýðræðislegan grunn sambandsins.
Macron hlaut flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi 23. apríl síðastliðinn, litlu fleiri en andstæðingur hans Marine Le Pen. Skoðanakannanir benda eindregið til að Macron muni hafa sigur í seinni umferðinni sem fram fer næstu helgi. Þau Macron og Le Pen eru andstæðir pólar í Evrópumálum, Macron er harður Evrópusinni á meðan að Le Pen vill úrgöngu Frakklands úr sambandinu.
„Þegar gildi Evrópusambandsins eru vanvirt vil ég að gripið sé til refsiaðgerða,“ sagði Macron og vísaði þar til atburða síðustu missera í Pólandi. Stjórnvöld þar í landi hafa keyrt á þjóðernishyggju og deila nú við Evrópusambandið vegna lagabreytinga sem yfirstjórn sambandsins telur að veiki meðal annars sjálfstæði dómstóla og skaði lýðræðislegt jafnvægi í landinu. Hins vegar hefur sambandið ekki enn gripið til neinna beinna aðgerða vegna þessa. Þá hafa pólsk stjórnvöld verið harðlega gagnrýnd fyrir að neita að taka þátt í aðgerðaráætlun Evrópusambandsins vegna móttöku flóttamanna og hjálpa þar með ekki til að létta þunganum af Grikkjum og Ítölum.
„Það verður tekin ákvörðun um Pólland á næstu þremur mánuðum, verði ég kjörinn forseti. Við getum ekki búið við Evrópusamband þar sem deilt er um hvern einasta lið fjárveitinga við löndin öll og þar sem lönd eins og Pólland og Ungverjaland haga sér þannig þegar kemur að námi eða flóttamönnum eða grundvallarréttindum,“ sagði Macron.
Athygli vekur að Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, hafa fordæmt yfirlýsingar Macrons. Eins og fjallað var um í DV í síðasta mánuði er Laga- og réttlætisflokkurinn pólski sem hefur hreinan meirihluta í stjórn landsins aðili að ACRE, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hér á landi. Á Facebook síðu ACRE er brugðist við yfirlýsingum Macrons. „Við fordæmum harðlega þessar áhyggjuvekjandi hótanir frá frambjóðandanum sem leiðir baráttuna um franska forsetaembættið.“