Vonsvikinn eiginmaður missti meðal annars vinnuna sína út af framhjáhaldinu
Vonsvikinn eiginmaður hefur kært söngvarann umdeilda R. Kelly fyrir að hafa eyðilagt hjónaband sitt og eiginkonunnar. Kenny Bryant frá Mississippi heldur því fram að eiginkona hans, Asia Childress Bryant, hafi átt í fimm ára ástarsambandi við söngvarann sem endaði með því að hún fór fram á hjónaskilnað. Þá heldur hann því fram að Asia hafi smitast af klamidíu eftir að hafa sofið hjá Kelly. Bryant krefst þess að söngvarinn greiði honum umtalsverðar skaðabætur fyrir misgjörðir sínar. Heavy greinir frá.
Í ákærunni kemur fram að Asia hafi átt í ástarsambandi við R.Kelly áður en hún tók saman við Bryant. Honum hafi verið kunnugt um það enda taldi að sambandinu væri lokið. Bryant og Childress gengu í það heilaga um mitt ár 2012 en nokkrum mánuðum síðar skellti Asia sér á tónleika með R. Kelly og þá hófst ástarsambandið á nýjan leik.
Að sögn Bryant þá lagði Asia hart að honum að flytjast til Atlanta-borgar undir því yfirskini að þar væri líklegra að hún fengi tækifæri sem leikkona. Hann var í góðu starfi hjá lögreglunni í heimabænum sínum en sagði upp fyrir eiginkonu sína og fluttist búferlum. Í Atlanta fékk hann enga vinnu en fljótlega áttaði Bryant sig á raunverulegri ástæðu flutninganna. R.Kelly býr í Atlanta.
Þá kemur fram í dómsskjölum að í hvert sinn sem R.Kelly hélt tónleika utan fylkisins hafi eiginkona Bryants látið sig hverfa í nokkra daga. Hún fór síðan fram á skilnað frá eiginmanni sínum á þessu ári.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að R.Kelly kemst í heimsfréttirnar fyrir vafasamt framferði en þrálátar sögusagnir um barnaníð hafa einkennt feril hans.
Hann var sakaður um að hafa að hafa gifst söngkonunni Aaliyah í laumi árið 1994. Þá var hún aðeins fimmtán ára gömul. Þau hafa bæði þvertekið fyrir að þessar sögusagnir séu sannar en R.Kelly var einskonar lærifaðir söngkonunnar á þessum árum.
Árið 1998 steig ung kona fram, Tiffany Hawkins, og sakaði söngvarann um að hafa misnotað sig ítrekað þegar hún var 15 ára gömul. Þau komust að samkomulagi að láta málið niður falla gegn því að R.Kelly borgaði Hawkins um 30 milljónir króna.
Árið 2002 birti Chicago Sun-Times frétt um myndband þar sem maður, sem fullyrt var að væri R.Kelly, sæist nauðga og hafa þvaglát á stúlku sem var undir lögaldri. Hann neitaði opinberlega að hann væri maðurinn í myndbandinu. Málið varð til þess að söngvarinn var kærður fyrir að hafa barnaklám undir höndum og í óvæntri leit lögreglu á heimili hans fundust tólf myndir af R.Kelly í kynferðislegum athöfnum með stúlkum undir lögaldri, þar á meðal þeirri sem birtist í ofangreindu myndbandi. Málið var hinsvegar látið niður falla í mars 2004 þar sem formgalli var á leitarheimild lögreglunnar.
Barnaklámsákæran fór fyrir rétt í maí 2008 en niðurstaðan var að lokum sú að kviðdómur úrskurðaði söngvarann saklausan.