René Angélil, eiginmaður söngkonunnar Celine Dion, lést árið 2016 eftir baráttu við krabbamein í hálsi. Celine tjáði sig nýlega um missinn og ræddi á hjartnæman hátt um eiginmann sinn. „René mun aldrei yfirgefa mig. Hann er alltaf í hjarta mínu. Hann kemur fram með mér á sviði. Hann kenndi mér allt sem ég kann,“ sagði hún. „Ég mun líklega syrgja alla ævi. Ég hef aldrei kysst annan mann.“ Hún segir René vera stóru ástina í lífi hennar og að hún eigi erfitt með sjá sig fyrir sér með öðrum manni. Hann hafi verið fyrsta og eina ástin í lífi hennar.
Celine leitar enn ráða hjá hinum látna eiginmanni sínum. Hún sagði að þegar hún hefði fengið tilboð um að hljóðrita Disney-lag úr Beauty and the Beast hefði hún tekið fram mynd af René og spurt hvort hún ætti að taka tilboðinu og fengið það svar að hún hefði engu að tapa.
Celine og René áttu saman þrjá syni, hinn sextán ára gamla René-Charles og tvíburana Eddy og Nelson. René var 73 ára gamall þegar hann lést. Hann var umboðsmaður söngkonunnar en þau hittust fyrst þegar hún var 12 ára og hófu samband sitt þegar hún var 19 ára. Örfáum dögum eftir dauða René lést bróðir Celine úr krabbameini 59 ára gamall.