fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

Stórleikari og kvennagull fagnar stórafmæli

Jack Nicholson er orðinn áttræður

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 26. apríl 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jack Nicholson er talinn í hópi bestu leikara sem nú eru uppi. Hann varð áttræður á dögunum og fjölmiðlar víða um heim gerðu tímamótunum vegleg skil. Hann hefur leikið í tugum kvikmynda og hefur unnið til þrennra Óskarsverðlauna; fyrir One Flew Over the Cuckoo’s Nest, Terms of Endearment og As Good as It Gets. Hann er sá karlleikari sem oftast hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, alls 12 sinnum. Fyrir nokkrum árum kvisaðist að hann hygðist draga sig í hlé frá kvikmyndaleik vegna þess að hann ætti erfitt með muna línurnar sínar. Nú heyrist að hann ætli að taka að sér aðalhlutverkið í bandarískri endurgerð þýsku myndarinnar Toni Erdmann.

Hélt að móðir sín væri systir sín

Nicholson er sterkur persónuleiki og vekur hvarvetna athygli. Sagt hefur verið um hann að hann sé maður sem karlmenn vilji líkjast og konur vilji sænga hjá. Hann segir lífsmottó sitt vera: „Fleiri góðar stundir!“ Hann er frægur kvennabósi sem var alinn upp af konum og segir að það hafi haft sín áhrif, hafi kennt honum mannasiði og hvað það sé sem konur vilja.

Hann er sonur einstæðrar móður, June, sem eignaðist hann þegar hún var 18 ára. Afi hans og amma sáu um uppeldi hans og hann hélt að June væri stóra systir hans. Hann komst ekki að hinu sanna fyrr en hann var orðinn 37 ára en þá birtist frétt um rétt móðerni hans í tímariti. Hann sagði þessa uppgötvun hafa verið ansi dramatíska en hún hefði ekki haft alvarleg áhrif á sig. Hann var sautján ára þegar hann flutti til Hollywood og stóra tækifærið kom árið 1969 þegar hann var 32 ára og lék í myndinni Easy Rider ásamt Dennis Hopper og Peter Fonda. Hann fékk fyrstu Óskarstilnefningu sína fyrir hlutverkið.

Nicholson með Dennis Hopper en þeir léku saman í Easy Rider.
Gamlir vinir Nicholson með Dennis Hopper en þeir léku saman í Easy Rider.

Mynd:

Óforbetranlegur kvennabósi

Nicholson hefur einu sinni gengið í hjónaband, kvæntist leikkonunni Söndru Knight árið 1962 og saman eiga þau dótturina Jennifer. Alls á hann fimm börn með fjórum konum. Hann segist gefa börnum sínum allan þann tíma sem þau þurfi.
Leikarinn Michael Caine sagði eitt sinn: „Ef maður skemmtir sér með Jack þá á maður að vera í gömlum fötum og þungum stígvélum vegna þess að konur troða á manni til að komast til hans.“ Fyrir tveimur áratugum sagði leikarinn: „Með sólgleraugun er ég Jack Nicholson. Án þeirra er ég feitur og sextugur.“

Aðdáendur leikarans fengu áhugaverða sýn á hann þegar ástkona hans til 17 ára, leikkonan Anjelica Huston, sendi frá sér endurminningabók sína, Watch Me. Hún lýsti Nicholson sem töfrandi manni sem væri óendanlega skemmtilegur og með bros sem engin kona fengi staðist. En hann var líka maður sem gat ekki verið henni trúr, fremur en öðrum konum. Þau kynntust, þegar hún var 21 árs, í boði þar sem þau dönsuðu saman allt kvöldið og eyddu nóttinni saman. Um morguninn sendi hann hana heim í leigubíl af því hann ætlaði að fara á körfuboltaleik. Hún segir að ekkert hafi honum þótt skemmtilegra en að horfa á íþróttir í sjónvarpi og borða pylsur með félögum sínum.

Huston yfirgaf Nicholson margoft vegna framhjáhalds hans en sneri alltaf til hans aftur. Allt breyttist árið 1990 þegar hann bauð henni út að borða og sagði henni að hann ætti von á barni með leikkonunni Rebeccu Broussard. Hann sagði henni að ekkert þyrfti að breytast í sambandi þeirra. Hún faðmaði hann að sér og sagðist ætla að slíta sambandinu. Hún stóð ekki við þau orð en nokkru seinna birtist viðtal í Playboy við unga konu sem sagði að Nicholson hefði rassskellt hana með tennisspaða í kynlífsleik. Huston hraðaði sér á fund Nicholson og lúbarði hann. Um jólin sendi Nicholson henni síðustu gjöfina sem hún fékk frá honum, perlu- og demantahálsmen sem Frank Sinatra hafði á sínum tíma gefið Övu Gardner. „Þessar perlur eru frá svíninu þínu,“ stóð á kortinu frá Nicholson.

Lengsta ástarsamband Nicholson var við hana en honum var ómögulegt að vera henni trúr.
Anjelica Huston Lengsta ástarsamband Nicholson var við hana en honum var ómögulegt að vera henni trúr.

Djúpur og alvörugefinn

Huston segir Nicholson vera tilfinningaríkan mann. „Hann er djúp og alvörugefin persóna,“ segir hún. Mótleikkona hans í myndinni Five Easy Pieces, Karen Black, lýsir honum sem forvitnum manni sem njóti þess að vera lifandi og sé alltaf tilbúinn að hlusta á nýjar hugmyndir. Leikstjórinn Stanley Kubrick, sem leikstýrði Nicholson í The Shining, sagði að hann væri vel lesinn og greindur maður og leikur hans líktist töfrum.

Nú, þegar Nicholson er orðinn aldraður maður, segir hann: „Það væri indælt að eiga síðasta ástarævintýrið, en það er ekki raunsætt að gera ráð fyrir því. Ég get ekki lengur reynt opinberlega við konu – það hæfir ekki aldri mínum.“

Nicholson með syni sínum Raymond.
Umhyggjusamur faðir Nicholson með syni sínum Raymond.

Mynd:

Nicholson er mikill íþróttaáhugamaður, eldheitur aðdáandi New York Yankees og Los Angeles Lakers. Í hita leiksins hefur það hent hann að öskra á mótherjana og eitt sinn var nærri búið að vísa honum úr stúkunni þegar hann gerði hróp að dómaranum. Hann er mikill listunnandi og á verðmætt listaverkasafn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Fókus
Í gær

Alex gisti í dýrustu lúxusvillu landsins – Sjáðu hvað nóttin kostar

Alex gisti í dýrustu lúxusvillu landsins – Sjáðu hvað nóttin kostar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Magnús Ver opnar sig um áfall: „Það var verið að reyna að hnoða hann og blása“

Magnús Ver opnar sig um áfall: „Það var verið að reyna að hnoða hann og blása“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu Sigmund Davíð í trylltum dansi á skemmtikvöldi ungra Miðflokksmanna

Sjáðu Sigmund Davíð í trylltum dansi á skemmtikvöldi ungra Miðflokksmanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Cher fékk sjokk þegar hún lét breyta nafni sínu

Cher fékk sjokk þegar hún lét breyta nafni sínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð
Fókus
Fyrir 4 dögum

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“